25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meirihl. (Sigurður Eggerz):

Jeg skal leyfa mjer að skýra fyrst nokkuð frá minni eigin afstöðu til þessa máls og síðan frá aðalniðurstöðu meirihl. nefndarinnar.

Eins og kunnugt er, kveða lög frá 31. maí 1921 á um það, hvernig Íslandsbanki skuli draga inn seðla sína, og að seðlaútgáfan, sem þannig losnar, skuli hverfa til landssjóðs. Átti síðan að ákveða með lögum fyrir 1. júní 1922, hvernig seðlaútgáfunni skyldi komið fyrir framvegis. Þessi frestur hefir síðan verið framlengdur ár frá ári. Á síðasta þingi þótti málið ekki heldur nægilega undirbúið. Hæstv. fjrh. (JÞ) óskaði, sem eðlilegt var, að hann fengi tíma til þess að íhuga og undirbúa málið betur fyrir þetta þing.

Fyrv. stjórn hafði falið Landsbankanum að gera tillögur um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar og semja frv. í samræmi við þær. En þetta frv. og tillögur komu ekki í hendur stjórnarinnar fyr en á þinginu 1924, um það leyti, sem stjórnin var að fara frá. Landsstjórnin þáverandi fjekk því ekki tíma til að taka afstöðu til þessa vandasama máls, en hinsvegar afhenti þáverandi fjármálaráðherra fjárhagsnefnd Ed. málið til athugunar. — Frv. Landsbankans var líkt því frv., sem nú er á ferðinni.

31. október 1922 skyldi seðlaútgáfa Íslandsbanka vera 8 milj. Samkvæmt inndráttarákvæðum laganna verður hún nú í haust 5 milj. Þangað til endanlega verður ákveðið um, hver fer með seðlaútgáfuna, annast landsstjórnin um að Landsbankinn gefi út þá seðla, sem nauðsyn er á. Fyrst á árinu sem leið mun landsstjórnin hafa notað þessa heimild og gefið út eða látið Landsbankann gefa út 3 milj. og 300 þús., og nú í ár mun gefið út um 2 milj. og 300 þús. nýrra seðla. Í nál., sem jeg undirskrifaði á síðasta þingi, lagði jeg áherslu á, að málið yrði afgreitt á þessu þingi. En eins og jeg kem að síðar, þá er þetta örðugt mál, og þó nauðyn sje á að herða á afgreiðslu þess, ber þó ennþá meiri nauðsyn til, að það fái þann undirbúning, sem slíku stórmáli hæfir.

Stjórnin sendi umgetið frv. frá síðasta þingi til Axel Nielsens prófessors við Kaupmannahafnarháskóla og leitaði álits hans um það. Einnig sendi hún honum frv. frá hv. 2. þm. G.-K. (BK) um sjerstaka seðlaútgáfustofnun. Nú leggur stjórnin til, samkvæmt till. frá próf. Nielsen, að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna. Próf. Nielsen er þektur maður. Hann er kennari í hagfræði við Kaupmannahafnarháskóla, og má gera ráð fyrir, að hann njóti álits, úr því hann hefir komist í þá stöðu. Í þessu áliti prófessorsins, sem fyrir þinginu liggur og nefndin hefir látið þýða, eru ýmsar upplýsingar, sem auðvitað eru mjög rjettar, og verður að taka tillit til þeirra, því fremur sem maður með sjerþekkingu á í hlut. Próf. Nielsen minnist á, að þó miða verði seðlaútgáfuna við innleysanlega seðla, verði að gera ráð fyrir óinnleysanlegum seðlum fyrst um sinn. Hann bendir á, að ekki sje hægt að ákveða með lögum, hvenær íslensk króna skuli hafa náð gullgengi. Um það verður víst ekki deilt. Menn eru búnir að reka sig á það, að gengi krónunnar fer eftir ákveðnu viðskiftalögmáli, sem hefir of djúpar rætur í viðskiftalífinu til þess hægt sje að ráða yfir því með lögum. Mun próf. Nielsen hafa rjett fyrir sjer í þessu. Jeg held, að hitt sje líka rjett, að hækka verði krónuna smátt og smátt, og gæta þar allrar varkárni. Hver hækkun á krónunni er í raun og veru skattur á atvinnuvegina, og hækkunin má ekki verða svo ör, að misboðið sje atvinnuvegum þjóðarinnar. Próf. bendir á, að vafalaust muni fara svo, að gullinu verði skipað í sama sæti og það hafði fyrir stríð. Svíþjóð, Holland og Bandaríkin hafa þegar gert seðla sína innleysanlega, og undirbúningur mun vera með það í Englandi. Bendir alt á það, að gull muni verða látið skipa sama sæti og áður var. Jeg get ekki látið vera að minnast á í þessu sambandi, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) hefir altaf lagt mikla áherslu á þýðingu gullsins, og eru nú skoðanir hans á því efni stöðugt að fá meiri og meiri staðfestingu.

