27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

26. mál, Landsbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Jeg þarf að skýra ýms atriði í ræðu hæstv. fjrh (JÞ) frá því í gær.

Hann taldi frest á máli þessu og frekari rannsókn spor úr rjettri leið.

Það er nú svo hvert mál sem það er virt. Í fyrra var málinu slegið á frest samkvæmt tilmælum hæstv. ráðh (JÞ). Þá kaus hann ársfrest, í stað þess að koma með þær brtt., sem hann taldi æskilegar. Og nú er það svo, að mörgum hv. þm. virðist málið standa enn til bóta og vilja því frekari rannsókn, ekki síst þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir í dag játað, að undirbúningur þessa frv. hafi ekki verið með því móti, sem hann hefði helst á kosið. Meðal annars játaði hann, að betra hefði verið að bera frv. undir sjerstakan, bankafróðan mann, sem hann nefndi, en til þess hefði ekki unnist tími.

Þá talaði hæstv. fjrh. (JÞ) um 3–4 breytingar, sem nú væru á frv. frá því sem verið hefði í fyrra, og skildist mjer á honum, að hann væri sjer þess meðvitandi, að þar stæði hann í þeim sporum, sem við hv. 2. þm. S.-M. (IP) höfðum markað í fyrra hjer í hv. deild, enda vildi hv. þm. Vestm. (JJós) halda því fram, að við værum brautryðjendur að þessu leyti, en hann og flokkur hans ætluðu að feta í fótspor okkar. Betur, að svo væri oftar. Hæstv. ráðh. (JÞ) þótti líklegt, að við litum með velþóknun á þessar breytingar, þar sem við værum lærifeður hans í þessum efnum.

Mjer kemur í hug það, sem heimspekingurinn Sören Kirkegaard sagði um þá, sem njóta listaverka, og þá, sem búa þau til. Hann sagði, að listaverkin væru sköpuð með sársauka listamannsins um langan tíma, en fólk liti ekki á það, heldur segði aðeins: Sýndu meira! án þess að hugsa um þjáningar söngvarans. Jeg vildi nú óska, að hæstv. fjrh. (JÞ) syngi meira í þessu máli og færðist enn nær okkur, þó að það kosti hann ef til vill einhverja þjáningu. Vona jeg, að svo verði, með því að láta frv. bíða enn um stund. Þessvegna er full ástæða til að óska frekari frests, að svo stöddu máli, og betri undirbúnings fyrir næsta þing. Er þá vonandi, og enda harla líklegt, að ekki einungis hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Vestm. (JJós) fái smátt og smátt öðlast betri skilning á málinu, heldur öll þjóðin.

Annars er jeg fyrir mitt leyti ekki svo mjög hrifinn af þeim atriðum, sem hæstv. ráðh. (JÞ) taldi til bóta í frv. þessu, frá því sem var í fyrra, en jeg virði hina almennu viðleitni hans og vil gefa honum frest til að sækja enn betur í sig veðrið og komast á rjettar brautir á fleiri sviðum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að ríkissjóður hafi forgangsrjett til hlutabrjefakaupa samkvæmt frv. Þetta atriði er ítarlega skýrt í nál. okkar hv. 2. þm. S.-M. (IP). Það er engin trygging fyrir því, að þessi forgangsrjettur verði notaður. Þegar Íslandsbanki var stofnaður, sællar minningar, var svo kveðið á, að Íslendingar skyldu sitja fyrir kaupum hlutabrjefanna. En hvernig fór? Þeir, sem hafa eitthvert hugboð um, hvar meirihluti hlutabrjefa Íslandsbanka eru nú niður komin, geta ekki verið sjerlega hrifnir af þessu ákvæði frv. Segjum t. d., að hæstv. fjrh. (JÞ) verði fjrh. áfram, þegar til stofnfjáraukningar Landsbankans kemur, samkvæmt frv. Honum er þá algerlega í sjálfsvald sett, hvort hann notar forgangsrjettinn f. h. ríkissjóðs. Engri ábyrgð verður komið fram á hendur honum, þó að hann verði þá þeirrar skoðunar, að ríkissjóður geti ekki lagt fram fje til hlutakaupa og afsali því forgangsrjettinum. Og svona má finna ótal útgöngudyr. Þetta ákvæði frv. er því fremur veiðibrella gagnvart þeim, sem er illa við, að bankinn verði hlutabanki einstakra manna, heldur en hjer sje um alvarlega tryggingu að ræða.

