23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg held, að alveg nauðsynlegt sje, að hafa eftirlit með mælitækjum og vogaráhöldum, og er að því leyti hv. flm. (BJ) sammála. En þó er jeg á þeirri skoðun, að ekki sje rjett að taka upp gömlu lögin óbreytt, heldur nema burt þá ásteytingarsteina, er þeim urðu helst að falli, t. d. einkasölu stofnunarinnar á vogaráhöldum, og eins hitt, að senda þau hingað til Reykjavíkur til viðgerðar. Enginn vill sleppa eftirliti í þessu efni. Nú sem stendur á það að vera í höndum lögreglustjóra, en jeg hygg, að því sje hæpið að treysta. Jeg get miklu fremur aðhylst till. hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að maður fari um landið og rannsaki og löggildi vogaráhöld og mælitæki. Nú stendur svo á, að maður, sem var á löggildingarstofunni, er nú atvinnulaus, og myndi hann vafalaust fást til starfans. Kostnaður ríkissjóðs við þetta yrði mjög lítill. Umsjónarmaður með þessu starfi myndi fást ríkissjóði að kostnaðlitlu. Forstöðumaður veðurathugunarstofunnar hefir sem sje gamalt loforð um, að hann skuli fá sömu laun fyrir að hafa á hendi bæði forstöðu löggildingarstörf unnar og veðurstofunnar. Hann mundi því ekki fá meiri borgun úr ríkissjóði, þótt hann sæi um mælitækja- og vogaráhaldaskoðun. En eins og ástandið er nú, að eftirlitið sje hjá lögreglustjórum, þá er þar um að segja, að þeim er mjög örðugt að framkvæma það, svo að í lagi sje, og eigi vel að vera, hlýtur það allmjög að auka skrifstofukostnað þeirra.