27.04.1925
Efri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

26. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞorl):

Jeg vildi víkja ræðu hv. 5. landsk. (JJ) frá mjer með nokkrum orðum. Hann taldi sig og samnefndarmenn sína vera lærifeður og brautryðjendur í þessu efni. Það, sem þeir vildu á síðasta þingi, var þá þetta, að láta Landsbankann hafa seðlaútgáfuna, og auk þess höfðu þeir eitthvað að athuga við yfirstjórn bankans. En finnist hv. þm. (JJ), að þetta sje einhver brautryðjendastarfsemi eða kennimenska, þá er mjer nær að halda, að það sje mont. Og hræddur er jeg um, að fáum myndi takast að finna rök fyrir svo loflegum ummælum sem þeim, er hv. þm. (JJ) hafði um sjálfan sig.

Þá sagði hann, að ákvæðið um framlag ríkissjóðs væri fremur veiðibrella en trygging, eins og það væri orðað. En því mótmæli jeg. Því eins og það er orðað, þá er fyrst og fremst gert ráð fyrir því, að landið leggi fram hlutafje, og til þess þarf ekki annað en viljayfirlýsingu Alþingis í þá átt. Um sparisjóðinn á Eyrarbakka ætla jeg ekki að fjölyrða. Hv. þm. (JJ) haði rangt eftir mjer, það sem jeg hafði sagt um afstöðu útbúsins á Selfossi til sparisjóðsins. Veit jeg ekki til, að útibúið hafi nokkurntíma borið tryggingar sínar saman við tryggingar sparisjóðsins, enda þurfti þess ekki með. Bankanum var það nóg að segja, að hjer væri fjeð best trygt, því ríkið stæði á bak við. Og í auglýsingunni í afgreiðslustofu bankans stóð heldur ekki annað en það, að bankinn biði bestu trygginguna.

Þá er það auðvitað rangt að segja, að bankinn sje lokaður fyrir ríkinu, þar sem takmörkuð sje heimild hans til að lána ríkissjóði fje. En það er aðeins kvöð bankans til að veita bráðabirgða lán, sem verið er að losa hann við. Hinsvegar er honum auðvitað heimilt að kaupa ríkisskuldabrjef, enda eru þau beinlínis talin meðal þeirra verðbrjefa, sem bankanum er skylt að halda til tryggingar seðlum sínum, sem ekki er gull fyrir.

Þá vil jeg snúa mjer að ræðu hv. 2. þm. G.-K. (BK). Skal jeg þá fyrst leiðrjetta það, sem hann sagði, að jeg væri því mótfallinn, að mál þetta væri athugað af nefnd milli þinga. Jeg hefi alls ekki tekið því fjarri, en álít hinsvegar rangt að vísa málinu frá, eins og nú standa sakir. Hvort sem málið verður afgreitt af þinginu eða ekki, þá er mjög mikilsvert, að frv. komist sem lengst áleiðis og að fram komi í tillöguformi þær breytingar, sem hv. þm. kynnu að óska, að gerðar yrðu á frv. Því auðvitað fer það eftir vilja þingmannanna fyrst og fremst, hvernig málinu verður ráðið til lykta. Hvorki umsagnir fræðimanna nje ráðleggingar starfsreyndra manna eru fullnægjandi í þessu efni. Því vil jeg, að tími þingsins verði notaður til að vinna að málinu, og mætti það vera mikill stuðningur þeirri nefnd, sem með málið kynni að fara milli þinga. En mjer er það engin launung, að jeg geri mjer litlar vonir um, að málið komist í gegnum hv. Nd., þó það komist út hjeðan, og dreg jeg það m. a. af því, hvað langur tími hefir farið í það í þessari deildinni, að athuga málið í nefnd. En jeg mun fús til samkomulags um meðferð málsins milli þinga. En áður en jeg gef yfirlýsingu um það, hvort jeg vilji fela málið sjerstakri nefnd, þá vil jeg heyra, hvað verkefni nefndarinnar eigi að vera og hvernig menn hugsi sjer hana skipaða. Þetta kalla jeg að koma með framrjetta hönd, en hitt ekki, að vilja vísa málinu frá nú þegar, og hliðra sjer hjá að koma með till. um þær breytingar á frv., sem hv. þm. kynnu að óska.

