20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

114. mál, ríkishappdrætti

Jón Baldvinsson:

Hv. flm. (MJ) þurfti ekki að koma á óvart, þó að jeg væri á móti þessu frv., því að jeg hefi oft sagt, að jeg væri ekkert áfram um, að allir skapaðir hlutir kæmust undir ríkisrekstur. Jafnaðarmenn vilja þjóðnýta verslun með ýmsar helstu nauðsynjar almennings, til þess að tryggja, að verðlag þeirra keyri ekki úr hófi fram. Hinsvegar er þeim ekkert kappsmál, að ríkið taki að sjer sölu á ónytsamlegum eða jafnvel skaðlegum varningi. Jeg hefi t. d. altaf verið því mótfalinn, að ríkið verslaði með áfenga drykki, því að jeg álít, að verslun með þá eigi alls ekki að eiga sjer stað. Hv. flm. (MJ) þarf því ekki að undra, þó að jeg sje þessu frv. mótfallinn.

Jeg mintist lítillega á ósamræmi hjá honum í áætlunum um laun starfsmanna þessa fyrirhugaða happdrættis. Í greinargerð frv. er gert ráð fyrir 150 þús. kr. árlegum kostnaði við happdrættið, og er áætlað, að langmestur hluti þessarar fúlgu gangi til launa handa starfandi mönnum við fyrirtækið. þetta er 25 þús. kr. meira en varið er til háskólans í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, og um 40 þús. kr. meira en mentaskólinn kostar Hjer því ekki um neitt smáræðis bákn að ræða. Erlendis þykir einhver mesta hlunnindastaða að verða svokallaður „kollector“ við slík happdrætti. En þar vill brenna við, að slík fyrirtæki sjeu álitin hálfgerðar glæpastofnanir. Þau eru margskonar, brögðin, sem forstöðumenn svona stofnana geta haft í frammi. Þeir hafa alla seðla með höndum og geta skilið svo og svo mikið eftir, þegar dregið er, enda komast þráfaldlega upp ýmiskonar klækir, sem sýna ljóslega, að ekki er alt hreint í pokahorninu.

Hv. flm. (MJ) sagði, að menn vissu, að hverju þeir gengju. Þar væri ekki um að villast. Það er nú svo. En ekki er laust við, að misbrestur geti orðið á þessu. Venjulega er mest kappið lagt á að blekkja menn til að kaupa miða í happdrættinu, og er þá jafnan langmest látið bera á miljónavinningunum. En hverjir eru svo þeir hamingjusömu, sem stærstu vinningana hljóta? Í Danmörku er alveg hætt að spyrjast til þeirra, og svipað mun verða upp á teningnum hjer, ef að líkindum lætur.

Nei, slík aðferð til að afla ríkissjóði tekna er alveg óforsvaranleg, jafnvel þó ríkisrekstur sje á fyrirtækinu.