12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Jeg á erfitt með að skilja það, ef fjelag það hjer í Reykjavík, sem barist hefir móti húsaleigulögunum, á fleiri formælendur hjer á þingi heldur en fulltrúar bæjarins, sem kosnir eru til þess að fara með mál kaupstaðarins.

Jeg skal strax taka það fram, að það eru húseigendur í Reykjavík, sem óðir vilja afnema þessi lög. Jeg get gengið inn á ýmsar aðfinslur, sem hv. þm. hafa gert við meðferð bæjarstjórnar á þessu húsnæðismáli. Jeg get gengið inn á, að bæjarstjórninni hafi oft farist það óhöndulega; en þrátt fyrir það, þótt misbrestur hafi orðið á, þá er ekki rjett að afnema lögin að öllu nú. Get jeg líka gengið inn á, að lögin sjeu ekki nú orðið að því fulla gagni, sem þau gætu verið, ef sett væri reglugerð og lögunum breytt í hæfilegt horf og framfylgt betur en nú er. Jeg vil benda á mjög mikilsvert atriði og þýðingarmikið fyrir bæjarbúa, sem ekki má niður fella, en sem felt yrði niður, ef lögin yrðu numin úr gildi, og það er rjettur manna til að sitja kyrrir í húsnæði. Jeg veit, að þetta kemur að sumu leyti ekki vel niður, en í langflestum tilfellum hefir þetta ákaflega mikla þýðingu fyrir hina fátækari bæjarbúa. Það er orðið svo nú í þessum bæ, að fjölskyldumenn með 4–5 börn eða fleiri á heimili sínu eiga bókstaflega ómögulegt með að breyta um húsnæði, því að það er viðkvæðið hjá hverjum einasta húseiganda: „Við viljum ekki hafa barnafjölskyldur“. Ef húsaleigulögin verða afnumin, leiðir það til þess, að stór hópur þessara manna verður að hrekjast út á götuna, húsnæðislausir, sem bæjarstjórnin yrði þá að sjá fyrir, og gæti það tæplega orðið á annan veg en þann, að hún bygði yfir þetta fólk. En jeg álít ekki hentugt að stefna að því, að allar fátækustu barnafjölskyldurnar hjer í bæ væru fluttar í eitt einasta hverfi bæjarins, til þess að losa húseigendur við að hafa börn í húsunum. En svona myndi fara, ef lögin yrðu numin úr gildi, og þetta, sem jeg hefi nú sagt, sýnist mjer og vaka fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur.

Hæstv. forseti (BSv) talaði í þessu máli, fyrst og fremst til að verja, að hann hefði tekið þetta á dagskrá, þótt það hefði ekki verið komið frá nefnd. Jeg verð að segja, að þegar mál sem þetta kemur fram eins seint og þetta mál gerði, þá getur það tæplega verið ætlun flm. þess, að það eigi að ganga fram. Þeir geta varla búist við, að mál, sem veldur slíkum deilum og sem er jafn stórkostlegt mál — þótt frv. sje óbrotið að vísu — að það gangi þegjandi og hljóðalaust og jafnvel undirbúningslaust í gegn. Hvað er eðlilegra en að gera það, sem allshn. gerði, að senda málið bæjarstjórn Reykjavíkur, sem verður að álítast, hvað sem hæstv.

forseti (BSv) segir, sá aðilinn, sem best ber skyn á þessa hluti? Það var af litlum skilningi mælt hjá hæstv. forseta, þegar hann kvað bæjarstjórnir og hreppsnefndir ekki hafa vit á að stjórna sínum málum. Hann veit þó, hvílíkt feiknavald er lagt í hendur þessara nefnda og stjórna; t. d. hjer í Reykjavík, þar sem fimtungur allra landsmanna býr, er það ekkert smáræði, valdið, sem þeim er gefið í þessum efnum. (BSv: Þessvegna þarf að hafa eftirlit með þeim.) Það verður þá að vera eitthvað bygt á viti og skilningi; það er ekki heldur nóg að segja: Þeir eru vitlausir og hafa á engu vit; það verður að rökstyðja dálítið, það sem sagt er.

Hv. flm. þessa máls (MJ) hefi jeg svarað í flestu með þessum almennu ummælum. Hann sagði; að þessi till. sýndi ekkert afstöðu bæjarstjórnar í heild; um þetta má sjálfsagt deila, en mjer finst það koma skýrt fram, að bæjarstjórnin vill ekki missa þessi lög. Að því leyti hlýtur hún að telja þau gagnleg fyrir bæjarbúa. (BJ: Fyrir hana sjálfa.) Þetta er útúrsnúningur hjá hv. þm. Dala. (BJ). Þó jeg mismælti mig áðan og segði, að bæjarstjórnin byggi við þessi lög, þá eru það ekki stórvægileg rök fyrir neinu. Annars má það til sanns vegar færa, að vissu leyti, að bæjarstjórnin eigi við lögin að búa, af því að hún er fulltrúi allra bæjarbúa og á að ráða fram úr vandræðum þeirra í þessu efni.

