14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

119. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að það væri mjög undarlegt um húsnæðismál hjer í bæ, að þau væri undanþegin dómstólunum. En hjer hefir verið settur upp sjerstakur dómstóll, sem á að dæma í öllum þeim málum. Ef húsaleigulögin eru afnumin og menn fara í mál út af húsnæði — eftir hverju eiga dómstólar þá að dæma, þar sem engin lög eru til um slíkt?

Það er nú verið að setja hjer sjerstök lög um t. d. verslunaratvinnu, og liggur við borð að setja sjerstök atvinnulög. Því mega þá ekki vera til lög um húsnæði? Hv. þm. (BJ) fann að því, að ekki væri vottfastir samningar, er menn gerði sín á milli um húsnæði, látnir standa í gildi. Þetta er ekkert eins dæmi um samninga, sem gerðir eru eftir húsaleigulögunum. Það eru til ákvæði um það í fleirum lögum, hvað menn mega ganga langt í vissum efnum. Mönnum er t. d. bannað að okra eftir eigin vild, og það er ekkert sjerkennilegt við húsaleigulögin, þótt menn megi ekki fara eins langt og þeim sýnist. Við skulum taka dæmi af fjölskyldu, sem er húsnæðislaus, en getur svo fengið einhverja holu. Þá segir húseigandi: Ef þú borgar þetta og þetta, geturðu fengið leigt, en annars ekki. Maðurinn vill ganga inn á alt, til þess að fá þak yfir höfuðið, en þetta eru neyðarsamningar, sem báðir vissu, að hann gat ekki staðið við. Svona hefir ástandið verið. En þetta er það, sem húsaleigulögin vilja koma í veg fyrir. Ef lögin eru afnumin, þá er ekkert hámark lengur til á húsaleigu. Geti menn ekki borgað, verða þeir annaðhvort að hrekjast út á götu, eða pína sig og sína til þess að greiða hærri leigu en efni leyfa.

Nú er sagt í brjefi borgarstjóra, að húsnæðisskortur sje mikill í bænum, og sje að aukast; stendur það í sambandi við það, hvað útvegurinn hefir aukist hjer, eins og hv. 1. þm. Árn. tók fram.

Hv. Þm. Dala. (BJ) hjelt, að barnamönnum mundi auðvelt að fá húsnæði, og mundi þó enn auðveldara, ef lögin væru afnumin, því að þau mundu nú vera þeim til einhverra erfiðleika. En jeg svara bæði honum og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) því, að það er sannanlega vitanlegt, að húseigendum er illa við að fá inn í hús sín fjölskyldu með stóran barnahóp, og vísa þeim því frá að öðru jöfnu, þó að húsaleigugreiðsla sje jafnvís hjá þeim og öðrum. Þessvegna verða þeir einkum útundan, sem eiga börn. (BJ: Þetta er ósatt!) Nei, og hv. þm. Dala. (BJ) þekkir þá ekki málið. Það gæti verið, að breyta þyrfti lögunum, en það má alls ekki afnema þau, eins og jeg sagði áður.

Þetta verð jeg að láta nægja handa fylgismönnum frv. þessa.