23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það gleðiefni, hvernig er tekið í þetta mál nú, einkum þar sem jeg var einn af þeim fáu, sem greiddu atkv. á móti niðurlagningu löggildingarstofunnar. — Skýrsla um starf hennar og eftirlit var lesin upp á þinginu 1923, en svo mikið ofurkapp var lagt á að drepa þessa stofnun, þótt hún kostaði ríkissjóð ekki nema 4–5 þús. kr. árl., að flestir hv. þm. lögðust þar á eitt. Vafalaust hefir það ráðið, að stofnun þessi var óvinsæl, ekki vegna þess kostnaðar, er hún hafði í för með sjer fyrir ríkissjóð, heldur vegna eftirlitsins með mæli og vogartækjum í landinu. (HK: Ekki vantar nú skynsamlegar tilgátur!).

Jeg held, að þm. hefðu hugsað sig um tvisvar áður en þeir námu lögin úr gildi, ef þeir hefðu kynt sjer skýrsluna 1923. En þá má segja, að ekki hafi verið árangurslaust að fara út í Krossanes, ef það yrði til þess að bætur fengjust ráðnar á þessu eftirliti. Jeg var því mótfallinn í fyrra, að fela lögreglustjórum eftirlitið, og gleður það mig að heyra, að hæstv. atvrh. (MG) tekur nú í sama streng. Jeg vil því eindregið mæla með því, að frv. fái að fara í nefnd. Hvort það beri að samþykkja óbreytt eða ekki, skal jeg láta ósagt, en það er í áttina, og vil jeg fyrir mitt leyti ekki draga úr því, að stofnun þessari verði komið á aftur í líkum stíl og áður var. Jeg efast um, að það nægi að hafa einn mann til þess að líta eftir þessum áhöldum um alt land. Hjer þyrfti líka að vera til verkstæði, til þess að gera við slík áhöld, líkt og löggildingarstofan hafði, því það munu óviða vera til verkstæði, þar sem hægt er að framkvæma svo nákvæmar viðgerðir, sem hjer er þörf á.