Próf. Nielsen leggur áherslu á, að sig skorti kunnugleika á „existerende ökonomiske Forhold“ hjer á landi, og hann bendir mjög rjettilega á, að við skipun seðlaútgáfunnar verði að taka tillit til, hvernig þessu sje háttað. það er óhugsandi, að maður, sem ekki hefir verið hjer heima og ekki hefir tekið þátt í lífinu, sem hjer hefir verið lifað undanfarið, hafi sjerþekkingu í þessu efni. Það má benda á það, sem öllum er kunnugt, að hjer hafa áður verið harðar deilur milli Landsbankans og Íslandsbanka, en slíkt er mjög óholt fyrir fjármálalíf þjóðarinnar. Nú er þeim deilum lokið og samkomulagið gott, og er það mjög mikilsvert. En því má ekki gleyma, að ef komið verður á þeirri skipun seðlaútgáfunnar, sem hjer er gert ráð fyrir, gæti það vakið upp einhvern neista af gömlu deilunum. Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð úr ummælum, sem stjórn Íslandsbanka hafði um þetta mál á fundi, sem hún átti með nefndinni. Jeg skal geta þess um leið, að í prentun hefir fallið úr ein setning, sem síðar má leiðrjetta. Hjer er engin ádeila á ferðinni, aðeins leitast við að ræða málið hlutlaust. Bankastjórnin segir:

„Væri nú stjórn seðlaútgáfunnar lögð í hendur manna, þar sem stöðugt eru að reka sig á hagsmunir, ekki einungis bankanna sjálfra, heldur einnig hagsmunir viðskiftamannanna, bæði milli viðskiftamanna hvors banka um sig, og milli viðskiftamanna annars bankans gagnvart viðskiftamönnum hins, þá hlyti — hversu gott mannval sem væri — ávalt að vera hætt við því, að seðlaútgáfan yrði fyrir áhrifum mála og viðskifta, sem væru henni óviðkomandi og orsökuðu, að í seðlaútgáfunni yrði annað gert en það, sem hefði verið gert, ef aðeins hefði verið látið stjórnast af því, sem heill landsins yfir höfuð sagði til um. Þetta gæti auðveldlega orðið, án þess að nokkur maður vildi gera annað en hið besta, en skoðanir manna hlytu að litast af daglegum störfum, og málefnin sæjust þá ósjálfrátt skærast í ljósi viðskiftahagsmunanna.“

Jeg vildi vekja athygli á þessum möguleika, sem prófessorinn gat ekki um, af því hann er þessum hlutum ókunnur. Þetta er einmitt í sambandi við „existerende ökonomiske Forhold.“

Hæstv. fjármálaráðh. vakti eftirtekt á því, er hann lagði þetta frv. fyrir hæstv. deild, að það lægi í hlutarins eðli, að um leið og Landsbankinn yrði seðlabanki, þá yrði hann að draga inn seglin og viðhafa ennþá meiri varúð í útlánum sínum.

