25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meirihl. (Sig. Eggerz):

Jeg býst við, að jeg muni í flestum atriðum geta svarað hv. þm. Vestm. (JJós) um leið og jeg vík að ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem ummæli þeirra beggja voru svo samhljóða.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði mikið um, hvert væri aðalverkefni seðlabanka.

Hann gat þess rjettilega, að gengi ísl. krónunnar væri alt enn í óvissu, þar sem hún ætti enn langt í land, að gullmarkinu. Vildi hann álíta það eitt höfuðhlutverk seðlabanka, að koma genginu í rjett horf.

Vitaskuld er það rjett, að eitt hlutverk seðlabankans hlýtur að verða, að styðja gengi ísl. krónunnar. En hæstv. fjrh. (JÞ) mun vera því kunnugri en flestir aðrir, hversu máttlausir þjóðbankar hafa yfirleitt verið í því efni, að hækka gengi peninga þjóðar sinnar. Við þurfum ekki annað en líta til sambandsþjóðar vorrar, Dana. Við munum allir eftir því, að ekki alls fyrir löngu tóku Danir 100 milj. króna lán eða svo í Englandi, er þeir stofnuðu með svonefndan „Engaliseringsfond“, sem átti að nota til þess að rjetta með gengi dönsku krónunnar. Jeg var staddur í London um þetta leyti, og jeg minnist þess, að einn mjög þektur enskur fjármálamaður sagðist vera hræddur um, að enda þótt Danir tækju þetta lán, þá hrykki það skamt. Og reynslan sýndi, að þetta lán hvarf að miklu leyti, án þess að settu marki væri náð.

Til þess að sýna, hvað þetta viðfangsefni er í rauninni erfitt, má ennfremur benda á, að í Danmörku hafa staðið harðar deilur undanfarið, milli ríkisþingsins og stjórnarinnar annarsvegar, en Þjóðbankans hinsvegar, um gengismálið.

Þjóðbankinn hjelt því fram, að ekki væri á hans valdi að tryggja gengi dönsku krónunnar um ákveðinn tíma, þar sem gengissveiflurnar ættu svo djúpar rætur í öllu atvinnu- og viðskiftalífi þjóðarinnar, að bankinn fengi þar ekki við ráðið.

Eftir mjög strangar deilur, þar sem þjóðbankanum mun meðal annars hafa verið hótað, að rjettur hans til að hafa seðla sína óinnleysanlega, skyldi upphafinn, ef hann gengi ekki inn á samninga, náðist loks samkomulag á þeim grundvelli, að bankinn skuldbatt sig til að sjá um, að gengi krónunnar skuli hækka um 3–4% á 2 árum.

þetta samkomulag var staðfest með leynisamningi, sem jeg held að enn hafi ekki verið birtur. Jeg gæti því vel ímyndað mjer, að bankinn hefði einhverjar útgöngudyr, ef viðskiftalífssveiflurnar verða svo öflugar, að hann fái ekki rönd við reist.

Við sjáum nú, hvernig Þjóðbankinn danski lítur á þetta mál. Hann treystir sjer ekki til að ábyrgjast svo tiltölulega örlitla gengishækkun skilyrðislaust. Þó voru honum jafnframt veitt ýmiskonar fríðindi, t. d. á ríkissjóðurinn að greiða allháa skuld, sem hann stendur í við bankann.

Í Englandi er nú einmitt um það talað, að gera seðla Englandsbanka innleysanlega, en áður en það er gert, er tilætlunin að koma sterlingspundinu upp í gullgildi.

Hvergi hefir heyrst, að í þessu skyni sje gripið til sjóða eða sparisjóðsinnstæðu manna, en hitt má vera, að „bankteknisku“ ráðin sjeu notuð til að ýta undir hækkunina á pundinu.