Þá heldur hæstv. fjrh. (JÞ) því fram, að bankaráðinu sje fengið meira vald nú en í frv., sem lá fyrir í fyrra. Við höfum sýnt í nál okkar, að þetta vald bankaráðsins er í flestum tilfellum lítils sem einskis virði. Ef það hefir nokkra þýðingu, þá er það helst að gefa skuldunautum bankans eftir skuldir. En við sjáum enga ástæðu til annars en að bankastjórarnir beri sjálfir ábyrgð á eftirgjöfum lána, sem þeir hafa veitt miður áreiðanlegum eða fjárhagslega illa stæðum lánþegum, en geti ekki skelt ábyrgðinni á herðar bankaráðsins. Við höfum sýnt fram á, að bankaráðið skv. frv. er sáralítils virði, en hinsvegar hefir það talsverðan kostnað í för með sjer. Ef slíkt bankaráð á að koma að nokkru liði, þá þarf því að vera komið öðruvísi fyrir en frv. segir, bæði að því er kjör þess snertir og starfssvið. Ef það ætti t. d. að hafa vald yfir „diskontónni“, eins og viða á sjer stað erlendis, þá gæti það haft einhverja þýðingu.

Þá kvað hæstv. fjrh. (JÞ) það ákvæði til bóta, að seðlaútgáfurjetturinn væri ekki hugsaður bundinn nema um 50 ára skeið.

Um þetta atriði er fátt sagt í nál. okkar, nema hvað við höldum því fram, að ef bankinn yrði gerður að gróðafjelagi, þá er þessi tími of langur og lengri en venja er til víðast hvar erlendis.

Sum lönd hafa tekið upp þá reglu, að festa ekki seðlaútgáfurjettinn nema um mjög skamman tíma, ef hann er í höndum einstakra gróðafjelaga.

Það er því lítið fyrir að þakka, að hann skuli ekki hugsast hjer lengur bundinn en í 50 ár, eins og frv. er að öðru leyti í pottinn búið.

Þá svaraði hæstv. fjrh. (JÞ) nokkru „kritik“ nál. okkar á breytingu þeirri, sem frv. gerir á afstöðu Landsbankans gagnvart ríkissjóði. Jeg hefi orðið þess var, að mikilsmetnir Íhaldsmenn hafa skoðað þá breytingu hlægilega tilraun til að „bóndafanga“ Landsbankann. Í þessu sambandi er og rjett að drepa á aðra breytingu, sem frv. gerir á núgildandi skiplagi. Fyrir nokkrum árum var Landsbankanum veittur einkarjettur til að geyma fje opinberra sjóða og stofnana. Þetta ákvæði vill hæstv. fjrh. (JÞ) nú fella úr gildi, enda þótt það hafi verið sett eftir örðuga baráttu margra þjóðhollustu manna, og enda þótt Landsbankinn hafi verið aðalhjálparhella ríkissjóðs á undanförnum krepputímum.

Jeg býst við, að hv. þm. Vestm. (JJós) geti skilið, að enda þótt aðeins sje tekin fyrri breytingin og það, sem af henni leiðir, að ríkinu verði að miklu leyti varnað allra viðskifta við annan bankann, þann, sem líklega verður sterkari áður en líður á löngu, þá sje full ástæða til að athuga það mál nánar. Það verður saga til næsta bæjar, ef þingið samþykkir athugunarlítið að loka öðrum bankanum fyrir ríkissjóði.

Þetta er sjerstaklega vítt í nál. okkar og eins af mjer í ræðu hjer í gær, en samt tekur hv. þm. Vestm. (JJós) þetta ákvæði sem dæmi þess, að okkur hljóti að vera það sjerstaklega geðfelt, af því Krabbe telur svo vera, en við álitum sumar till. hans miða til bóta, en alls ekki þessa.

Þetta er gott sýnishorn vinnubragða hv. þm. (JJós), að hann telur okkur samþykka atriði í frv., sem við höfum a. m. k. tvímótmælt.