Jeg get ekki betur sjeð, og það var alment álitið svo af meðnefndarmönnum mínum, en að þessi ummæli hæstv. fjrh. (JÞ) væri í alla staði rjett. En sú er önnur hlið á málinu, að ef Landsbankinn á að draga verulega inn seglin, hvernig fer þá um framleiðsluna og um viðskiftalíf þjóðarinnar? Því þess ber að gæta, að lögum samkvæmt á Íslandsbanki árlega að draga inn seðla sína, en afleiðingin af því hlýtur að verða sú, að hann verður að draga úr lánum sínum. Ef því báðir bankarnir eiga að draga inn seglin, hvernig fer þá um viðskiftalífið? Hingað til hefir Íslandsbanki, þrátt fyrir inndráttinn, verið píndur vegna viðskiftalífsins að veita meira af lánum en eðlilegt væri. Fyrir bankann sjálfan hefði eftir minni skoðun verið heppilegra að lána minna og binda sig eingöngu við altrygg lán, en hvernig færi þá um ýms þau fyrirtæki, sem nú eru að ná sjer, ef þau væru yfirgefin af bankanum? Og ef bankanum hefði verið komið fyrir kattarnef, þá hefði góðærisins orðið minna vart en nú er raun orðin á. Þessi aðstaða bankanna, sem jeg mintist á áðan til viðskiftalífsins, er auðvitað sterkur liður í „de existerende ökonomiske Forhold,“ sem ekki verður gengið fram hjá. Jeg leyfi mjer einnig að efast um, að prófessor Nielsen sje nægilega kunnugt, hve mikil áhættufyrirtæki það eru, sem bankarnir verða að veita lán. Jeg á við sjávarútveginn. Og eftir því sem Íslandsbanki drægi meira inn seglin, mundi Landsbankinn neyddur til að veita sjávarútveginum meiri lán, eða ef hann ekki gerði það, þá mundi koma kyrkingur í sjávarútveginn. En óheppilegt er, að seðlabanki sje riðinn við svo mikil áhættulán. Jeg hefi því leyft mjer, ekki til þess að mótmæla prófessor Nielsen, heldur til þess að taka í sama streng og hann, að benda á, hvað nauðsynlegt er, að tekið sje tillit til „de ökonomiske existerende Forhold,“ þegar leggja á grundvöllinn undir seðlaútgáfu ríkisins.

Prófessor Nielsen segir ennfremur, að þó að það skifti miklu máli að þekkja fjárhagsástæður þjóðarinnar, þá verði þó að taka mjög mikið tillit til „teorien“, sem sje runnin af og orðin til í gegnum þá veraldarreynslu, sem fengin sje í bankamálunum. Þetta er auðvitað í alla staði rjett, enda má nærri geta, að öll nýrri bankalög eru mótuð af hinni eldreyndu „teori“. En þegar prófessorinn fer að gera tillögur um fyrirkomulag seðlabanka vors og leggur til, að seðlaútgáfan sje falin Landsbankanum, þá virðist mjer hann snúa bakinu að þeirri reynslu, sem hann rjettilega hefir lofsungið svo mjög. Landsbankinn hefir þannig, eins og kunnugt er, mjög mikið sparisjóðsfje, en samkv. orðum prófessorsins sjálfs munu seðlabankar yfirleitt ekki fást við sparisjóðsstarfsemi. Þarna eigum við í bankastarfsemi vorri að fara að ganga beint á móti reynslunni. Prófessorinn segir, á bls. 15:

