14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

1. mál, fjárlög 1926

Guðmundur Ólafsson:

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir nú skýrt frá breytingum Nd. og gert það allvel; en það fanst mjer athugavert í ræðu hans, að mjer skildist á honum, að það væri eiginlega vegna okkar, þingmannanna utan af landi, að fjvn. vildi ekki, að frv. færi í sameinað þing. Það er nú að vísu svo, að okkur utanbæjarþingmennina er farið að langa heim, en jeg kann þó ekki við þá skýringu, að það sje okkar vegna, að fjárlagafrv. geti ekki farið í sameinað þing. Þetta þing gæti sannarlega verið löngu búið, ef ekki hefðu átt sæti á því aðrir en þm. utan af landi.

Þá talaði hv. frsm. (JóhJóh) um lánsheimildina til tóvinnufjelags Vestur-Ísfirðinga og kvað lánsheimildina betri en ábyrgð. Það er nú svo. Jeg hygg, að lán sje ekkert betra en ábyrgð fyrir ríkissjóðinn, nema ef ekkert fje er til fyrir hendi til að lána, eins og hann gaf í skyn. Hann talaði um, að þessa lánsheimild bæri að eins að skoða sem skrautfjöður fyrir þingmann kjördæmisins. Mjer finst þá líkt mega segja um lánsheimildina fyrir sýslumann Skagfirðinga. Annars vil jeg benda á, að mjer finst ekki rjett, að stjórnin láti sína vildarmenn og velunnara sitja í fyrirrúmi fyrir andstæðingum sínum, ef eitthvert fje verður til.

Jeg er nú alls ekki ánœgður með útkomuna á fjárlögunum. Mjer þykir 1/2 milj. króna tekjuhalli of mikill. Jeg játa það þó, að tekjur eru varlega áætlaðar, svo vera má, að betur rætist úr en á horfist.