Jeg vil minna á það, sem hv. 2. þm. G.-K. (BK) vjek að í dag, viðvíkjandi meðferð á opinberu fje. Mjer skildist, að þau tilfelli hefðu komið fyrir, að því hefði verið ráðstafað á óhyggilegan hátt. En það er eitt, sem okkur hæstv. fjrh. (JÞ) ber á milli, að jeg tel, að ekki sje hægt að koma fje tryggilegar fyrir en í Landsbankanum, meðan hann er alþjóðareign og hefir alla þjóðina að baki sjer. Hæstv. fjrh. (JÞ) neitar því, að fordæmi Þjóðverja hafi haft nokkuð að segja, er farið er fram á, að þingið að miklu leyti hætti öllum afskiftum af Landsbankanum, ef hann verður gerður að seðlabanka. En jeg vil benda honum á, að eftir viðurkendum reglum ritskýringarinnar get jeg sannað hið gagnstæða. Hv. þm. Vestm. (JJós) hefir, eins og hæstv. fjrh. (JÞ), mælt mjög með álitsskjali Krabbe skrifstofustjóra, en í því er prentaður upp á þýsku kafli úr lögum þjóðbankans þýska frá 1924. Vitaskuld er bankanum stjórnað af fjármála- og bankamönnum, en alt ber með sjer, að hann er stofnaður undir eftirliti Bandamanna. Kemur fram í ummælunum andi Dawessamningsins. Jeg get og minst á afskifti Bandamanna af þýsku járnbrautunum og öðru, í því skyni að tryggja sjer, að Þjóðverjar ljúki skuldum sínum, og sjest þetta líka í hinni þýsku tilvitnan Krabbe skrifstofustjóra. öll rjett ritskýring sýnir því, að hæstv fjrh. hefir í þessu atriði farið eftir Krabbe, en Krabbe eftir þjóðbankanum þýska, sem er aðeins hluti af ráðstöfunum Bandamanna gagnvart Þjóðverjum. En á þeim er ekkert að byggja, því að Bandamenn hugsa um það eitt, að tryggja rjett sigurvegaranna gagnvart þeim sigruðu, bæði í þessu máli sem öðrum.

Jeg hefi sýnt fram á þetta, til þess að sanna, hve undirbúningur þessa máls er óábyggilegur, og getur hæstv. fjrh. (JÞ) ekki mótmælt þessum rökum, því að þau eru óhrekjanlega studd af fylgiskjölum, sem liggja fyrir þinginu.

Nú í dag hefir hæstv. fjrh. (JÞ) farið að skýra, hversvegna sparisjóðurinn á Eyrarbakka hrundi. Kendi hann því um, að Landsbankinn hefði stofnað útibúið á Selfossi. Jeg vil drepa á tvö atriði viðvíkjandi þessu, því að þótt þetta mál komi eiginlega ekki þessum umr. við, þá hefir það samt verið dregið inn í umr., og getur ekki verið neitt á móti því, að hin rjetta skýring komi fram.

Allir vita, að sparisjóðurinn lánaði svo ógætilega út, að hann gat ekki staðið skil á innieignum manna og fór þessvegna á hausinn. Hefir þurft sjerstaka löggjöf og hjálp frá Landsbankanum, til þess að bjarga honum að nokkru leyti. Að sett var útibú á Selfossi, hlaut að vera sparisjóðnum til hjálpar, því að nýtt fjármagn kom inn í hjeraðið, er hlaut að hjálpa þeim, sem nokkra tiltrú höfðu, til þess að standa í skilum. Röksemdir hæstv. fjrh. (JÞ) um útibúið austanfjalls voru því líkastar því, að hann hjeldi því fram, að maður nokkur hefði felt úr hor vegna þess að nábúi hans hefði komið með 100 vættir af heyi og lagt þær við bæjardyr hans. Ennfremur óska jeg eftir, að hæstv. fjrh. (JÞ) færi sönnur á þau ummæli sín, ef þau eru ekki bygð á einberum misskilningi, að útibúið á Selfossi hafi gert ráðstafanir til að spilla fyrir sparisjóðnum. Ef hæstv. fjrh. (JÞ) færi hjer með rjett mál, væri samt um atvinnuróg að ræða, og hefði sparisjóðurinn hlotið að fara í mál og fá útibúið dæmt fyrir þessar aðgerðir. En þar sem útibúið fjekk enga slíka málsókn, geri jeg ráð fyrir, að engin slík ummæli hafi komið frá því, eða þá að formaður sparisjóðsins hafi við nánari athugun álitið þau rjettmæt. Því víst er það, að útibúið stendur enn trygt og hefir innbyrt sparisjóðinn. Jeg verð því að telja, að ósatt sje, að um atvinnuróg af hálfu útibúsins hafi verið að ræða, nema hæstv. fjrh. færi full rök fyrir því. En hvað sjóðinn snertir, þá mátti ekki búast við góðu um hann, því engum dylst, að meira en lítið bogið er við þá stofnun, sem veðsetur sínar eigin sparisjóðsbækur og býður þær til sölu og leigu, en „spekulerar“ jafnframt í pólskum mörkum í miljónatali, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) veit, að var um þessa stofnun. Um slíka stofnun tel jeg enga ástæðu til að tala í neinum afsökunartón. Yfirleitt er öll ráðsmenska sparisjóðsins eitt af þeim svörtu blöðum í fjármálasögu þessa lands.

