11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

93. mál, selaskot á Breiðafirði

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hygg, að óþarfi hafi verið, að leita afbrigða um, hvort frv. þetta megi takast fyrir, því jeg afhenti það á skrifstofunni daginn áður en frestinn þraut, sem þm. er settur til að bera fram frv. sín. En mjer á sama stendur, úr því að leyfið var veitt.

Mönnum eru enn í fersku minni hinar löngu og ströngu umr., sem urðu hjer á dögunum milli mín og hæstv. atvrh. (MG) út af fyrirspurn minni um selaskot á Breiðafirði. Jeg hefi beðið eftir því, að fá að vita opinberlega, hverju sýslunefndirnar hefðu svarað viðvíkjandi frv. því, sem borið var fram í hv. Ed. í fyrra, um þetta efni. þegar jeg heyrði, að sýslunefndir Dala-, Snæfellsness- og Hnappadalssýslna væru á einu máli um það, að rjett væri að færa línuna út eins og farið var fram á í frv., þá taldi jeg mjer skylt að bera málið fram á þessu þingi.

Jeg vil þá geta þess, að þar sem jeg treysti því í upphafi, að sýslunefnd Dalasýslu hefði gengið svo vel frá frv. sem unt væri, þá áleit jeg þess ekki þurfa með, að athuga nánar hversu frv. væri samið. En síðan frv. var fram borið, hefi jeg sannfærst um, að takmarkalínan á Hvammsfirði er ekki rjett hugsuð í frv. par stendur síðast í 1. gr.: „Ennfremur á Hvammsfirði utan línu, sem hugsast dregin þvert yfir fjörðinn, eina mílu innan Lambeyjar.“ Jeg er ekki að finna að því frá „geometrisku“ sjónarmiði, hvernig grein þessi er orðuð. Eins og menn sjá, er ekki ákveðinn nema einn punktur, sem er miðaður við Lambey, en gegnum þann punkt er vitanlega hægt að draga margar línur. En það er annað, sem er athugavert. Þegar jeg fór að athuga mál þetta nánar, og átti tal um það við gagnkunnugan mann þar vestra, Magnús á Staðarfelli, þá mintist jeg þess, að á ýmsum bæjum, t. d. Ljárskógum, Glerárskógum, Skarfsstaðanesi og Ketilsstöðum, sem allir eru innan línunnar, sem hugsast dregin samkv. frv.-gr., eru selalagnir. En það eitt vakir fyrir mönnum með þessu ákvæði, að þeir vilja fá selinn ófriðaðan í nánd við laxveiðiárnar, sem renna í Hvammsfjörð, til þess að því megi verjast, að hann eyðileggi laxveiði í ám þessum. Og með línunum, sem ákveðnar eru í brtt. minni á þskj. 154, er þessu fullkomlega sint, því að Ljárósar eru skamt frá Búðardal, en aðallaxveiðiárnar, svo sem Laxá og Haukadalsá falla til sjávar á ófriðaða svæðinu sunnan línunnar frá Ljárósum í Teigshyrnu. Þaðan kemur svo lina í Hólmlátursborgir, langt fyrir utan veiðiárnar. Á þennan hátt verður ófriðað alt svæðið fyrir framan veiðiámar, en hinsvegar friðaðar allar selalagnir. Mjer þykir sennilegt, að hjeraðsbúar sjálfir fái að ráða því, hvar takmörkin eru sett, og býst jeg varla við, að hv. þm. leggist á móti því, að þau verði sett þar, sem öllum málsaðilum er hagkvæmast.

Eins og kunnugt er, eru 2 frv. um svipað efni á ferðinni hjer í hv. deild. Þykist jeg vita, að frv. þetta verði fengið sömu hv. nefnd til meðferðar, sem þau frv. eru hjá. Skilst mjer rjettast, að hv. nefnd semji eitt frv. upp úr þessum öllum, þar sem þetta verður hvorttveggja sameinað, að breyta takmarkalínunum og hækka sektir fyrir ólögleg selaskot. Annars er ekki svo að skilja, að jeg vilji segja þessari hv. nefnd fyrir verkum, hver sem hún er. (Forseti, ÞorlJ: Það er landbúnaðarnefnd.) Já, er það landbúnaðarnefnd! Þessu get jeg trúað:

Fiskurinn hefir fögur hljóð,

finst hann oft á heiðum.

Ærnar renna eina slóð

eftir sjónum breiðum.