14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Torfason:

Eins og við vitum, þá var máli þessu vísað til allshn. Leitaði hún síðan álits bæjarstjórnar og hefir nú fengið svar frá henni um málið. En nefndinni hefir ekki síðan unnist tími til að halda fund og athuga málið, svo jeg get ekki lýst neinu yfir fyrir hennar hönd. Það, sem jeg segi um það, er mín persónulega skoðun.

Hvað málið snertir, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að með þessu frv. sje verið að ráðast á sjálfsákvörðunarrjett bæjarins. Því er nú einu sinni svo varið, að hver er sínum hnútum kunnugastur, og því best, að bæjarstjórnin fái að ráða sem mestu um þetta ein, og ætti þingið ekki að vera að óþörfu að taka fram fyrir hendur henni í því, þar sem nákvæma þekkingu og reynslu þarf til, að hægt sje að dæma um það. Það er líka svo, að bæjarstjórnin mótmælir mög eindregið afnámi gildandi reglugerðar. Og að ekki muni hægt að koma á reglugerð um þetta efni nú, sje jeg ekki að hafi við nein rök að styðjast. Það er ennfremur athugavert í þessu sambandi, að alt bendir á, að yfir vofi mikil húsnæðisvandræði hjer í bænum, sökum aðstreymis, vegna sívaxandi togaraútgerðar. Mælir það síst með því, að þetta frv. verði látið ná fram að ganga.

Jeg hygg ekki þörf að fara fleirum orðum um þetta. En áður en jeg sest niður, vil jeg grípa tækifærið til að lýsa yfir harmi mínum út af því, að hafa ekki verið viðstaddur atkvæðagreiðsluna í síðasta máli, til að geta greitt atkvæði með vantrausti á núverandi stjórn. Jeg hefi raunar áður gert fulla grein fyrir afstöðu minni í því máli, og svo skýrt, að enginn þurfti að efast um, á hvora sveifina jeg myndi snúast. En því vil jeg þó taka þetta fram, að jeg hefi þóst heyra utan að mjer, að sumir haldi því fram, að jeg muni eitthvað hafa dignað síðan í gær. En slíkt er hinn mesti misskilningur. Jeg stend við alt, sem jeg hefi sagt í þessu vantraustsmáli, þykir sárt að hafa ekki verið viðstaddur, og vildi helst hafa haft þessi 5 atkvæði, sem á vantaði til að fella stjórnina.