Þá var hæstv. fjrh. (JÞ) að minnast á það, að erlendis hefðu verið gerðar ítarlegar tilraunir til að hjálpa illa stöddum lánsstofnunum. Já, sá maður var það í Noregi í haust, sem hæstv. fjrh. (JÞ) vill gjarnan líkjast hjer í Íhaldsflokknum. Berge fyrv. forsrh. Norðmanna lánaði þá 25 milj. kr. á bak við þingið. Fyrir það var hann dauðadæmdur sem stjórnmálamaður, og svo ilt verk þótti þetta, að flokki hans dettur ekki í hug, þótt hann sje sterkasti flokkurinn í þinginu, að bjóðast til þess að taka aftur við stjórn. Fyrir svo alvarlegum árekstri hafa erlendir stjórnmálamenn orðið, sem hafa viljað hjálpa lánsstofnunum, sem reknar voru eins og Handelsbankinn norski og sparisjóðurinn á Eyrarbakka. En jeg hygg, að ef hæstv. fjrh. (JÞ) hefði setið við völd, þegar sparisjóðurinn var að fara um, þá hefði hann farið inn á þá braut, sem stjettarbróðir hans í Noregi lenti á, svo mjög harmaði hann það, að sparisjóðurinn varð að hætta að starfa og rann inn í útibúið, því að hann virtist harla ánægður með sparisjóðinn í heild. Segi jeg ekki þetta hæstv. fjrh. (JÞ) til vansa, því að Berge var miklu meiri stjarna í Noregi en hæstv. fjrh. (JÞ) er hjer, svo hann hlýtur enga niðurlæging við samanburðinn.

Þá kem jeg að síðustu ræðu hv. þm. Vestm. (JJós). Hann vildi halda því fram, að við hv. 2. þm. S.-M. (IP) hlytum að álíta þetta frv betra en frv. um Landsbankann, sem borið var fram í fyrra. Höfum við þó skýrt og skorinort tekið það fram og rökstutt það í nál. okkar, að við teljum frv. verra, að það sje spilt frá því sem það var í fyrra. Hitt get jeg játað, að þær skoðanir hafa nú komið fram hjá hæstv. fjrh. JÞ),sem ekki sjást í frv. og við teljum mjög miklu betri á vissum sviðum en það, sem haldið er fram í frv. Því má hv. þm. (JJós) segja, að við metum mikils till. hæstv. fjrh. (JÞ) um að efla Landsbankann með landsfje, ef samkomulag næst um það, að gera bankann að seðlabanka.

En að hv. þm. (JJós) hygst vita svo miklu betur um skoðanir okkar hv. 2. þm. S.-M. (IP) en við sjálfir, byggir hann á rökfærslu, sem er enn vitlausari en alt annað, sem hann hefir flutt fram. Við segjum í nál okkar, að við teljum, að einstök atriði í brjefi Krabbe bendi til bóta. Þessu snýr hv. þm. (JJós) svo, að við teljum alt í brjefinu til bóta. Sýnir það tilhneiging hans til þess að afbaka alt. En gallinn er svo aðeins sá, að hæstv. landstjórn hefir ekki tekið upp í frv. sitt þau atriði úr brjefi Krabbe, sem við teljum til bóta, heldur hin, sem við hyggjum, að miði til óheilla.

Jeg get bent á, hvaða atriði okkur þótti mjög til bóta. Það er gagnrýni Krabbe á Landsbankafrv. frá í fyrra, og eins gagnrýni hans á því, að einstakir gróðabrallsmenn fái eignarrjett á bankanum. Sú gangrýni er góð, svo langt sem hún nær, en mætti vera skarpara orðuð en skrifstofustjórinn gerir. Á þessari gagnrýni byggir skrifstofustjórinn till. sína um að útiloka afskifti einstakra gróðamanna af bankanum. Hæstv. stjórn tók ekki þá till. upp, en háttv. þm. Vestm. (JJós) hefir nú gert það, eftir að nefndin klofnaði. Jeg hygg, að hann telji mig ekki of bersöglan, þótt jeg bendi á, að jeg varð aldrei var við, að hann legði neina áherslu á þessa till. meðan við unnum saman. En einmitt þetta, að hæstv. stjórn tekur ekki till. skrifstofustjórans til greina, en háttv. þm. tekur hana síðan upp, sýnir, á hve veikum þræði hann er að reyna að ganga, þegar hann vill sanna, að við hv. 2. þm. S.-M. (IP) hljótum að vera þakklátir fyrir þetta frv.

