25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

26. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var svo spakur, er hann flutti ræðu sína áðan, að jeg á bágt með að svara honum eða taka nál. hans til athugunar, eins og það í rauninni verðskuldar að gert væri. Jeg ætla í þetta sinn að fara að því góða dæmi, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) gaf áðan, því jeg verð að játa, að það er ekki á hverjum degi, sem hv. þm. gefur okkur hinum gott eftirdæmi; þessvegna ætla jeg að geyma mjer allar ádeilur, sem nál. hans ella hefði gefið mjer tilefni til, en tek því aðeins þau atriði til meðferðar nú, sem hv. 5. landsk. sjálfur drap á í ræðu sinni.

Hann sagði meðal annars, að frestun málsins nú væri eðlileg, vegna þess að því hefði verið frestað áður. En jeg spyr þá, hve lengi á þessum frestunum að halda áfram? Verður þá ekki „eðlilegast“ að fresta málinu í sífellu? Nei, einhverntíma verða þau tímamót að koma, að Alþingi taki fullnaðarákvarðanir um þetta mál. Þá sagði hv. þm. enn, að málinu væri stefnt inn á ranga braut, þar eð breytingar, sem hefðu verið gerðar á frv. síðan í fyrra, væru allar til hins verra! Jeg hefi nú lítilsháttar athugað nál. þeirra, til þess að komast að því, hvað það væri, sem þeir finna að frv., eins og það er nú. Það verða þá 4 atriði, sem jeg með mikilli fyrirhöfn hefi tínt saman úr nál. Jeg segi með fyrirhöfn, því minna er ekki hægt að segja höf. nál. til verðugs lofs, en að nál. er mjög svo óskipulega samið. Um þrjú þessara atriða er það að segja, að jeg hefi fært frv. þar nær því, sem þeir telja að rjettara sje, og það þarf því brjóstheilindi til að segja, að jeg hafi með þessu breytt frv. til hins verra.

Þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um þessi þrjú atriði.

Fyrsta atriðið er um hlutafjáröflunina. Jeg jók þar við þeim ákvæðum, að ríkið hefði forgangsrjett til hlutabrjefakaupa, en þar næst, að því frágengnu, innlend fjelög og stofnanir, eða einstakir menn innlendir. Þessvegna veit hv. þm. vart, hvað hann sjálfur segir, er hann talar um, að á frv. sjálfu sjáist ekki, að landið eigi að leggja bankanum til hlutafje. Þetta sjest einmitt á breytingum þeim, sem jeg hefi gert við frv. Þá hefi jeg einnig bent á þá sjerstöku möguleika, að ríkið legði Landsbankanum til um það bil 2 milj. kr., þ. e. það fje, sem ríkissjóður hefir þegar lánað Landsbankanum (enska lánið). En jeg tek það fram, að ríkissjóður hefir eigi tök á að leggja þetta fram til nokkurs annars banka, sem er skiljanlegt af því, að Landsbankinn er þegar búinn að fá þetta fje.

Annað atriðið, sem nál. finnur að frv., er það, að bankaráðinu sje ekki ætlað nægilegt vald í sínum málefnum, en þegar menn bera þetta frv. saman við frv. frá í fyrra, þá sjest, að vald bankaráðsins hefir verið stórum aukið í þessu frv. Jeg get því ekki fundið, frá þeirra sjónarmiði sjeð, að það sje rjett að bregða mjer um að hafa skemt frv. að þessu leyti. Jeg tók það fram þegar í fyrra, að bankaráðinu væri ætlað of lítið vald, og jeg hefi aldrei fyr nje síðar haft á móti því, að það væri aukið.

Þriðja atriðið, sem nál. finnur frv. til foráttu, er, að jeg hafi bundið seðlaútgáfurjettinn við 50 ár. En hvað er nú þetta? Frv. í fyrra fól bankanum þetta um aldur og æfi, en jeg breytti þessu í 50 ára útgáfurjett, og hefi því fært þetta að mun nær því, sem hv. 5. landsk. þm. álítur vera rjett.