Ekki get jeg skilið, hversvegna þeir hv. þm., sem sjálfir eru bæjarmenn og hafa mjög mikil völd í bænum, skuli ekki geta látið ljós sitt skína á þeim rjetta vettvangi og fá meirihl. bæjarfulltrúa til að afnema lögin, eða þá fá þetta mál sett á oddinn við bæjarstjórnarkosningar. Annars er jeg smeykur um þessa hv. þm., sem tala svo digurbarkalega um þetta í þinginu, að það yrði minna úr þeim, ef gera ætti þetta að kosningaatriði í bænum; þeir myndu fljótlega renna og óttast að missa eitthvað úr atkvæðakvínni, ef kosningar í bænum ættu að snúast um það, hvort afnema ætti húsaleigulögin eða ekki.

En hæstv. forseti (BSv) brendi sig óþægilega, þegar hann fór að hafa eftir Morgunblaðinu — það er þá búið að stela blaðabunkanum frá mjer, svo að jeg get ekki gert þá aths. við það, sem jeg þurfti að gera. — Hæstv. forseti las ummæli eins bæjarfulltrúans; en það vill nú svo einkennilega til, að hann gat ekki komist hjá að leiðrjetta þessa klausu í Morgunblaðinu, einum eða tveim dögum síðar. Það, sem hæstv. forseti vitnaði í, hefir því ekkert gildi, því leiðrjettingin, sem skrifuð er af bæjarfulltrúanum sjálfum, hlýtur að verða þyngri á metunum. (BSv: Hún var um alt annað.) Hún var ekki um alt annað; en þarna hefir hæstv. forseti brent sig á að fara of mikið eftir Morgunblaðinu. Jeg vildi algerlega ráða honum frá að trúa því í nokkru.

Þá vil jeg víkja að því, sem hæstv. atvrh. (MG) talaði í þessu máli, þar sem hann vildi forsvara, að hann hefði ekki haft í frammi neitt gerræði, þegar hann synjaði um staðfestingu reglugerðarinnar. Það er nú svo, að þó hann vitni í þingtíðindin um einhverja till., sem hafi fallið í þinginu, viðvíkjandi einhverju ákvæði þessara laga, þá eru lögin svo rúmt orðuð, að það má fullkomlega skilja þau svo, að bæjarstjórninni sje heimilt að ákveða um, hvernig fara skuli með húsnæði í bænum. Jeg man, að þegar reglugerðin kom út, bar jeg þetta saman og fanst stjórnarráðið enga heimild hafa til að synja um staðfestingu hennar. Enda var það svo, að í bæjarstjórn Reykjavíkur átti sæti ágætur lögfræðingur, sem jeg álít, að sje eins fær um að fella rjettarúrskurð í þessu máli eins og hæstv. atvrh. (MG: Þingmaðurinn hefir ekkert vit á að dæma um það.) Hæstv. atvrh. er ekki fær um að fella úrskurð um það, hvort hann sje góður lögfræðingur eða ekki. En að bæjarstjórnin fjekk ekki sína reglugerð samþykta, var ekki fyrir annað en það, að húseigendafjelag í bænum, Fasteignafjelagið, gekk eins og grenjandi Ijón út af þessu og lá í stjórnarráðinu og fjekk það til að snúa út úr þessari reglugerð, sem varð þess valdandi, að stjórnarráðið staðfesti hana ekki. Þetta var gerræði, að taka af bæjarstjórninni það vald, sem henni bar.

Viðvíkjandi þessu frv., sem liggur fyrir, vil jeg segja það, að jeg tel flm. þess ekki hafa flutt fram neinar nauðsynlegar ástæður fyrir því, að rjett sje að afnema lögin, en jeg hefi bent á, að þau eru ákaflega stórt og mikilvægt atriði fyrir fátæka fjölskyldumenn, sem hafa nokkra vörn af þeim, þó jeg játi, að hv. andmælendur mínir hafi með rjettu fundið ýmsa ágalla á þeim. En þetta atriði er svo afar mikilvægt, að jeg efast um, að hv. þm. hafi nokkur skilyrði til að dæma um, hvernig fara mundi fyrir ýmsum fátæklingum í bænum, ef lögin yrðu afnumin, og hv. Þm. verða af engum óvilhöllum mönnum taldir færari að dæma um þetta en bæjarstjórn Reykjavíkur. Mjer þykir ótrúlegt, ef þeir hv. þm., sem búsettir eru hjer, hafa ekki undanfarna daga orðið varir við fjölskyldumenn, sem flýja verða húsnæði og eru að reyna að útvega sjer annað, en gengur herfilega illa, vegna þess að þeir hafa svo mörg börn, að enginn vill leigja þeim. Það, sem getur bjargað þessum mönnum, er helst það, að nota sjer húsaleigulögin og fá úrskurðað, að þeir megi sitja áfram í sínu húsnæði. Jeg skal gjarnan taka það fram, að megnið af þeim, sem þannig er ástatt fyrir, eru menn, sem hafa sæmilega atvinnu og hafa full ráð á að greiða húsaleigu fyrir sig. Það er heldur ekki af þeim ástæðum, að húsaeigendur vilji ekki hafa þá í húsum sínum, heldur blátt áfram vegna barnanna. Þetta vita menn að er rjett, sem jeg segi, og að þetta á sjer stað um allan heim, og að hvarvetna er gert mikið af því opinbera til þess að tryggja fátæklingum og barnafjölskyldum húsnæði. Hjer mun að líkindum, nú í augnablikinu, vera nægilegt húsnæði til; en ef hörgull verður á því, þá verða það einmitt þessir menn, sem verða að flýja út á götuna, en ekki einhleypu mennirnir. Þeir hv. þm., sem vilja afnema lögin, vilja stuðla að því, að svo fari sem jeg hefi nú lýst.