„Jeg vil da fremhæve, at mig bekendt driver ingen Seddelbank en Sparekassevirksomhed, men dette er vel mere betinget af den faktisk stedfundne Udvikling en ud fra en principiel Afvisning af Tanken.“ Já, viðurkenningin er þarna fyrir því, að enginn seðlabanki hafi sparisjóðsstarfsemi, en svo segir prófessorinn, að þetta sje þó að líkindum ekki af „en principiel Afvisning af Tanken,“ en jeg spyr þá: Hvað er „den faktisk stedfundne Udvikling“? Það er sú framþróun í bankamálum, sem reynslan hefir skapað. Þessvegna verð jeg að segja það, þó að jeg viti, að menn geti lært mikið af „teoriu“ prófessorsins, að jeg sje ekki betur en að þær bendingar, sem hann gefur okkur, sjeu í þá átt, að við eigum að taka upp nýja stefnu, sem er á móti alþjóðareynslu, og jeg geri ráð fyrir, að okkar litla þjóð hafi ekki ráð á að gera þetta stökk á móti reynslunni. En svo er önnur spurning: Höfum við þá nokkra aðra reynslu en veraldarreynsluna í þessu máli? Það vill svo vel til, að auk þess höfum við reynslu í okkar eigin landi, og sem beinlínis varar okkur við því, að stíga þetta spor. „Brent barn forðast eldinn.“ Eins og kunnugt er, hafði Íslandsbanki allmikið innlánsfje, og auk þess lánaði hann sjávarútveginum fje, en þar er, eins og jeg drap á áður, um mjög áhættusöm fyrirtæki að ræða. Þessi banki hafði og seðlaútgáfuna. Ein af aðalástæðum þess, að bankinn tapaði svo miklu fje, hygg jeg einmitt hafi verið, að hann var öðruvísi úr garði gerður en seðlabankar eiga að vera. Hann var ekki bygður upp í samræmi við reynsluna! Jeg sje þessvegna ekki betur en að það sje á móti alheimsreynslunni, að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, og jeg sje heldur ekki annað en að það sje á móti þeirri reynslu, sem við höfum í okkar landi.

Það er nú auðsjeð að þeim athugasemdum, sem ríkisstjórnin hefir gert við

þetta frv., að hún sjer ýmsa annmarka á því, að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, en hinsvegar vill hún samt gera þetta, af því að hún sjer ekki fært að stofna sjerstakan seðlabanka.

Við höfum nú tvo banka í þessu landi, sjálfsagt tiltölulega stóra, samanborið við stærð þjóðarinnar, þótt smáir sje í raun og veru. Báðir þessir bankar hafa viðtæk sambönd erlendis, sem auðvitað styrkjast við það, ef fyrirkomulag bankanna hjer er líkt því, sem reynsla annara landa heimtar. Það eru til stórar og smáar vjelar af sömu gerð. Smáu vjelarnar hætta að ganga, ef þær hafa ekki sama hjólafjölda og þær stærri. Eins er það með bankana. Bankakerfið verður að vera líkt hjer og annarsstaðar, þó hjólin, sem fjármálin snúast um, sjeu mjög mismunandi að stærð. Seðlabanki hjer verður að hafa sama hlutverk eins og seðlabankar annarsstaðar, hann verður eins og prófessorinn segir, að vera bankanna banki, hann hefði aðallega viðskifti við bankana. Þeir fá seðla hjá honum gegn tryggingum, endursölu víxla o. s. frv. Hann fæst væntanlega einnig við gjaldeyriskaup, eftir því sem atvik liggja til. Og þar sem hinir bankarnir eiga að sækja seðla til hans, þá er hann með áhrifum þeim, sem hann í gegnum seðlana fær á bankana, orðinn lifandi liður í viðskiftalífi þjóðarinnar. Því hefir ennfremur verið haldið fram, að við hefðum ekki afl til að koma þessum banka á stofn, gætum ekki gulltrygt seðla hans, en auðvitað yrði að gera það. Í fyrsta lagi yrði nú hægt að fá gull Íslandsbanka, ca. 2.250.000 kr., með sæmilegum kjörum, og með þeim tryggingarákvæðum, sem nú eru, þá mundi með því mega tryggja um 8.000.000 kr., ef innieign erlendis er einnig notað, samkv. núgildandi tryggingarákvæðum. Það er og ljóst, að það yrði ekki örðugra fyrir ríkissjóð að útvega nýjum seðlabanka gull heldur en Landsbankanum. Bæði hlýtur að þurfa aðstoð ríkissjóðs til þess, því Landsbankinn fer þó ekki að kaupa gull fyrir sparisjóðsfje!

