08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

125. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það er einmitt að lengja umr., að vera að mótmæla því, sem maður hefir sagt rjett. Það var ekki eftir neinni beiðni bænda, að samþ. var á þingi að hafa þrifabað. Það var tekið upp hjer á þingi. En jeg hefi haldið því fram, að nauðsynlegt sje að eyða kláðanum, en þær baðanir þurfa að vera tvær, með ákveðnu millibili, en það er alt annað en þrifabað. Kláðamaurinn lifir eins, þótt baðað sje einu sinni. Það er eins og þegar Myklestad var fenginn hingað, þá var álitið nóg að baða einu sinni. En það er ekki nóg, því að það er auðvitað ekki nóg, að bæði pabbinn og mamman sje drepin, ef sá nýi maur, sem kemur úr egginu, þegar það opnast, fær að lifa. En það er ekki við góðu að búast, ef menn ekki vilja trúa dýrafræðinni. (KlJ: Það voru hafðar tvær baðanir.) Nei, það var ekki, því að þá var mikil deila um þetta, og flestir sögðu, að ekki þyrfti að baða nema einu sinni. En jeg þarf ekki að skeggræða þetta mikið, ef frv. fær að komast til landbn.; þar er því líklega óhætt, því að ef nokkrir eru trúnaðarmenn bænda, þá eru það líklega þeir menn, sem Alþingi hefir valið úr til að segja álit sitt og fremja þær rannsóknir, sem þurfa þykir á málefnum bænda. Jeg þykist þá vita það mál í góðum höndum, þegar hún hefir fengið það til athugunar. En þar sem menn eru að tala um það, að þetta mál geti ekki komist fram á þessu þingi, þá er það mjer vottur um það, að nefndinni sje ætlað að leggjast svo djúpt í rannsóknum sínum, að þær taki mjög langan tíma, eða þá að menn vilji ekki verða við þessum tilmælum bænda. En jeg man eftir því, að þegar samningar voru einu sinni gerðir um sölu á öllum afurðum landsins, þá voru þeir gerðir á 11/2 klukkutíma, frá því að byrjað var að lesa upp samningana á ensku og þar til þeir voru undirskrifaðir, svo að það hafa gengið stærri mál í gegnum þingið á stuttum tíma, og jeg get bent á margt, sem gengið hefir í gegnum báðar deildir hjer á 10 mínútum, auðvitað með margföldum afbrigðum frá þingsköpum, miklu þýðingarmeira en þetta baðlyfsmál. Og í því trausti ætla jeg að setjast niður og ekki ræða þetta meira.