16.02.1925
Efri deild: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

42. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg þykist sjá í frv. því, sem hjer liggur fyrir, að það sje ætlað atvinnumálaráðherra, að hafa umsjá með hinum væntanlega skóla, og þessvegna vil jeg segja fáein orð, sjerstaklega til þess að benda þeirri hv. nefnd, sem með málið fer, á það, að hún verður að rannsaka gjafabrjef þau, sem um er að ræða, bæði gjafabrjef frú Herdísar Benedictsen og Staðarfellshjónanna, til þess að sannreyna, hvort hægt sje að samrýma skólastofnun þessa við gjafabrjefin. Auðvitað er þessi rannsókn mjög þægileg hvað snertir síðari gjöfina, þar sem gefendur eru enn á lífi, en viðvíkjandi hinni gjöfinni er ekki annað að gera en rannsaka gjafabrjefið sjálft. Að öðru leyti skal jeg ekki koma inn á málið að sinni.

Fyrir löngu hefi jeg lesið gjafabrjef frú Herdísar Benedictsen, en jeg treysti mjer ekki að láta ákveðið álit mitt í ljós um þetta efni á þessu augnabliki. Hefi jeg ekki á móti, að málið fari í nefnd, en verð að áskilja mjer mína aðstöðu, eftir að hafa athugað gjafabrjefin nánar, og ef til vill leitað upplýsinga hjá síðari gefanda.