Nú skulum við segja, að seðlar yrðu gefnir út alt að 10 miljónum. Þá þarf ekki svo mjög mikið gull í viðbót við Íslandsbankagullið. Jeg vil ennfremur, í sambandi við stofnun sjerstaks seðlabanka, skjóta fram annari hugsun, sem umsjónarmaður banka og sparisjóða hjer fór vingjarnlegum orðum um í umræðum um Ræktunarsjóðinn. Hann sagðist líta svo á, að vel mætti sameina seðlabanka og ríkisveðbanka. Það er auðvitað, að sambandið á milli þeirra yrði ekki annað en persónusamband. Í fyrsta lagi gæti það haft þá þýðingu, að það yrði minni kostnaður við báða bankana, og auk þess mundi það styrkja ríkisveðbankann í áliti, að bankastjórar seðlabankans veittu honum forstöðu. Og ef til vill mundi þeim greiðara að selja brjef bankans erlendis. Þó að ákveðið hafi verið með lögum að stofna ríkisveðbankann, þá hafa ennþá engar framkvæmdir orðið í því máli. Þörfin á bankanum er þó orðin afarbrýn, ekki aðeins vegna landbúnaðarins, þá þörf þekkja allir, heldur einnig vegna kaupstaðanna. Því nú er það svo, að hvorugur bankinn lánar eyri til húsabygginga, svo að þeir, sem vilja koma upp húsum, verða að fá lán hjá einstökum mönnum með afar erfiðum kjörum, og afleiðingin verður sú, að sá þáttur, hin dýra húsaleiga, sem var sterkasta orsökin til dýrtíðarinnar á undanförnum árum, heldur áfram að vera til. Auðvitað er það skilyrði fyrir því, að ríkisveðbankinn verði að tilætluðum notum, að reynt sje að haga brjefum hans svo, að þau verði sem best seljanleg á erlendum markaði. Má vera, að gera yrði breytingar á lögum ríkisveðbankans, og sjálfsagt væri að rannsaka erlendis, hvaða fyrirkomulag væri heppilegast á brjefunum.

En þá er að athuga það, hvort nokkuð geti verið því til fyrirstöðu, að seðlabanki og ríkisveðbankinn geti staðið í sambandi. Jeg bendi aftur á það, að hjer er aðeins um persónusamband að ræða, og auðvitað getur ekki komið til mála, að seðlabankinn „rediskonteri“ hin löngu lán ríkisveðbankans. Á því sviði getur ekki verið að ræða um neina freistingu fyrir seðlabankann, því það verður að skoðast fyrirfram útilokað. Hinsvegar gæti seðlabankinn auðvitað keypt erlendan gjaldeyri af ríkisveðbankanum, sem hann fengi við brjefasölu erlendis.

Jeg hefi þá, í eins fáum orðum og hægt er, sýnt í stórum dráttum afstöðu mína til þessa merkilega máls. Jeg segi merkilega máls, af því jeg er sannfærður um, að það er þýðingarmesta málið, sem liggur fyrir þessu þingi. Er því ekki hægt að ætlast til, að ein þingnefnd, sem annars er hlaðin störfum, geti sökt sjer svo niður í það, að það sje fullnaðarrannsókn. Það er alveg óhugsandi, að hún geti framkvæmt allar þær rannsóknir, sem eru nauðsynlegar í slíku stórmáli.