Þá sagði hv. þm. (JJós), að við Framsóknarflokksmenn hefðum ekki í fyrra áskilið okkur rjett til að gera brtt um æðstu stjórn bankans. Hver er æðsta stjórn bankans? Vitaskuld er þar bankaráð og bankastjórn, en hv. þm. (JJós) skilur ekki, að það er ekki æðsta stjórn bankans, heldur eru það eigendurnir; þeir hafa ráð hans í hendi sjer. Þannig er það í fjelögum. Það eru ekki stjórnirnar eða hluthafafundirnir, heldur sjálfir meðlimirnir, sem hafa æðstu ráðin. Það eru eigendurnir, sem eru æðsta stjórnin. Nú ætti hv. þm. (JJós) að skilja, að við hv. 2. þm. S.-M. (IP) getum ekki fallist á það fyrirkomulag, sem farið er fram á í frv., bæði nú og í fyrra, því að eftir frv. verður það ekki landið eða landsstjórnin, sem stjórna bankanum í þarfir þjóðarinnar, heldur einstakir menn, sem reka hann samkvæmt sínum óskum og þörfum. Í þessu efni hefir Krabbe komið okkur til aðstoðar, og hann hefir nú hlotið þá ánægju, að hv. þm. Vestm. (JJós) er í þessu atriði orðinn lærisveinn hans og okkar hv. 2. þm. S.-M. (IP). En þótt jeg og hv. þm. (JJós) sjeum sammála um þessa höfuðniðurstöðu, er ekki sýnt, að við getum orðið samferða hvað allar breytingar snertir. Um annað kann svo að fara, að okkur semji ekki. Slíkir afarkostir kunna að vera settir fyrir samkomulaginu. Ef jeg færi t. d. til hv. þm. (JJós) og bæði hann að lána mjer 100 kr., og hann segði: „Þú getur fengið þær með því að borga 100 kr. í vexti,“ gengi jeg aldrei að þeim skilmálum. Sama máli myndi ef til vill gegna um sumar till. hans í þessu máli, að jeg gæti aldrei fallist á þær.

Við erum sammála um, að bankinn eigi fyrst og fremst að vera seðlabanki, en um fyrirkomulagið að öðru leyti hefir enn ekki náðst samkomulag. Við hv. 2. þm. S.-M. (IP) höfum ekkert snúist í þessu máli. Jeg verð líka að segja, að það er hálfóviðkunnanlegt, að maður, sem hefir nýlega hlaupið frá undirskrift sinni undir nál., skuli vera að brigsla öðrum um snúning í máli, einkum þegar það er ófyrirsynju. Hv. þm. (JJós) ætti líka að athuga framkomu flokksbræðra sinna í hv. allshn. Nd., sem hvikuðu frá sinni eigin till. um skipun fátækramálanna. Nei, hv. þm. (JJós) ætti að fara í sínar eigin herbúðir til að finna stórsnúningana, áður en hann fer að leita að þeim á öðrum bæjum, þar sem hann á ólíkt erfiðara með að verða var við þá en heima.

Af því að jeg tala að líkindum ekki oftar við þessa umr., þá vil jeg nota tækifærið til þess að benda á, að það er mjög stórfeld breyting, sem hæstv. landstjórn vill gera á Landsbankanum, þar sem hún fer fram á, að bankinn verði í höndum hlutafjelags, en sje ekki rekinn á ábyrgð landsins. Jeg get ímyndað mjer, að sumir telji þetta til bóta, en það er víst, að hjer er um stórbreyting að ræða, og jeg býst við, að ef hún nær fram að ganga, þá muni hún veikja traust manna á bankanum. Einmitt það, að fólkið stendur nú í þeirri trú, að þessi banki hafi þjóðina að baki sjer, gerir það að verkum, að menn treysta honum betur en Íslandsbanka. Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta, en aðeins hvetja til, að þessi breyting verði athuguð vandlega áður en hún er framkvæmd.

Mjer virðist sem hæstv. fjrh. (JÞ) og hinn trúi skjaldsveinn hans, hv. þm. Vestm. (JJós) hafi tekið Tyrkjatrú í þessu máli. Þeir hafa sinn mikla „prófet“, sem sje hinn danska prófessor Nielsen. Við öllum spurningum þurfa þeir ekki annað en að slá á skjöldu og hrópa ummæli spámannsins. Okkur, sem enn höfum ekki eignast slíkt leiðarjós, en efumst, eins og hinn vantrúaði Tómas, nægja ekki þessar röksemdir. Við viljum vita meira og rannsaka málið nánar.