Jeg er nú hræddur um, að ef Landsbankinn okkar ætti að birgja sig svo að erlendum gjaldeyri í útlöndum, að trygt væri gegn öllum gengissveiflum, þá þyrfti fyrir alvöru að draga fjármagn frá atvinnu- og viðskiftalífi þjóðarinnar. Og mjer er spurn: Hvaðan ætti að taka svo mikið fje til þess að kaupa fyrir erlendan gjaldeyri? (Fjrh. JÞ: Hvaðan er það tekið nú?). Það mun þó aldrei vera meiningin, að nota til þess sparisjóðsinnieign landsmanna?

Ef til þess ráðs verður gripið, er hætt við, að sparendur muni taka þann kostinn, að draga sparifje sitt út úr sparisjóðnum, þegar þeim verður kunnugt, að fjeð er notað til áhættusamra gengis-spekulationa“.

Mjer skildist á hæstv. fjrh. (JÞ), að Landsbankinn ætti nú fje í útlendum bönkum, einkum vegna þess, að hann væri að búa sig undir að taka við seðlaútgáfunni.

Jeg held nú satt að segja, að hjer sje ekki allskostar rjett með farið. Jeg held, að aðrar orsakir liggi til þess, að Landsbankinn á nú töluverða innieign erlendis, þær sömu, sem gera það að verkum, að Íslandsbanki á einnig mikla innieign í erlendum bönkum. En þær orsakir eru velgengni atvinnuvega vorra síðastl. ár, og aðrar ekki. Fyrir þær sakir eiga bankarnir gjaldeyri í erlendum bönkum.

Við þurfum ekki að líta mörg ár aftur í tímann til þess að sjá, hvað þá hefði þýtt að skylda Landsbankann til að eiga gjaldeyri fyrirliggjandi í útlöndum.

Þá skulduðu bankarnir stórfje erlendis og gátu ekki greitt, enda voru þá afar erfiðir tímar.

En samtímis töpuðu báðir bankarnir hundruðum þúsunda á því, að reyna að halda uppi verðgildi ísl. krónunnar og voru þó víttir fyrir aðgerðaleysi í þeim efnum, af mönnum, sem ekki höfðu skilning á viðleitni bankanna. Þrátt fyrir það fengu þeir ekki rönd við reist. Krónan fjell og hlaut að falla, beinlínis sökum þess, að sveiflan á viðskiftalífi þjóðarinnar var þá öll niður á við. Þetta, sem jeg hefi tekið fram, eru afleiðingar af hinu órjúfandi lögmáli viðskiftanna.

Jeg hefi nú sýnt fram á, að þess verður ekki krafist með neinni sanngirni af Landsbankanum, að hann tryggi sig, eða öllu heldur gengi ísl. krónunnar, gegn öflugum sveiflum í viðskiftalífinu, með innieign gjaldeyris í erlendum bönkum.

Þar taka þau öfl í taumana, sem smávaxinn seðlabanki fær ekki við ráðið.

Hæstv. fjrh. (JÞ) virtist fara nokkuð ljettilega yfir þá hlið málsins, að gera grein fyrir, hversvegna sjerstakur seðlabanki geti ekki gert sama gagn og Landsbankinn í gengismálinu.

Hinsvegar tók hæstv. fjrh. (JÞ) ýmislegt rjettilega fram um það atriði, að seðlabanki ætti að hafa áhrif á lánsstarfsemi bankanna yfirleitt, einkum í þá átt, að stilla útlánum í hóf. En hæstv. ráðh. (JÞ) sýndi ekki fram á, að sjerstakur seðlabanki gæti ekki haft sömu áhrif í þessu efni og Landsbankinn.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi ekki gera mikið úr ýmsum höfuðmótmælum, sem hjer hafa komið fram. Þó vildi hann ekki mótmæla því, að sparisjóðsstarfsemi væri annarsstaðar ekki í sambandi við seðlabanka, enda átti hann þar erfiða aðstöðu, þar sem átrúnaðargoð hæstv. stjórnar, prófessor Nielsen, heldur þessu einmitt fram.

Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, að verkaskifting í þessum efnum hafa orðið þannig, að sparisjóðsstarfsemi hafi að miklu eða öllu leyti horfið frá seðlabönkunum og lent í öðrum stöðum. Hversvegna? Vitanlega vegna þess, að við reynslu hafa menn komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri heppilegt, að seðlabankar rækju sparisjóðsstarfsemi.

En hjer ægir öllu saman, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók rjettilega fram.

Og í því sambandi er rjett að athuga dálítið eitt atvik, sem hjer hefir komið fyrir, og sem sýnir, hvernig hjer hefir gefist, að sparisjóðir sjeu jafnframt bankar. Jeg á hjer við einn sparisjóðinn, sem til er á landinu, sparisjóð Árnessýslu. Ef sá sparisjóður hefði haft rjett til seðlaútgáfu, hvernig hefði þá farið? Ætli freistingin hefði ekki orðið mikil til að gefa út seðla, þegar farið var að draga sparisjóðsfjeð út, fyrir þá hræðslu, sem varð um sparisjóðinn.

En úr því að reynslan sýnir, að fullkomnara er það fyrirkomulag, að hafa sjerstakan seðlabanka, hví eigum við þá ekki að reyna að komast sem fyrst á það stig?

Eins og prófessor Nielsen heldur fram, viðurkennir hæstv. fjrh. (JÞ), að banki, sem hafi jafnmikla sparisjóðsstarfsemi með höndum og Landsbankinn, hljóti að kjósa fremur löng lán af sparisjóðsfjenu, en í sambandi við seðlaútgáfu sjeu stutt lán eðlilegust. Seðlaútgáfan heimtar stutt lán, sparisjóðsstarfsemin löng lán. Þar sem því seðlabanki og sparisjóðir eru sameinaðir, verður bankastjórnin að vega salt á milli stuttu og löngu lánanna, og ætli það gæti ekki farið svo, að kröfumar frá landbúnaðinum eðlilega yrðu fastari um löngu lánin, svo seðlabankinn yrði truflaður í því að ganga hina rjettu og eðlilegu braut, nefnilega að lána stuttu lánin, því hvernig fer fyrir honum, ef hann þarf að draga skyndilega inn seðla, ef þeir eru að miklu leyti fastir í löngum lánum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) þótti jeg hafa farið óvarkárlega með þau orð, sem jeg hafði eftir honum í nál. um það, að ef Landsbankinn yrði seðlabanki, þá yrði hann að draga inn seglin. En jeg sje ekki betur en að þessi orð staðfestist við ummæli ráðherrans um hina auknu varkárni, sem Landsbankinn yrði að viðhafa, ef hann yrði seðlabanki. Í nefndinni var oftar en einu sinni talað um þessi ummæli ráðherrans.

Þá virtist mjer það hneyksla hæstv. fjrh. (JÞ) mjög, að jeg hjelt því fram, að ef Landsbankinn yrði gerður að seðlabanka, og ef hann hagaði sjer samkvæmt því sem seðlabanka ber og sýndi meiri varkárni í lánum sínum en áður, að þá mundi þetta draga úr fjármagni því, sem veitt væri til atvinnuveganna. En þetta finst mjer mjög skiljanlegt. Þegar Íslandsbanki verður samkvæmt lögum að draga inn seðla á hverju ári, og þegar hinsvegar að hann getur ekki fengið víxla sína „rediskonteraða“ nema með 1/2% „margine“, þá liggur það í hlutarins eðli, að hann getur ekki aukið, en verður fremur að draga úr lánveitingum sínum. Niðurstaðan er því ljós. Þegar Landsbankinn verður að draga inn seglin og Íslandsbanki einnig, þá harðnar róðurinn fyrir atvinnuvegina.

