11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

88. mál, fátækralög

Björn Líndal:

Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi mannúðartali hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Það hljómar vel, en menn verða jafnframt að gæta þess, að níðast ekki á einum til þess að hjálpa öðrum. Jeg vil benda á örlítið dæmi í þessu máli. Það er, eins og kunnugt er, svo sterkur straumur af fólki úr sveitunum til bæjanna, að við sjálf liggur, að þær leggist í auðn. Ungur og duglegur maður, sem býr norður í landi, á erfitt með að sjá fyrir fjölskyldu sinni, þótt duglegur sje og sparsamur. Jafnaldri hans og sveitungi hefir flutt hingað suður til Reykjavíkur, og þar hefir hann, því miður, komist út á hálar brautir. Er þetta ekki sagt til þess að níða Reykjavík, heldur af því, að það er satt, að margar freistingar verða á vegi manna í bæjunum, sem ekki verða mönnum að fótakefli í sveitunum. Svo einn góðan veðurdag kemur styrkbeiðni úr Reykjavík handa þessum manni; hann er þá kominn þar í allstóra sveitarskuld. Svo á kotbóndinn, sem situr norður þar, og berst fyrir 7–8 börnum, að borga reglulega blóðpeninga fyrir Reykvíkinginn; og ef ekki er skrifleg yfirlýsing hans fyrir hendi um það, að það megi fara með sig heim í sína sveit, þá verður að ala hann á kostnað hins fátæka iðjumanns hjer í Reykjavík, þótt það sje margfalt dýrara en heima í sveitinni. Hjer er verið að stofna til hins mesta ranglætis og mannúðarleysis, ef rjett er skoðað.