27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

26. mál, Landsbanki Íslands

Björn Kristjánsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls í þessu máli, en láta álit mitt nægja. En þar sem mjer finst, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi tekið því svo fjarri, að láta athuga þetta stórmál í nefnd til næsta þings, sem jeg tel bráðnauðsynlegt, þá vildi jeg þó segja nokkur orð.

Þar sem umræðurnar eru orðnar svo langar um þetta mál og frsm. meirihl. (SE) hefir svo rækilega svarað því, sem fram er komið til andmæla, þá vil jeg aðeins fara fáeinum orðum um þau atriði, sem hæstv. fjrh. (JÞ) virtist leggja mesta áherslu á.

Það, sem hæstv. fjrh. virðist leggja mesta áherslu á, er, að seðlabankinn geti haldið genginu sem stöðugustu næstu árin, og að bankinn safni sjer erlendu fje í þessu skyni. Ennfremur að draga úr lánveitingum, er þörf er á, og að hjálpa í viðlögum. Og þetta telur hæstv. ráðh. (JÞ) gerlegt, ef bankinn hafi mikið fje til umráða.

Þetta virðist mjer vera mergurinn málsins hjá honum í öllu, sem hann hefir sagt, og á því byggir hann andstöðu sína gegn sjerstakri seðlastofnun eða sjerstökum seðlabanka, sem hafi of lítið afl til að framkvæma þetta.

Mjer virðist því vera aðalatriðið í þessu máli, að athuga gaumgæifilega, hvort þessar höfuðástæður, og í raun og veru einu ástæður, eru á nægum og traustum rökum bygðar. Í nál. minnihl. hefi jeg leitt í ljós rök að því, að reynslan hafi sýnt, að seðlabankar erlendis geti ekki ráðið við gengið. Og hafa þeir þó miklu meiri möguleika til þess en bankar vorir geta nokkurntíma haft.

Og hv. frsm. meirihl. (SE) hefir jafngreinilega sýnt fram á, að seðlabankarnir erlendis geti ekki gert þetta. Það eina, sem þeir geta gert, er að sjá um að seðlar þeirra sjeu löglega gulltrygðir, svo þeir missi ekki traust almennings, og verið þó nokkur hemill á því, að of mikið sje lánað. Við, hv. frsm. (SE) og jeg, höfum fært skýr rök að því, að svona reyndist þetta erlendis.

En hvernig er vor eigin reynsla í þessu efni? Hún ætti að vera ólygnust.

Síðan árið 1905 höfum við haft seðlabanka. Bankastjórar þess banka hafa verið það vanir slíkum störfum, að menn munu ekki geta gert sjer vonir um, að bankastjórar yfirleitt á voru landi reki öllu betur seðlabankastarfsemi en stjórn þess banka gerði, og dettur mjer þó ekki í hug að hæla henni fyrir góða seðlabankastjórn.

Að lögum hafði banki þessi sterka yfirstjórn, bankaráð 7 manna, með sjálfum forsrh. jafnan sem formanni og þrjá þingvalda bankaráðsmenn. Á árunum 1905 til 1918 fjell alt í ljúfa löð. Gjaldeyririnn eða seðlarnir hjeldust í fullu verði. En árið 1919, eitthvert það besta verslunarár, sem vjer höfum haft, fyrir utan árið í fyrra, þá skeði það, að seðlabankinn komst í skuld erlendis, sem nam 8719826 kr. Bankinn hafði sem sje alls ekki gætt þess, að nota góðærið til þess að safna sjer fje erlendis og draga úr útlánum til þess að geta mætt lakari árum. En þrátt fyrir þetta fellur krónan íslenska ekki þetta árið.

Næsta ár, 1920, getur bankinn heldur ekki borgað neitt að mun. Skuldir erlendis voru því í árslok 7704233 kr. Upp frá því fara seðlar bankans að falla. Og enginn efi er á, að bankinn hefði þá orðið að leggjast niður, hefði landssjóður ekki komið til hjálpar. Og alveg eins hefði farið fyrir Landsbankanum litlu síðar, eða 1923, ef ríkissjóðurinn hefði ekki hlaupið undir baggann. — Slík er okkar reynsla! — En nú kunna menn að segja, að það væri von, að svona færi, þar sem bankinn hafi haft svo lítið fje að vinna með, og er þá rjett að athuga það.