Þá er enn í þessu frv. gert ráð fyrir því, að Landsbankinn megi ekki lána ríkissjóði nema stutt lán. Hver á þá að lána honum? Ekki getur Íslandsbanki gert það. (Fjrh. JÞ: Hann á ekki að lifa á lánum, hann síst af öllu). Já, það er nú svo, það er gott að fá sem minst af lánum, en ef við lítum á ríkin í kringum okkur, er víst ekki eitt einasta, sem ekki hefir tekið mikil lán, og þó hæstv. fjrh. (JÞ) líti svona á nú, þegar þorskurinn hefir verið svo óumræðilega miskunsamur við hann, að borga nokkuð af skuldum ríkissjóðs fyrir hann, þá vil jeg benda á, að það er enginn vandi að borga skuldir í slíku ári sem þessu, en það er ekki sjeð, að slík veltiár verði altaf, og hvernig fer þá?

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að Landsbankinn hefði sýnt þá varkárni að leggja fje á hlaupareikning hjá Íslandsbanka. Það er satt, en hver getur ætlast til þess, að Íslandsbanki geti bygt útlán sín á hlaupareikningsfje, sem getur verið dregið inn með engum fyrirvara. Og svo verð jeg enn að skjóta þeirri spurningu til hæstv. fjrh. (JÞ), hvort Landsbankanum, er hann væri orðinn seðlabanki, myndi detta í hug að fara að leggja inn seðla á hlaupareikning í Íslandsbanka? Nei, hann mundi líklega, ef hann þyrfti ekki að nota seðlana, gefa út færri seðla. Hæstv. fjrh. (JÞ var mjög sammála hv. 5. landsk. (JJ) um það, að það gerði ekki neitt til, þótt Íslandsbanki yrði fyrir einhverjum óþægindum af þessu. Jeg verð að segja það, að jeg stend hjer ekki sem talsmaður Íslandsbanka. (Fjrh. JÞ: En það geri jeg.) — Ja, það er nú minna um það en verið hefir, og ef maður kæmi inn á gullforðaatriðið, þá myndu kanske orð hæstv. fjrh. nú hljóða eitthvað á aðra leið en þegar hann ræddi málið á sínum tíma í hv. Nd. En jeg vík að því aftur, ef Íslandsbanki á aðeins að hugsa um sinn eigin hag, þá teldi jeg heppilegast fyrir hann að takmarka sín eigin lán, og veita aðeins fulltryggu fyrirtækjunum lán. En þó að það kynni að vera best fyrir bankann að beita þeirri ítrustu varkárni, þá er ekki víst, að hið sama gilti um atvinnuvegina. Ýms fyrirtæki eru að rjetta við og gætu náð sjer alveg, ef þeim er veitt hjálp. En hver mundi líða mest tjón, ef slíkum fyrirtækjum væri kastað á gaddinn? Ætli það yrði ekki viðskiftalífið, sem kynni að liða mest tjón við það? Því verður umfram alt, þegar skipun er gerð á seðlaútgáfunni, að gæta þess, að haga henni ekki þannig, að viðskiftalíf vort geti orðið fyrir tjóni. Því þó varkárni sje sú leiðarstjarna, sem sigla eigi eftir, þá má þó fara svo langt í henni, að hún með skilningsleysi sínu deyði það, sem átti að lífga.

