16.02.1925
Efri deild: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

42. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Forsætisráðherra (JM):

Ekki ætla jeg að gefa hv. flm. (JJ) tilefni til frekari umr. Málið, eins og það nú horfir við, heyrir undir atvinnumálaráðherra, úr því um húsmæðraskóla er að ræða.

Það má að vísu til sanns vegar færa, að jeg hafi tekið á móti gjöfinni. En það var líka tekið á móti henni af fjvn. beggja deilda þingsins, sem þá sat, í samráði við mentmn. Gjafabrjef frú Herdísar Benedictsen er þannig lagað, að ekki er hægt að samrýma það við frv., eins og það liggur fyrir; en þetta mun nefndin athuga. Jeg finn ekki, fremur en hæstv. atvrh. ástæðu til að ræða málið nú. Það fer vitanlega í nefnd, sem að mínum dómi ætti helst að vera landbn. Ef rætt væri um búnaðarskóla, býst jeg við, að sú nefnd hefði það mál með höndum.

Úr því jeg er staðinn upp, skal jeg svara lítillega ákúrum hv. flm. til mín nýlega, er jeg talaði um 24 st. kenslu í kennaraskólanum. Hefi jeg síðan fengið skýrslu frá skólastjóra, sem sýnir, að jeg fór þar með rjett mál, en hv. 5. landsk. (JJ) ekki. Það eru ekki nema tveir fastir kennarar skipaðir þar að lögum, eitt embætti er óveitt. Sá eini lögskipaði kennari, auk skólastjóra, kennir að vísu 34 stundir á viku, en fær borgun fyrir 10, svo að þar er reglan mjög glögglega ákveðin.