Þetta sama ár, 1919, í árslokin, hafði bankinn hlutafje 41/2 milj. kr., sparisjóðsfje yfir 12 milj. kr. og hlaupareikningsfje 91/2 milj kr. Þetta er allálitleg upphæð, 26 milj., eða álíka og Landsbankinn hafði í árslok 1923. En á árinu 1920 missir bankinn nálega helminginn af þessu sparisjóðsfje, en hlaupareikningsfjeð vex um 1/2 milj. kr. En þrátt fyrir þessa reynslu vor sjálfra á að byggja nýjan seðlabanka á sama grundvellinum, og honum þó lakari, þar sem Landsbankinn hefir nú helmingi meira sparisjóðsfje. Og á sparisjóðsfjenu á þá aðallega að byggja gengið á krónu vorri og tryggja innieignina erlendis. Tel jeg þetta of veikan grundvöll.

En svo kemur hitt atriðið, sem hv. frsm. (SE) hefir svo rækilega bent á. Íslandsbanki á nú að draga inn eina milj. kr. árlega og hefir þegar dregið tvær inn. Út úr frv. eru dregin þau tryggingarákvæði, sem sett voru fyrir því í frv. í fyrra, að Íslandsbanki geti endurselt víxla í Landsbankanum fyrir þau kjör, sem geta borgað sig fyrir banka, og að geta fengið þar stórt reikningslán. Bankinn er því, samkvæmt frv., skilinn eftir, alveg í lausu lofti, þó hann eigi að draga inn 1 milj. kr. á ári í seðlum fyrst um sinn. Íslandsbanki á því alt undir náð eða ónáð keppinauts síns, Landsbankanum, hvort hann getur selt þar víxla sína eða ekki. Og þessi keppinautur Íslandsbanka á eftir sem áður að vera keppinautur hans á öllum sviðum, sem er gagnstætt því, sem gerist um seðlabanka erlendis. Vel getur verið, að hæstv. fjrh. (JÞ), með sínum mikla dugnaði, geti greitt úr þessu í bili, en jeg get ekki vænst þess, að hann verði mosavaxinn í þeirri stöðu, fremur en aðrir fjármálaráðherrar.

Landsbankinn er þannig bygður, að hann getur aldrei orðið seðlabanki á þann hátt, sem seðlabankar erlendis eru, sem eiga alt á því þurra, og reka að meira leytinu þau viðskifti, sem aðrir bankar reka ekki. Þeir eru því á sárfáum sviðum keppinautar hinna bankanna. En jeg sje ekki betur en að Landsbankinn verði að hafa allar klær í frammi til þess að græða fje upp í töp sín og skuldir, og að sú samkepni geti orðið svo illvíg, að aðrir bankar kjósi heldur að búa að sínu en að eiga líf sitt og tilveru undir seðlabankanum.

Við erum fámenn þjóð, hver þekkir annan, og baráttan er hörð fyrir tilverunni. Menn eru því altaf með lífið í lúkunum um það, að aðrir skaði þá ekki. Og sjálfsbjargarleiðunum vilja menn halda sem heimullegustum. Jeg tel því ekki víst, að hinir betri viðskiftamenn bankanna kæri sig um að láta víxla sína, t. d. í Íslandsbanka, fara til Landsbankans, sem allir vita, að er hreinn keppinautur Íslandsbanka. Þessar kringumstæður geta valdið því, að Íslandsbanki verði með hröðum skrefum að draga inn lán sin, svo að hann geti með eigin fje fullnægt þörfum sinna góðu viðskiftamanna.

Og auðvitað verða þeir minni máttar framleiðendur og aðrir fyrir því, að missa samband sitt við Íslandsbanka. En hvar fá þeir þá hjálp? Tæplega hjá Landsbankanum, sem á nú að fara varlega.

Hjer er því stefnt til að minka framleiðsluna, minka útflutninginn. Og hvaða áhrif hefir það á gildi krónu vorrar og hag landsins? Jeg hefi velt þessum kringumstæðum fyrir mjer, og jeg sje ekki betur en að Íslandsbanki verði að draga lán sín inn, jafnótt og hann dregur inn seðla sína. Hann verður því að leggja alla áhersluna á að gera sig óháðan keppinaut sínum. Og það mundi jeg gera, væri jeg bankastjóri í þeim banka. En vitanlega hlýtur það að hafa sorglegar afleiðingar fyrir viðskiftalífið í landinu og hag landsins yfirleitt. Jeg teldi enga ábyrgð hvíla á mjer til þess að bjarga þeim minni máttar framleiðendum og öðrum, ef jeg væri búinn að sjá, að þingið sjálft hefði ekki hugsun á því eða vilja til þess.