Jeg vildi leyfa mjer að benda háttv. deild á nokkur ummæli stjórnar Íslandsbanka um þetta mál. Eftir að bankastjórnin hefir talað rækilega um þýðing seðlaútgáfunnar, mæla þeir með sjerstökum seðlabanka og rökstyðja það meðal annars þannig: „Það hlyti því að vera sameiginlegt áhugamál allra, að reyna að koma á því fyrirkomulagi á stjórn seðlaútgáfunnar, sem hefði í sjer fólgna eins mikla tryggingu og unt væri fyrir því, að henni væri stjórnað eingöngu með það fyrir augum, hvað væri heillavænlegast fyrir landið, ekki aðeins í augnablikinu, heldur einnig til langframa. Væri nú stjórn seðlaútgáfunnar lögð í hendur manna, þar sem stöðugt væri að rekast á hagsmunir, ekki einungis bankanna sjálfra, heldur einnig hagsmunir viðskiftamanna, bæði vegna viðskiftamanna hvers banka um sig og milli viðskiftamanna annars bankans gegn viðskiftamönnum hins, þá hlyti, hversu gott mannval sem annars væri, ávalt að vera hætt við því, að seðlaútgáfan yrði fyrir áhrifum mála og viðskifta, sem væru henni óviðkomandi og orsökuðu, að í seðlaútgáfunni yrði annað gert en það, sem gert hefði verið, ef aðeins hefði verið stjórnast af því, sem heill landsins yfir höfuð segði til um.“ í þessum fáu orðum liggur ákaflega sterk rökfærsla fyrir því, hve aðstaða þessa nýja banka, sem aðeins lánar bönkunum, yrði að öllu leyti óháðari og sterkari. Hann þarf ekki að taka tillit til ýmsra gamalla synda, sem báðir hinir bankarnir rogast með á bakinu. Reynslan frá Íslandsbanka sýndi, hve hættulegt það var, að aðalseðlabanki landsins hafði hin hættusamari lán til sjávarútvegarins. Þegar illa gekk, þá var freistingin svo mikil til þess að bjarga einstökum viðskiftamönnum, og lána meira og gefa út seðla. Þessa freistingu hefir hinn fyrirhugaði seðlabanki ekki. þar sem hann heldur ekki hefir sparisjóðsfje, þá freistast hann ekki til, þegar sparisjóðseigendur verða hræddir og draga út sparisjóðsfje, að gefa út seðla. Þessa freistingu hafði Íslandsbanki, þegar hann var seðlabanki og innieignir bankans, vegna ýmislegra æsinga, voru rifnar út. Ef Landsbankinn yrði gerður að seðlabanka, þá yrðu allir sömu annmarkarnir á því, sem voru á Íslandsbanka, þeim mun meiri að því leyti, að sparisjóðsfje er miklu meira í Landsbankanum.

Hver er það, sem ekki sjer, að seðlabanki, bankanna banki, stendur að öllu leyti óháðari. Okkar eigin reynsla er fast á móti því, og veraldarreynslan er fast á móti því, að gera Landsbankann að seðlabanka. Jeg minni enn á orð prófessors Nielsen:

„Jeg vil da fremhæve, at mig bekendt driver ingen Seddelbank en Sparekassevirksomhed“, þrátt fyrir það, þó að hann bæti við þessum orðum: „men dette er vel mere betinget af den faktisk stedfundne Udvikling, end ud fra en principiel Afvisning af Tanken.“

En hvað er „den faktiske Udvikling“ annað en reynslan? Jeg bendi hjer á, hvað hæstv. fjrh. vitnar nú í seinni ræðum sínum í prófessor Nielsen. Er ekki í djúpi sálar hans farinn að vakna einhver efi um, að þær ályktanir, sem prófessor Nielsen dregur af kenningum sínum, sjeu rjettar. Mjer hefir skilist svo á hæstv. fjrh., að hann ætlist til, ef Landsbankinn nú verður gerður að seðlabanka, eins og hann er, að hann taki breytingum og verði bankanna banki með tímanum.

Því ekki að stíga rjetta sporið strax, eða hvað er á móti því að stofna seðlabanka? Jeg verð að setja þessa spurningu fram aftur, því að mjer fanst hæstv. fjrh. (JÞ) fara svo laust yfir þetta í ræðu sinni. Aðalerfiðleikinn ætti væntanlega gulltryggingin að vera, en Landsbankinn þarf einnig að fá gull, ef hann á að verða seðlabanki. Það hefir verið bent á það hjer áður, að hægt væri að fá gull Íslandsbanka með góðum kjörum. Og með því mætti tryggja, þegar inneignir í erlendum bönkum eru hafðar, um 8.000.000 kr.

