11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

92. mál, slysatryggingar sjómanna

Ágúst Flygenring:

Jeg ætla ekki að flytja langt mál, þó full ástæða væri til að gera margar athugasemdir við frv. þetta. En jeg vildi benda á það, að mjer skilst ekki, á hvaða viti þessi flokkun iðgjaldanna er bygð. Eftir því sem jeg veit best, verða iðgjaldagreiðslurnar jafnan að standa í hlutfalli við ákveðið hundraðsgjald hinna ýmsu flokka, og í sambandi við áhættu þeirra. Það, sem vanalega er nefnt „forlisprocent“, er 8% af mótorbátum, en 4% af togurunum. En eftir frv. verður þetta alveg öfugt. Eftir því sem áhættan er minni, því hærri eiga iðgjöldin að vera, og hefir flm. engin rök fært fyrir því máli sínu. Það þýðir ekki að fara í kringum það, að þegar stofna á til jafnvíðtækra trygginga og hjer er, þá verða iðgjöldin að miðast við áhættu, og flokkunin að gerast eftir því, en ekki að miðast við velmegun einstakra flokka. Þar sem áhættan er meiri, á iðgjaldið að vera hærra, og lægra eftir því sem hún er minni.

Það voru þessar athugasemdir, sem jeg vildi leyfa mjer að skjóta til nefndar þeirrar, er málið fær til meðferðar, og get með þeim orðum látið máli mínu lokið að þessu sinni.