Þessvegna er alveg óverjandi að ráða þessu máli til lykta nú, án þess að kynna sjer ítarlega reynslu annara banka í þessum efnum. Og það ekki síður, þegar stökkið, sem á að taka, er á móti reynslunni. Því að það hefir verið upplýst af sjerfræðingum, að það fyrirkomulag, sem hjer er farið fram á að setja, er á móti veraldarreynslunni.

Fjhn. hefir haldið um 20 fundi um þetta mál. Og hafa sumir þeirra tekið langan tíma. Var það ekki fyr en á síðustu fundunum, að nefndin klofnaði. Minnihluti hennar leggur til, að frv. stjórnarinnar sje samþykt. En meirihlutinn vill ekki láta ráða málinu til lykta, án frekari rannsóknar.

Verði nú dagskrá meirihlutans samþykt, þá mun hann bera fram till. til þál. um skipun milliþinganefndar, til þess að rannsaka þetta mál. Og jeg er í efa um, að nokkurntíma hafi hjer á Alþingi verið skipuð nefnd, sem þýðingarmeira starf hefir átt að vinna.

Ef seilst verður eftir þeim mönnum í þessa nefnd, sem sjerþekkingu hafa á peningamálum, má búast við, að margt komi fram við ítarlega rannsókn á þessu máli, sem mikla þýðingu getur haft fyrir þjóðina, því að ennþá eru peningamál vor í allmikilli bernsku.

Því verður ekki í móti mælt, að atvinnuvegir okkar eru að blómgast, og mikill áhugi er vaknaður fyrir því, að koma þeim lengra og lengra. Og það er ekki hægt að bera á móti því, að í báðum aðalatvinnuvegum okkar eru menn, sem sýnt hafa sjerstakt þol og hugprýði á þeim erfiðu tímum, sem yfir þá hafa gengið nú á síðustu árum. Hefir hugprýði þeirra sýnt sig í því, að þeir hafa ótrauðir haldið áfram meðan við vorum niðri í bylgjudal erfiðleikanna. Meðan við því eigum svona menn, eru til stórfeldir möguleikar til þess að lyfta atvinnuvegunum á hærra stig. Einmitt í samræmi við þetta framtak þjóðarinnar þarf bankastarfsemin að vera. Það þarf að vera rjettur skilningur á atvinnuvegunum, og jafnframt kraftur til þess að framfylgja þeim skilningi. Við megum því ekki stíga skrefið móti reynslu annara þjóða. Því ef bankastarfsemin gengur aftur á bak, þá ganga atvinnuvegirnir það líka. Jeg vil því undirstrika það, sem jeg sagði áðan, að bankamálið er stærsta málið, sem liggur fyrir þessu þingi. Og jeg vænti fastlega, að allir taki höndum saman um að hrinda því fram á rjetta leið.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að það væri að mörgu leyti gott að fá frest í málinu. Jeg er þakklátur honum fyrir þau ummæli. En það, sem hann óttaðist við hann, var það, að einhver atvik kynnu að koma fyrir á þessu ári, sem yrðu því valdandi, að bankarnir mistu tök á gjaldeyriskaupum. En þó ákvarðanir um sjerstakan seðlabanka frestuðust um eitt ár, þá ætti með góðri samvinnu á milli bankanna ekki að vera nein hætta á því. Á síðasta ári var mjög góð samvinna í því máli, og er að vænta, að svo muni enn verða.

Mun jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál nú. En það þætti mjer vel fara, ef þetta mál yrði dregið út af hinum pólitíska vígvelli. Að það þyrfti ekki að verða keppikefli milli þingflokkanna. Og það get jeg fullvissað hæstv. fjrh. um, að tillaga þessi er ekki borin fram til þess að kasta steini í götu hæstv. stjórnar. Síður en svo. Jeg skil vel, hve málið er flókið. En dráttur á því stafar ekki af öðru en að menn telja það ekki svo rannsakað sem skyldi.

Jeg vil nú vona, að flokkarnir í þinginu taki höndum saman í máli þessu og leiði það til farsælla lykta.