Ef gengið er út frá því, að seðlaútgáfan færi upp í 10 miljónir, þá þyrfti ekki nema 7–8 milj. kr. til þess að tryggja það, sem eftir er, og það er ekki svo mikið, og ef Landsbankinn gæti nú sjálfur keypt þetta gull, því getur hann þá ekki lánað ríkisstjórninni þetta fje, svo að hún geti keypt gull handa nýja bankanum? Þá kemur hitt atriðið, sem mjer skildist hæstv. fjrh. (JÞ) hafa svo mikið að athuga við, að þessi banki gæti ekki orðið lifandi liður í viðskiftalífinu. — Því ekki?

Þar sem hinir bankarnir fá seðla lánaða hjá honum, þá er það auðvitað, að hann í gegnum þau viðskifti getur haft nokkurskonar áhrif á bankana og þar í gegnum á alt viðskiftalífið. Auðvitað spyr hann bankana um stefnu þeirra í fjármálum áður en hann lánar þeim seðlana, og ef hann er óánægður með þær, getur hann gert það að skilyrði fyrir lánum, að þeim stefnum sje breytt. Hann hefir þessvegna „kontrol“ yfir hinum bönkunum, og þar sem hann stendur ekki beint í viðskiftaeldinum, verður afleiðingin af því, að hann getur litið miklu rólegar á hlutina en hinir bankarnir. Er honum sýnist ástæða til að takmarka lánsstarfsemina í landinu, þá dregur hann inn seðla o. s. frv., og yfir höfuð getur hann í gegnum seðlana haft afar djúptæk áhrif á viðskiftalífið.

Þá skildist mjer á hæstv. fjrh. (JÞ), að hann liti svo á, að þar sem nú væri ríkisbanki í landinu, þá gæti ekki verið að tala um að láta annan banka en þann eina fá seðlaútgáfurjettinn, en hafi jeg skilið hæstv. fjrh. rjett, þá er hann með þessu frv. að gera Landsbankann að hlutabanka.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi lítið minnast á þá möguleika að sameina þennan nýja banka og ríkisveðbankann, en mjer finst, að nú sje einmitt ástæða til að taka það atriði til ítarlegrar athugunar. Auðvitað yrði hjer um persónusamband að ræða á milli bankanna. En þó að ekki sje nema um persónusamband að ræða, getur orðið ómetanlegur hagur að því fyrir ríkisveðbankann að fá stjórn, sem einnig stýrði seðlabankanum. Meðal annars yrði sá kostur við það, að miklu meira tillit mundi tekið til þeirrar stjórnar í útlöndum, og auk þess yrði kostnaðurinn minni fyrir báða bankana. Í frv. um Ræktunarsjóðinn, eins og það er nú orðið í hv. Nd., er gert ráð fyrir, að Ræktunarsjóðurinn verði sameinaður ríkisveðbankanum, og þar með er gert ráð fyrir, að ríkisveðbankinn komi til framkvæmda.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að stjfrv. beindi þessum málum inn á heilbrigðari grundvöll en áður. Jeg hefi nú sýnt fram á það með fullum rökum, að það er síður en svo. Hæstv. fjrh. taldi það óþolandi meðferð á málinu, ef það yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá, en sagði, að það væri sjálfsagt, að málið fengi að fara til Nd.

Þetta er alveg ný kenning. Ef Ed. lítur svo á, að málið þurfi frekari rannsóknar og betri en það hefir áður fengið, þá væri það alveg rangt, að vísa því til Nd., sem ef til vill lítur á alt annan veg á þetta mál. Til þess eru hafðar tvær deildir í þinginu, að þær taki sjálfstæðar ályktanir hvor um sig.