Þá hafa bæði hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. 1. landsk. (SE) talað um það, að seðlabönkunum erlendis hafi ekki tekist að halda genginu föstu, og færa þeir það fram sem rök móti því, að Landsbankinn verði gerður að seðlabanka. En hann ætti samt að geta safnað fjármagni erlendis á góðum árum, til að miðla, þegar harðæri detta á. Sömuleiðis er það ekki algild regla erlendis, að seðlabönkum hafi ekki tekist að halda genginu föstu. Jeg vil t. d. minna á það, að seðlabankanum finska hefir tekist að halda genginu þar mjög viðunanlega föstu síðan í ársbyrjun 1922. Það hefir hann gert með „valutapolitik“, kaupum á erlendum gjaldeyri og forsjálni í lánveitingum. Þá tókst ríkisbankanum sænska sömuleiðis að hækka verð krónunnar upp í gullverð og halda henni í því, uns forsvaranlegt þótti að gera seðlana innleysanlega, og síðan það var gert, hefir bankinn haldið krónunni eftir sem áður í gullverði. Þannig hafa seðlabankar leyst þetta viðfangsefni í tveim af 5 Norðurlandaríkjunum, þó raunar sjeu finskir seðlar ekki ennþá innleysanlegir. Má nefna ýms dæmi þessa. Auðvitað tjáir ekki að vitna til Danmerkur í þessu efni. Það var engin furða, þó að Dönum mistækist að halda gengi sinnar krónu uppi, þar sem þeir hjeldu, áð það væri hægt með því að taka útlend lán og auka með því útlán í landinu. Það gat skiljanlega ekki gengið. Það hefir þvert á móti sýnt sig, áð leiðin til að hækka gengið er sú, að draga úr útlánum, og þegar fje safnast fyrir á góðum árum, þá að kaupa fyrir það erlendan gjaldeyri, til að miðla af, þegar illa árar, í stað þess að lána það út. Er þessi hliðin máske sú, sem mesta þýðingu hefir. Raunar sagði hv. 1. landsk. (SE), að það væri ofverk hvers banka að draga úr gengissveiflum með þessu móti, ef sveiflur yrðu miklar á verslunarjöfnuðinum eitthvert árið, svo að útflutningurinn t. d. yrði 20 milj. kr. minni en venjulega. Jeg get hugsað mjer, að erfitt yrði fyrir bankana að mæta slíkri óáran, en hinsvegar er síður en svo, að þetta dæmi geti talist rök gegn því, að nauðsyn beri til að gera bankana sem styrkasta. Það mætti þá með eins miklum rjetti ráða bændum til þess að hætta að heyja, þar sem komið gætu þeir vetur, að þeir yrðu heylausir hvort sem væri. Yfirleitt styður öll reynslan það, sem jeg hefi sagt um þetta, og ekki síst á það við, að sterkan þurfi seðlabankann, meðan búið er við óinnleysanlega pappírspeninga.

Þá mintist hv. 2. þm. G.-K. (BK) á það, að frv. hefði í för með sjer erfiða aðstöðu fyrir Íslandsbanka, og væru ákvæði þessa frv. óhagstæðari fyrir hann en í fyrra. En þá vil jeg lýsa yfir því, að jeg er fús til samkomulags um breytingar við frv., sem nauðsynlegar þykja til að styðja Íslandsbanka sem best, svo færslan milli bankanna á seðlunum valdi honum sem minstra óþæginda. Annars er þetta aðeins eitt af þeim atriðum, sem í mínum augum gerir það æskilegt, að málið alt verði athugað hjer í þinginu, svo að koma mætti brtt. við frv. á framfæri.