En öllu þessu mætti afstýra, ef seðlastofnunin væri sjerstök eða að stofnaður yrði sjerstakur seðlabanki, sem styddi báða bankana og hefði annaðhvort lítil viðskifti önnur en að styðja bankana, eða alls engin, eins og seðlastofnun mín var fyrirhuguð í fyrra. Þá gætu báðir bankarnir unnið með fullum krafti eins og hingað til, án þess nokkur truflun kæmist á. Og þessi skoðun mín hefir skapast af reynslu, og minna af bókviti, því það er ekki einhlítt í þessum sökum.

Jeg sný mjer þá næst að Landsbankanum, sem eftir frv. á að verða seðlabanki. Ef hann starfar sem raunverulegur seðlabanki, þá hlýtur hann þegar í stað að takmarka mjög lánsstarfsemi sína, eins og aðrir seðlabankar gera. Hann má því hvorki lána fje til vafasamrar útgerðar, hæpinnar verslunar eða yfir höfuð til vafasamra fyrirtækja. Tryggingarnar verða að vera af bestu tegund, ef hann á að versla sem seðlabanki.

Nú hefir hann síðari árin lánað engu síður djarflega en hinn bankinn, og geri jeg ekki ráð fyrir, að órannsökuðu máli, að það sje nema lítið brot af útistandandi skuldum hans um áramót, sem sjeu svo vel trygðar, eða lánað til svo stutts tíma, að samrýmst geti seðlabanka.

Sá banki hlýtur því einnig að draga saman, svo framarlega sem hann á að reka viðskifti sín álíka tryggilega og aðrir seðlabankar gera, sem vitanlega verður að gera kröfu til. En það skapar nýja áhættu fyrir gildi íslenskrar krónu, áhættu fyrir því, að minna sje flutt út.

Jeg játa, að hugsjón hæstv. fjrh. (JÞ) er fögur og í sjálfu sjer rjett, að vilja láta seðlabankann safna sjer innieignum erlendis á góðu árunum; en það má ekki gerast á þann hátt, alt í einu að hefta framleiðsluna, eins og hjer mundi verða raunin á.

Sjerstakur seðlabanki gæti unnið nokkuð af þessu hlutverki, og bankarnir sjálfir, þótt þeir enga seðla hafi. En enginn banki getur þó mætt verulegum gengissveiflum, eins og reynslan sýnir.

Á meðan við Björn Sigurðsson vorum bankastjórar, árin 1910–1918, átti Landsbankinn altaf inni erlendis um nýár, og innieignin óx eftir því sem árin liðu og bankaviðskiftin stækkuðu, eins og sjá má af bankareikningunum frá þeim árum. Þannig eiga bankarnir að „disponera“, ef rjett er að farið og ef það er mögulegt. Og það er altaf mögulegt á venjulegum tímum.

Nú er á milli tvenns að velja: að stofna sjerstakan seðlabanka, sem útheimtir minna fjárframlag frá ríkissjóði en ef Landsbankanum verður af hentur seðlaútgáfurjettur, nýjan seðlabanka, sem truflar ekki í neinu viðskiftalífið eða starfsemi bankanna, en styður það hvorttveggja, eða þá hitt, að afhenda Landsbankanum seðlaútgáfuna, með allri þeirri truflun, sem það veldur, og sem jeg hefi nú stuttlega lýst.

Valið ætti ekki að vera vandasamt. Þótt seðlabankinn sje lítill, þá getur hann unnið þrent: að halda seðlum sínum nægilega gulltrygðum, svo almenningur hjer og erlendis geti haft fult traust á þeim; í öðru lagi að verka sem hemill á of öra framtakssemi manna, að of mikið af seðlum sje gefið út í landinu, og í þriðja lagi að ráða vöxtunum í landinu.

þetta tel jeg höfuðatriðin.

Hitt vegur minna í mínum augum, hvort hann á inni erlendis miljóninni meira eða minna, er misæri koma, því sú innieign verður aldrei fullnægjandi, þegar verulega út af ber. Við sjáum, að þótt landið eða bankarnir skuldi nokkrar miljónir, þá gerir það ekkert til, meðan landið hefir traust og meðan framleiðslan er nægileg. Það fellir ekki krónuna í gildi. Þessvegna er meira áríðandi að leggja alla áhersluna á að styrkja og auka framleiðsluna í landinu, þannig, að vjer getum ávalt flutt meira út en inn. Það eitt getur fyrirbygt allar óhagstæðar gengissveiflur, ef seðlaútgáfu er haldið í hófi. En mjer virðist frumvarpið ganga í gagnstæða átt.

Með þessari greinargerð og greinargerð minni í áliti mínu á þskj. 367 vænti jeg, að hæstv. fjrh. (JÞ) afsaki, þótt jeg hafi ekki getað orðið honum sammála í þessu eina máli.

