23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst við, að hv. þm. sje farið að langa til kjötkatlanna í Egiptalandi, sem þeir eiga von á í næsta máli hjer á eftir (fjárl., frh. 1. umr.), og skal því reyna að vera stuttorður. Mjer kom að vísu á óvart, að mál þetta skyldi vera tekið svo fljótt á dagskrá. Jeg hafði ætlað mjer að afla mjer skýrslna hjá þeirri stofnun, er hjer á hlut að máli, en af þessari ástæðu hefi jeg ekki enn fengið tækifæri til þess.

Jeg býst við, að mönnum sje það ljóst, að mál þetta sje ekkert hjegómamál í landi, þar sem flest eða alt, sem fer á milli manna í viðskiftum, er vegið eða mælt. Þegar verslunarveltan er farin að skifta mörgum miljónum ár hvert, ætti mönnum að vera ljóst, að nauðsyn er á góðu eftirliti með mælitækjum landsins. Og jeg hygg, að umræður þær, sem nýlega hafa farið hjer fram í öðru máli, hafi sýnt, að ekki er vanþörf á að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessu efni og setja aftur lög á þessu sviði og framfylgja þeim. Jeg hefi tekið upp í frv. þetta lög þau, sem feld voru úr gildi 1924. Þó vil jeg ekki þar með halda því fram, að þau eigi nú fullkomlega við. Ef til vill þyrfti að breyta launaákvæðum. Stofnkostnaður yrði nú lítill eða enginn. En þetta má alt athuga síðar, og nú vona jeg, að hv. deild lofi málinu að ganga til 2. umr. og allshn. Jeg býst við, að öllum hv. þm. sje jafnljóst og mjer, hvílíka nauðsyn er hjer um að ræða, og sýni það með atkvæði sínu. Annars mun jeg ekki að sinni fara lengra út í þessa sálma, nje vekja neinar deilur um málið.