Þá hafa þeir sömu hv. þm. (BK og SE) vikið að því, að Landsbankinn ætti of lítið sjálfseignarfje til þess að hann geti talist fær um að halda miklu fje erlendis, og hjelt hv. 1. landsk. (SE) því fram, að það væri í alla staði óleyfilegt fyrir Landsbankann að nota sparisjóðsfje til gjaldeyriskaupa. Kallaði hann, að það væri að „spekúlera“ með fjeð. En hann gætir þess ekki, að meðan seðlarnir eru óinnleysanlegir, þá hefir innieign erlends gjaldeyris það sama að segja og gulltryggingin áður. Gullið er til að jafna með því greiðslur við útlönd. En þegar það er bundið, þá eru erlendar innieignir notaðar til þess. Því er heldur ekki hægt að tala um „spekúlations“-áhættu í sambandi við gjaldeyriskaup í þessu augnamiði, fremur en í sambandi við gullkaup á venjulegum tíma. Þá er líka misskilningur að tala um það, að bankinn tapi á því, að kaupa pund, ef þau fjellu í verði. Það er misskilningur, því ef pundið heldur gullgildi sínu, þá er það verðföst eign, sem ekki rýrnar, þó að íslensk króna stigi. En hitt er annað mál, að bankinn fer þá á mis við þá verðhækkun, sem hann mundi verða aðnjótandi, ef hann ætti sömu eignina í hækkandi íslenskum krónum. Landsbankinn á líka fyrir talsvert fje, sem nota má í þessu augnamiði, áður en tekið er til sparisjóðsfjárins. Þar til má nefna breska lánið síðasta, sem er 51/2 milj. kr., og 2 milj. kr. frá enska láninu 1921. Alt þetta fje má leggja fyrir í erlendum bönkum, án þess að bankinn bíði nokkurn reikningslegan halla af því, þó íslensk króna hækki, með því að þetta er lánsfje, sem greiða á í erlendri mynt. Enn má nefna 2 milj. kr. lán, sem tekið var upphaflega og greiðist af innskotsfje ríkissjóðs. Samtals verður þetta milli 9 og 10 milj. kr., sem Landsbankinn hefir til umráða. En það, sem að er og ráða þarf bót á, er það, að af þessu fje greiðir Landsbankinn of háa vexti til að halda fyrir það erlendan gjaldeyri. En úr þessu er bætt með því að láta bankann hafa seðlaútgáfurjettinn, því með honum fær bankinn ódýrt veltufje, og veit jeg ekki til hvers hagnaðurinn af seðlaútgáfunni ætti fremur að fara á þessum tíma en til þess að standast vaxtatap af erlendri innieign.

Jeg vil nú benda hv. 1. landsk. (SE) á, hver afleiðingin verður af hans röksemdaleiðslu. Hann vill, að seðlastofnunin noti alt sitt fjármagn til þess að endurkaupa víxla frá hinum bönkunum. En um leið er loku fyrir það skotið, að þessi stofnun geti átt erlendan gjaldeyri. Hann telur sömuleiðis óforsvaranlegt af Landsbankanum að safna erlendri innieign í stórum stíl. Niðurstaðan er þá sú, að það verkefni, sem jeg tel nauðsynlegast vegna gildis peninganna, verður að liggja niðri. Það er alveg rjett, sem hv. þm. (SE) hafði eftir bankastjóra Clausen í Privatbanken, að hans banki „spekúleraði“ ekki í erlendum gjaldeyri. Þetta er og verður altaf að vera verkefni þjóðbankanna, að halda genginu föstu, og er það ekki neitt nýtt fyrirbrigði, að svo sje. Fyrir stríð var leikin sú list í Austurríki, að seðlarnir voru hafðir óinnleysanlegir, en gengi peninganna var haldið uppi með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri.

Hv. þm. (SE) talaði um „bankateknisk meðöl“. Þau eru raunar engin önnur en útlánatakmarkanir, og má gera þær með tvennu móti, vaxtahækkun og synjunum um lán.