Um fjórða atriðið, þá geri jeg ráð fyrir, að þar sje um efniságreining að ræða milli okkar, en það er um afstöðu bankans til ríkissjóðs. Ákvæðin um að banna bankanum að veita ríkissjóði lausalán er bygt á og bein afleiðing af þeirri sorglegu reynslu í öllum löndum Norðurálfunnar, að bankarnir hafa að jafnaði legið flatir fyrir kröfum stjórna landanna um lán til handa ríkissjóðnum. Þetta ákvæði er sett til þess að tryggja seðlabankann, og á að afstýra því, að hann verði misbrúkaður til þess að veita ríkisstjórninni lán, þegar henni kynni að detta í hug að æskja þess. Í sambandi við þetta hefi jeg gert þá breytingu á frv., frá því er það var í fyrra, að gefa ekki Landsbankanum sjálfstæð rjettindi til að krefjast þess, að hann verði látinn ávaxta fje allra opinberra sjóða o. s. frv. Þetta er afleiðing þess, að bankinn má ekki lána ríkissjóði. Af því leiðir, að ríkisstjórninni getur orðið það nauðsyn að hafa einnig bankaviðskifti við aðra banka. Það er óeðlilegt að gefa Landsbankanum beinar kröfur til að ávaxta opinbert fje; ávöxtun þess verður að fara eftir ákvæðum þeim, sem standa í reglugerðum hinna opinberu sjóða. Ef það stendur þar, að fjeð skuli ávaxtast í Landsbankanum, verður það gert, en það á ekki að setja í lög neitt um það, að opinbert fje skuli vera ávaxtað þar. Það á ekki að gera ríkissjóði að skyldu að hafa fje sitt þar, heldur á ríkisstjórnin að hafa heimild til að semja um ávöxtun fjár síns við hvaða banka sem er. Í Danmörku er opinbert fje ávaxtað í Þjóðbankanum þar, en það er samkvæmt samningi, en eigi eftir lagaákvæðum. Þá er það fjarstæða ein, að þessi regla sje komin frá kúgunaraðferð, sem Þjóðverjar hafi verið beittir.

Hv. þm. sagði, að óhætt væri að láta málið bíða eitt ár ennþá. Jeg skal ekkert fullyrða um það, að það sje ekki óhætt. Jeg veit ekkert um það, hvort stórvandræði hljótast af, en ógætilegt er það.

Hvað viðvíkur þeim annmörkum, sem eru á núverandi löggjöf, þá getur það ekki talist hermdarverk, þó jeg bendi á, að þar vantaði öll refsiákvæði gegn því að falsa seðla, sem gefnir verða út eftir heimildinni frá 1922. Það hafa sem sje engir seðlar verið gefnir út, og þó að því einhver áheyrandi kynni að hafa haft tilhneigingu til þess að falsa seðla, getur hann það ekki, vegna þess að engir seðlar hafa verið gefnir út; en þó er ekki þar fyrir að synja, að að því gæti rekið, að þess þyrfti með, að gefnir yrðu út nýir seðlar.

Viðvíkjandi gullkaupunum frá Íslandsbanka get jeg látið hv. þm. vita, að ríkissjóður er reiðubúinn til að kaupa það gull, sem bankinn má missa eða vill losa sig við, en Íslandsbanki hefir ennþá eigi látið neitt gull falt við ríkissjóð, en til þess eru engin lög, að krefjast þess, að bankinn láti gull sitt af hendi fyr en hann sjálfur vill það laust láta.

Þá kem jeg að ræðu hv. frsm. meirihl., og eru þar einnig nokkur atriði, sem jeg ætla að taka til athugunar.

