27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg ætla fyrst að svara því, sem hv.2.þm. G.-K. (BK) sagði um það, að þetta mál ætti ekki að vera neitt flokksmál. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það verði yfir höfuð alment skoðað, að það sje mál neins sjerstaks flokks í landinu eða hafi verið, að Landsbankinn ætti að taka við seðlaútgáfunni, jafnóðum og Íslandsbanki sleppir henni. Hv. þm. mintist á, að meirihl. hefði sjerstaklega lagt grundvöll til þess að forða málinu frá að lenda í reipdrætti milli flokka, og má vel vera, að þeirra till. miði að því. En á hinn bóginn get jeg ekki sjeð, að till. um að aðhyllast frv. þetta stefni málinu á nokkurn veg inn í flokkapólitík.

Að því er snertir ummæli hv. þm. um brtt. minnihl., þá skal jeg geta þess, að þær tvær brtt., sem hann taldi sig ekki geta aðhylst, eru að mestu leyti fram komnar eftir bendingum Krabbe skrifstofustjóra.

Jeg hafði vikið að því nokkrum orðum í fyrri ræðu minni, að mjer virtist, að sjerstaklega tveir þingmenn í meirihl. nefndarinnar hefðu allmjög skift um skoðun á þessu máli frá í fyrra, sem sje hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP). Hv. 5. landsk. hefir ekki viljað kannast við, að svo sje, en hefir á hinn bóginn viljað halda því fram, að jeg hafi tekið þátt í að tefja þetta mál á síðasta þingi. Er þá ekki nema rjett að rifja upp stuttlega, hvernig málið lá þá fyrir. Frv. um Landsbankann var útbýtt í þessari hv. deild 19. mars; en á fundi í deildinni 14. mars lýsti fyrv. fjrh. (KIJ) því yfir, að þetta sama frv. sje þá alveg nýlega komið í sínar hendur. Af þessu er það auðsætt, að fyrv. stjórn hefir ekki haft tækifæri til að kynna sjer málið neitt til hlítar. 19. mars var frv. útbýtt; ný stjórn var komin að völdum, og hún hafði ekki átt neinn þátt í undirbúningi þessa máls. Frv. var samið, eins og kunnugt er, af Landsbankastjórninni sjálfri.

Fyrst var það, að nefndin var ekki á einu máli um það, hvað gera ætti við frv. Jeg hefi þegar drepið á það, að tveir af nefndarmönnum, þeir sem jeg mintist á, vildu láta samþ. frv. með litlum breytingum. En aftur á móti var meirihl. á því, að fresta málinu. Hjer við bætist það, að núverandi hæstv. fjrh. (JÞ), sem vitaskuld var ekki farinn að kynna sjer málið neitt til hlítar, ljet í ljós þá ósk við nefndina, að hann langaði til að fresta málinu til næsta þings, svo að stjórnin gæti kynt sjer það og borið það undir álit sjerfræðinga.

Þar sem nú fráfarandi stjórn hafði ekki getað kynt sjer málið, og frá hennar hendi kom það óundirbúið, og nýja stjórnin hafði af skiljanlegum ástæðum ekki haft hönd í bagga með tilbúning frv., þá sýndist það eðlilegt, að stjórnin fengi þetta svigrúm, sem jeg þá mælti með, til þess að undirbúa málið til næsta þings.

Jeg skal taka það skýrt fram, að jeg tel nú nauðsynlegt, að málinu verði ráðið til lykta á þessu þingi, og þarf jeg því ekki frekar að taka fram, hvað fyrir mjer vakti, er jeg talaði um óþarfa frestun í því. Var það heppilegt, að hv. 5. landsk. (JJ) las upp ummæli mín, er jeg talaði í mót hinni rökstuddu dagskrá. Þau orð sanna mitt mál, en ósanna hans.

Það stendur í nál. þessara tveggja hv. þm. á þskj. 367 — ef jeg má lesa upp kafla, með leyfi hæstv. forseta:

„Krabbe skrifstofustjóri sendi einnig álit til stjórnarinnar, og eru þar einstök atriði, sem undirrituðum nefndarmönnum þykja mjög til bóta ....“

Skal jeg nú sýna fram á, að mörg af þessum atriðum eru tekin upp í frv. En áður vildi jeg mega lesa kafla úr nál. hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) um þetta sama mál á þinginu í fyrra:

„Minnihl. nefndarinnar lítur svo á, að meginefni frv. geti orðið til mikilla hagsbóta ....“

Með þessu nál. er lýst yfir fylgi við frv. En það má sjá á nál. þeirra á þskj. 367, að þeir finna nú frv. margt annað til foráttu en þá, en þó voru þau ákvæði í frv. í fyrra, sem voru miklu óhagstæðari, eins og jeg mun sýna fram á.