Þá vítti hæstv. fjrh. nefndina og mig fyrir að hafa eigi sjeð um, að fram yrði borið frv. um framlenging á seðlaútgáfunni. Hæstv. fjrh. veit vel, að nefndin getur ennþá gert þetta, en honum sjálfum ber fyrst og fremst skylda til að gera þetta, ef frv. hans nær ekki fram að ganga, en auðvitað hefir nefndin ekki á móti að bera slíkt frv. fram.

Jeg greip fram í ræðu hæstv. fjrh. aðeins til þess að benda á, að þetta, sem nefndin vill nú að verði gert, það er frestun málsins, var gert á síðasta þingi samkvæmt ákveðinni ósk og tilmælum hæstv. fjrh. (JÞ) sjálfs. Þó að nefndin hafi reynt að vera væg við hæstv. fjrh., þá ber þó nál. með sjer, að aðgerðir stjórnarinnar í málinu voru nefndinni vonbrigði. Nefndin hafði sem sje búist við því, að hæstv. stjórn hefði rannsakað málið betur en hún hefir gert. Er það mjög merkilegt, að stjórnin skyldi snúa sjer til þess manns, og aðeins eins manns, sem Landsbankinn hafði fengið álit hjá. Þingið hefði áreiðanlega verið stjórninni þakklátt, ef hún hefði leitað víðar og sjerstaklega fengið álit „praktiskra“ bankamanna um málið. Af þessu sjest, hversu óskiljanlega daufan undirbúning þetta mál hefir fengið hjá hæstv. stjórn, sem þó hafði látið svo mikið ummælt um að hún vildi láta rannsaka málið. Þegar hún er búin að heyra eina rödd um að Landsbankanum skuli falið málið, þá er rannsóknunum lokið, stjórnin er svo örugg í skjóli og undir verndarvæng Landsbankans.

Hæstv. fjrh. (JÞ) taldi það hart, að jeg væri að kasta hnútum til sín, er það hefði komið fyrir mig, er jeg veitti stjórninni forstöðu síðast, að hafa ekki tekið afstöðu til samskonar frv., sem fjrh. minn hefði þá lagt fram. Jeg bendi hæstv. fjrh. á, að fyrv. ráðh. afhenti frv. eins og það kom frá Landsbankanum fjárhagsnefnd Ed., um það leyti sem stjórnin var að fara frá, og var því aldrei tími fyrir mig sem ráðherra að taka afstöðu til málsins. Annars ætti þessi stjórn síst að tala um slíka hluti, því oftar en einu sinni hafa ráðherrarnir mætt hjer á fundi í þessari hv. deild með gjörmismunandi skoðanir, jafnvel í stórmálum.

En það er annars svo langt frá, að jeg ætli mjer að hefja nokkrar deilur við hæstv. fjrh. (JÞ), en hinsvegar get jeg ekki látið hjá líða, að taka það fram, svo eigi verði misskilið, að þegar slegið er á þá framrjettu hönd, sem jeg og nefndin höfðu rjett stjórninni í þessu máli, þá verður stjórnin að bera ábyrgð á, ef samkomulagið fer út um þúfur.

Jeg verð enn að vísa til þess, er jeg sagði í fyrstu ræðu minni, að þetta mál er svo stórt og mikilsvert, að hin fylsta þörf er á, að það verði rannsakað betur en þegar hefir verið gert. Það þarfnast mjög nákvæmrar og ítarlegrar rannsóknar. Jeg er viss um, að það er eigi aðeins meirihl. þessarar háttv. deildar, sem er á þessari skoðun, heldur er jeg viss um, að það er fjöldi manna í öllum flokkum í báðum þingdeildum, sem eru mjer sammála í þessu, og ef hæstv. fjrh. (JÞ) vildi hafa fyrir því að svipast eftir því meðal sinna eigin flokksmanna, þá mundi hann komast að raun um, að þeir mundu margir þeirra síst tárfella, þótt hin rökstudda dagskrá, sem hjer liggur fyrir, yrði samþ. og rannsókn þessa máls hafin á ný.