12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

90. mál, ungmennafræðsla

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til að mæla á móti frv., sem fyrir liggur, eða stefnu þess. En mjer virðist, líkt og hv. þm. Dala., að markið muni vera sett nokkuð lágt með tölu þessara 5 skóla, ef á að fullnægja óskum landsmanna um stofnun ungmennaskóla, eins og þær birtast og hafa komið í ljós.

Það er ekki komin veruleg festa á þetta ungmennaskólahald úti um landið. Og þótt skólarnir sjeu þegar orðnir talsvert margir, lítur út fyrir, að þeim muni fara fjölgandi. Jeg býst við, að ef ætti að binda sig við 5 slíka skóla, fari það eins og hæstv. forsrh. (JM) benti á, að við hlið þeirra mundu starfa svo og svo margir hliðstæðir ungmennaskólar, kostaðir ýmist af einstökum mönnum eða þá hjeruðunum, og drægju þeir frá þessum ríkisskólum.

Annars finst mjer það ákaflega erfitt, að setja reglur um unglingaskólahald eitt út af fyrir sig, án þess að hugsa sjer jafnframt þrepin í menningarstiganum, bæði fyrir ofan og neðan. Mjer finst næstum ógerningur að ákveða einn flokk skóla fastlega fyr en þrep þessi eru algerlega skorðuð.

Jeg skal geta þess, að fyrir mjer hefir það vakað í þessu ungmennafræðslumáli, að skólarnir yrðu miklu fleiri en gert er ráð fyrir hjer. Ennfremur, að þeir skólar stæðu aftur í sambandi við eina 3–4 gagnfræðaskóla, sem hverfa mætti til frá þessum ungmennaskólum. Gagnfræðaskólar eru þegar orðnir tveir. Býst jeg við, að vel gæti farið á því, að þeir væru fjórir.

Út af því, sem hv. flm. (ÁÁ) tók fram um stofnun skólans á Eiðum og það fyrirkomulag, sem stofnun hans var bygð á, vil jeg geta þess, að sú aðferð getur ekki átt við um stofnun þeirra skóla, sem hjer um ræðir, af þeim ástæðum, sem hv. þm. Dala. (BJ) hefir bent á.

Ef fleiri skólum yrði komið upp á líkan veg, þá virðist mjer einna helst að hugsa sjer þá eins og gagnfræðaskóla, sem tækju við af ungmennaskólunum, skóla, sem ríkið kostaði líkt og Akureyrarskólann og væntanlega á sínum tíma gagnfræðaskólann hjer sunnanlands.

Það var mjög rjettilega tekið fram af hv. þm. Dala., að þar sem Eiðaskólinn er, þar er um samning og gjöf að ræða, og hana ekki neitt smávægilega, sem ríkið tók við, þegar það tók að sjer rekstur Eiðaskólans. Jeg ætla ekki að telja fram alt, sem fólst í þessari gjöf, en hún mun hafa verið 4 jarðir fyrir utan Eiðar, öll áhöfn á Eiðum, og alt, sem tilheyrði búnaðarskólanum gamla, þar með hús, kensluáhöld, bækur, húsbúnaður o. s. frv. í landsreikningunum er þessi eign metin um 80 þús. kr. En það er aðgætandi, að þar sem um eignina er talað, sem heild, kemur þar alls ekki fram fjenaður sá og lausafje, sem afhent var með jarðagjöfinni.

Það er því óneitanlega rjett, sem hv. þm. Dala. tók fram, að ekki verður heimfært til þessa skóla það fyrirkomulag, sem hugsað er á væntanlegum ungmennaskólum um byggingarkostnað og rekstur. Gjöfin var því skilorði bundin, að þarna eða annarsstaðar í Múlaþingi yrði haldið uppi myndarlegum og tíðarhæfum alþýðuskóla framvegis, og gjöfin var þegin með því skilorði.

Fleira skal jeg ekki að svo komnu segja um málið. En mjer virðist, að þetta fyrirhugaða fyrirkomulag geti ekki átt vel við það ástand, sem nú er og væntanlega verður á næstu árum.