Þessir tveir hv. nefndarmenn segja, að till. Krabbe sjeu til bóta. Skal jeg þá drepa á nokkrar till. hans, sem teknar eru upp í frv. T. d. hefir stjórnin eftir tillögum hans tekið upp ákvæði 16. gr., um skiftimynt, ákvæði 18. gr., að bankinn taki að sjer sparisjóðsfje o. s. frv., ákvæði 19. gr. um bráðabirgðalán ríkisins, sem báðir leggja mikla áherslu á, Axel Nielsen og Krabbe. Þá eru og ákvæði 32. gr., um hve mikið skuli leggja í varasjóð. Í fyrra var gert ráð fyrir mun minna. Þá eru ákvæði 24. gr., um íhlutunarvald fulltrúaráðs. Þar hefir stjórnin tekið upp tvö mikilvæg ákvæði, sem ekki voru í frv. í fyrra, undir e-lið, um leiðbeinandi endurskoðanda, og undir d-lið, um að taka ákvarðanir um eftirgjöf á skuldum.

Þetta er það af tillögum Krabbe, sem jeg hefi sjerstaklega tekið eftir, að stjórnin hafi tekið til greina. Og þar sem þessir tveir hv. nefndarmenn hafa lýst yfir því, að þeir teldi margar af tillögum Krabbe til bóta, verður ekki annað sjeð en að frv. hafi batnað, þótt þeir á öðrum stað segi, að það hafi versnað.

Má ennfremur benda á það, að í frv. Í fyrra voru engin ákvæði, er hindruðu það, að hlutafje bankans kæmi frá útlöndum. Nú eru það íslenskir ríkisborgarar einir, sem mega vera hluthafar, og verður að telja það stórbót, að útlendingar geti ekki náð valdi yfir bankanum. Þetta var ekki útilokað í fyrra, og vildu þeir hv. þm., er jeg nefndi áðan, þeir hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP), þó samþykkja það.

Með þessu tel jeg sýnt, að ummæli mín upphaflega um það, að frv. hefði tekið breytingum til batnaðar, eru ekki sögð af misgáningi. Ennfremur hefi jeg sýnt fram á, að þessir tveir hv. þm. eru í mótsögn við sjálfa sig, þar sem er nál. þeirra í fyrra og ummæli þeirra um frv. nú. Verður þá ekki hægt að skýra afstöðu þeirra á annan hátt en þann, að þeim hafi snúist hugur.

Í einu atriði þótti mjer hv. 1. landsk. (SE) fara nokkuð langt frá sannleikanum. Hann vildi fullyrða, að með frv. þessu ætti að offra atvinnuvegum þjóðarinnar á altari Landsbankans. Jeg fæ ekki sjeð, að slík stóryrði hafi við hin minstu rök að styðjast, eins og hæstv. fjrh. hefir greinilega sýnt fram á. Að minsta kosti er tilgangur minn, með því að vilja samþ. frv. og fá Landsbankanum seðlaútgáfuna í hendur, ekki sá, að hnekkja atvinnuvegum landsmanna hið minsta.

Annars lagði hv. þm. (SE) mikið upp úr því, hversu mjög Íslandsbanki hefði stutt sjávarútveginn á undanförnum árum og vildi jafnvel halda því fram, að sá atvinnuvegur stæði og fjelli með bankanum. Jeg skal ekki neita því, að Íslandsbanki hefir veitt sjávarútveginum lofsverðan stuðning frá fyrstu tíð, en það hefir Landsbankinn líka gert. (SE: Jeg tók það líka fram.) Það er vitanlegt, að einkum á síðari árum hefir Landsbankinn veitt sjávarútveginum öflugan stuðning, svo að Íslandsbanki er þar ekki einn um hituna. (SE: Jeg hefi aldrei haldið því fram.) Ef að jeg hefi misskilið hv. þm. (SE) í nokkru, þá kemur það síðar í ljós, en mjer fanst hann haga orðum sínum svo, að hann teldi, að sjávarútvegi landsmanna væri stofnað í stórhættu, ef Landsbankinn fengi seðlaútgáfurjettinn í sínar hendur.