Ætli maður sjer að láta seðlabankann verða lífvörð gegn öllum gengissveiflum, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) og ráðunautur hans, prófessor Axel Nielsen ætlast til, þá verður bankinn að eiga eigið fje svo tugum miljóna skiftir, og sem hann gerir lítið annað við en að passa upp á gengissveiflur, bæði nú og máske eftir 50–100 ár, að ný heimsstyrjöld kann að skella á. En sú trygging yrði vissulega dýr, og dýrari en að setja svo mikinn gullforða fyrir seðlunum, að hægt sje að leysa þá inn, ef með þarf, en sem menn veigra sjer þó við.

Jeg hefi jafnan litið svo á, að framleiðsla og hæfileg takmörkun seðlaútgáfunnar gæti fyrirbygt verðfall gjaldeyrisins, og að við gætum aldrei hugsað til að hafa svo fjesterkan seðlabanka að geta ráðið þar neinu verulegu um, er í óefni er komið. Þessvegna hefi jeg ekki einu sinni minst á þá hlið í umtali mínu um stofnun seðlastofnunar eða seðlabanka, að hann gæti skoðast þarna á verði. Hinsvegar vissi jeg, að alt annað gátu þessar stofnanir uppfylt, svo sem að hafa seðla sína vel gulltrygða, að vera hemill á of öra framtakssemi, o. s. frv. Það finst mjer vera það eina, sem hægt er að ráða við. Hitt er meira bókvit (theoria), að hugsa sjer að ráða nokkru um gengið aðeins með sparisjóðsfje. Það er ekki með bönkum eða peningum einum, sem hægt er að ráða genginu, heldur nægri framleiðslu.

Mál þetta hefir nú mjög skýrst við umræðurnar, og væri mjög æskilegt, að það yrði ekki gert að neinu flokksmáli. Höfum við meirihl. nefndarinnar lagt grundvöllinn undir það, að svo verði ekki, þar sem meirihl. er úr þremur stjórnmálaflokkum.

Jeg vænti því, að ekkert kapp komi fram frá hæstv. stjórn eða flokkunum um málið. Málið er stórmál, og þarf því skynsemin að geta til fulls notið sin. En hætt er við, að hún geti það tæplega, ef kapp kemst inn í málið. Það er mín föst trú og von, að allir flokkar geti unnið saman um málið í eindrægni, því þá verður niðurstaðan væntanlega best.

Ef dagskráin verður feld og brtt. hv. þm. Vestm. (JJós) koma undir atkvæði, greiði jeg atkv. á móti tveim fyrstu brtt., en með þeirri síðustu. Jeg veit sem sje ekki dæmi til þess, að opinberum sjóðum hafi verið leyft annarsstaðar að kaupa hluti í hlutafjelagi með takmarkaðri ábyrgð. Jeg veit þess hvergi dæmi nema á Íslandi, og þau dæmi eru ekki fögur. Opinberir sjóðir mega ekki kaupa önnur brjef en ríkisskuldabrjef eða veðdeildarbrjef (obligationir).

Svo vildi jeg víkja að einu atriði ennþá, sem hæstv. fjrh. talaði um. Hann lagði mikla áherslu á, að það væri ótækt, að ríkið hefði fleiri banka en einn, og þessvegna væri það ótækt að stofna sjerstakan seðlabanka, þar sem Landsbankinn væri ríkisins eign. Jeg get bent hæstv. fjrh. (JÞ) á einfalda ráðningu á þessu. Það er ekki annað en breyta nafni Landsbankans og kalla hann „Sparisjóð Reykjavíkur“, eins og hann í raun og veru er. Breyta um nafnið og láta hann draga inn af lánum sínum svo mikið, að hann geti borgað ríkissjóði til baka það sem hann á í bæjarsjóði. Líka mætti gera hann að hlutafjelagsbanka.

Að öðru leyti kæri jeg mig ekki um að fara inn á afsakanir í greinargerð hæstv. fjrh. (JÞ), hvernig á því stóð, að undirbúningur málsins hefir orðið eins og raun er á, en jeg hefi það á tilfinningunni, og hafði á síðasta þingi, að það væri ákveðinn hugur hæstv. fjrh. (JÞ), að láta Landsbankann verða seðlabanka, og hefir hann því leitað álits aðeins hjá þeim, sem hann treysti, að væru sjer sammála. En jeg álít, að próf. Nielsen hefði átt að gefa stjórn þjóðbankans danska þetta álit, en ekki ísl. stjórninni, og láta hana bera ábyrgð á þessum skjölum. Og þá efast jeg um, að þetta álit hefði verið eins úr garði gert eins og það er.