12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) álasaði mjer fyrir það, að jeg hefði neitað um staðfestingu á reglugerð um húsnæði í Reykjavík, sem bæjarstjórn samþykti s.l. vetur, og kvað það hafa verið hið mesta gerræði. Hv. þm. er sjaldan mjög spar á stóryrðin, en það verður minna úr, þegar hann á að fara að rökstyðja. En jeg vil benda á, hvað það var, sem sjerstaklega olli því, að neitað var um staðfestingu á þessari reglugerð; reyndar ætti hv. þm. að vera þetta kunnugt, því að hann var svo mikið riðinn við þetta mál. Hann flutti hjer sjálfur 1921 frv. um þetta efni, og í 1. gr. þess frv. voru fyrirmæli um það, að í reglugerð um húsnæði í Rvík megi bæjarstjórnin setja það, að utanbæjarmenn geti ekki fengið húsnæði hjer. Svo kemur brtt. frá núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) um að fella þetta ákvæði burtu, vegna þess að slíkt vald megi ekki veita bæjarstjórn, og það fer fram nafnakall um hana og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) greiðir atkv. með brtt. Síðan, þegar þingið er búið að lýsa yfir því, að þetta vald megi ekki gefa bæjarstjórninni, setur bæjarstjórnin þetta samt í reglugerðina, og ætlaði þannig að taka sjer vald, sem þingið vildi ekki gefa henni. Þetta varð til þess, að ómögulegt var að samþykkja reglugerðina. Auk þess var reglugerðin þannig útbúin, að hjer um bil ómögulegt var að leigja í þessum bæ, ef farið hefði verið eftir henni; altaf áttu að vera skriflegir samningar um húsnæðið og alt átti að vera staðfest af einhverri nefnd, sem bæjarstjóra átti víst að setja. Allir samningar áttu að vera ógildir, þangað til búið var að samþykkja þá af þessari nefnd. Var því miklu verra að lifa undir þeirri reglugerð heldur en undir húsaleigulögunum sjálfum. Má vera, að þau atriði hefðu þó ekki orðið þess valdandi, að það hefði orðið að neita um samþykt reglugerðarinnar. En annars vil jeg benda á það, til þess að sýna samkvæmnina, að nú telur þessi hv. þm. (JBald) það gerræði, að fylgja því, sem hann greiddi atkv. með 1921.