10.02.1925
Neðri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

4. mál, fjáraukalög 1924

Fjármálaráðherra (JÞ):

Með frv. þessu er leitað heimildar fyrir stjórnina um aukafjárveitingu, alt að 38 þús. kr., til ýmsra útgjalda, er stjórnin hefir talið óumflýjanlegt að inna af höndum umfram greiðslur þær, sem heimilaðar eru í fjárlögum 1924.

Eins og frv. ber með sjer, fór langstærsta upphæðin til viðgerðar skólahúsinu á Hvanneyri. Að fengnum upplýsingum sá stjórnin, að skólahúsið var orðið svo ljelegt, að óhjákvæmilegt væri að gera við það.

Jeg tel ástæðulaust að fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni. Vona jeg, að hv. deild lofi því að ganga til 2. umr. og til fjárveitinganefndar.