Um hækkun gengisins sagði háttv. frsm., að þjóðbankar væru máttlausir til þess að ráða fram úr eða stjórna breytingum gengisins. Hreyfingar gengisins væru svo magnaðar, að eigi yrði við þær ráðið, og mintist hann í því sambandi gengisnefndar Dana. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rjett. Gengisbreytingarnar stafa frá ástandi viðskiftalífsins, en sá þáttur viðskiftalifsins, sem mestu um ræður í þessu efni, eru bankaviðskiftin. Örar gengishreyfingar stafa af ofnotkun lánsfjár, þ. e. bankamir hafa verið of fúsir á að veita lán. Þá er því að leita ráða til að beina bankaviðskiftunum aftur inn á rjetta braut. Það er þegar orðið viðurkent, jafnvel í Danmörku, þar sem menn þó hafa verið seinir að átta sig á þessu máli, að grundvöllur undir þeim hlutum, er ráða gengisbreytingum, eru bankaviðskiftin og starfsemi bankanna, og þar er því orðið viðurkent, að ef menn vilja hækka gengið, verða menn að takmarka lánin; annaðhvort með hækkun forvaxta, eins og Englandsbanki hefir nýlega gert, eða takmarka útlán bankanna. Í Danmörku hefir þetta síðarnefnda verið gert. Skilyrðin til þess, að geta haft taumhald á gengissveiflunum, eru þau, að þjóðbankarnir, sem eiga að ráða yfir þeim, sjeu nógu sterkir til þess að geta ráðið stefnu allra banka í landinu, um útlán og annað. Þetta er nú viðurkent alstaðar. Hann (SE) dró þá ályktun af þessari kenningu sinni, að er þjóðbankarnir gætu hvort sem er ekki ráðið við gengishreyfingarnar, þá væri sama, hvort þessir bankar væru fjárhagslega sterkar stofnanir eða ekki. En sannleikurinn er sá, að aldrei hefir meira riðið á því en nú, að þjóðbankarnir væru sterkustu bankastofnanirnar í landinu.

Þá talaði hann um þá tvo vegi, sem um er að ræða, að gera Landsbankann að seðlabanka ríkisins, eða hinn, að stofna nýjan seðlabanka. Það, sem fyrir mjer er úrslitaatriðið í þessu máli, er það, hvort nokkrar líkur sjeu til fyrir því, að hinn nýi seðlabanki, er stofnaður yrði, gæti fengið nægilegt fjármagn til þess að verða nógu sterkur sem seðlabanki ríkisins.

Í Danmörku var kvartað um það á mestu veltiárum Landmandsbankans, að hann yxi Þjóðbankanum upp yfir höfuð, og að Þjóðbankinn gæti því ekki haft þau áhrif á fjármál landsins, sem æskilegt væri og honum bæri að hafa. Þetta bið jeg menn að hafa í huga, þegar gera á út um það, hvort setja eigi hjer upp seðlabanka, sem ekkert fjármagn hefir annað en seðlana, við hliðina á tveimur bönkum öðrum, sem hvor um sig hefir um 40 miljón króna veltufje. En sjái hv. frsm. sjer fært að útvega nýjum banka það fjármagn, sem hann þarf til að geta orðið öflugasti bankinn í landinu, þá má vera, að sú leið sje fær. Annars hefi jeg enga trú á þessum bollaleggingum, og þykist ekki þurfa að fara langt út í að svara þeim tillögum, sem ekki hafa verið bornar fram á þinglegan hátt og liggja því ekki fyrir hjer til umræðu.

Þá mintist hv. frsm. meirihl. (SE) á, að með því að halda mikilli innieign erlendis, gæti svo farið, að Landsbankinn tæki of mikið fje frá atvinnuvegunum. Og að af því myndi aftur leiða, að innstæðufje í sparisjóðum yrði of mjög notað til áhættusamra fyrirtækja. En af því myndi aftur leiða, að innstæðueigendur færu að verða hræddir um fje sitt þar.

Jeg held, að þetta sje hvorttveggja misskilningur. Landsbankinn hefir enga tilhneigingu til að leggja meira fje fyrir erlendis en bein nauðsyn krefur. Og hitt, að ótryggilegra sje að eiga fje sitt geymt, t. d. í Hambrosbanka í Englandi eða dönskum bönkum, held jeg sje sömuleiðis hinn mesti misskilningur. Og mun öldungis óþarft að óttast, að innstæðueigendur sjeu hræddir um að eiga það þar.

Þá mintist hann (SE) á tilraunir, sem gerðar voru hjer til að halda uppi genginu. En þar voru stórar syndir fyrir. Fje hafði verið lánað út, meira en efni stóðu til. En þegar svo er, að meira lánsfje er úti en trygging er til fyrir, er erfitt að hækka gengið. Og bankarnir gátu ekki náð inn útlánum sínum. En þetta sannar þó ekki, að ekki sje hægt að hafa stjórn á þessum málum. Og einmitt nú á síðastliðnu ári hafa bankarnir náð inn allmiklu af fjármagni sínu.

Landsbankinn er sú eina stofnun, sem við getum fyrir okkur borið til þess að hindra sveiflur á genginu. Og því meir sem hann er efldur, því hægara á hann með það.