Hvað viðvíkur syndum bankanna í fortíðinni, þá mun jeg ekki gera þær að umtalsefni. Hv. 2. þm. G.-K. (BK) hjelt því fram, að Landsbankinn hefði orðið fyrir svo stórum töpum, að hann yrði að beita harðri samkepni og draga inn mikið fje til að standast þau. (SE: Jeg sagði ekkert um það). Jeg segi út af þessu það eitt, að mjer sýnist full ástæða til að athuga það, hvort ekki væri rjett að taka af öll tvímæli um þetta; það skiftir óneitanlega nokkru máli, þegar um er að ræða að gera Landsbankann að seðlabanka, hvernig hans fjárhagsástand er á þeim tíma, sem verið er að taka slíka ákvörðun. Jeg er með sjálfum mjer sannfærður um, að þetta góðæri, sem okkur nú hefir hlotnast, muni hafa styrkt Landsbankann þannig, að hans varasjóður nægi vel fyrir áhættum hans. En rannsókn á þessu hefir þó ekki verið gerð.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) sagði, að íslensk króna hefði ekki fallið 1919, og hv. frsm. meirihl. (SE) sagði, að gengismálið hefði ekki verið fram komið 1920, þegar mest var tekið út úr Íslandsbanka. Út af þessu vil jeg minna á það, sem hefir talsverða þýðingu fyrir rjettan skilning á gengismálinu, að öll gengislækkun íslenskrar krónu gerðist á árunum 1919 og 1920. Krónan stóð í gullverði, nákvæmlega, í ársbyrjun 1919, en var komin niður í 71% af gullverði í lok þess árs, og komst svo niður í hálfvirði lægst í nóvember 1920.

Það er nauðsynlegt að veita þessu eftirtekt, til þess að gera sjer það ljóst, að það er ekki verslunarjöfnuður einn, sem rœður gengissveiflum. Þessi lækkun stafaði ekki af óhagstæðum verslunarjöfnuði, en var eðlileg afleiðing af því, að verðlag í landinu var orðið alt of hátt.

Hv. frsm. meirihl. (SE) hjelt því enn fram, að ef varkárninni væri skipað of mikið rúm, gæti af því leitt tjón fyrir atvinnuvegina, en gat hinsvegar ekki bent á, að neitt fjármagn hyrfi úr landinu frá atvinnuvegunum við þessa tilhögun, enda mun það ekki vera unt. Jeg verð að segja, að jeg sje enga ástæðu til þess að gera í öðru orðinu ráð fyrir of mikilli varkárni, ef Landsbankinn verður seðlabanki, en hafa það hinsvegar á móti tilhöguninni, að þetta sje of áhættusamt fyrir bankann, af því að hann hafi sparisjóðsfje. Í þessu er fullkomin mótsögn. Jeg hygg, að banki eins og Landsbankinn eigi að geta haft tök á því, að stilla lánveitingum í hóf, þannig, að hæfilega mikið tillit sje tekið til þarfa atvinnuveganna og hæfilega mikið tillit til, að halda föstu gengi gjaldeyrisins.

Annars vil jeg út af þessu umtali um lánsfjárþörf atvinnuveganna minna á það, sem hv. frsm. líka nefndi, að snemma á þessu þingi fjekk stjórnin fjhn. þessarar deildar í hendur tilmæli manns um leyfi til þess að stofna hjer nýjan banka á sama eða svipuðum grundvelli eins og þingið fyrir 2 árum síðan heimilaði að leyfa tilteknum mönnum að stofna hjer banka. Ef það er virkilega svo í raun og veru, að það sje þörf fyrir meira lánsfje atvinnuvegunum til handa heldur en bankarnir hafa haft til umráða eða búast við að hafa til umráða í nánustu framtíð, þá finst mjer það hefði verið rjett að sinna þessari málaleitun eitthvað, að minsta kosti láta hana koma til athugunar hjer í hv. deild. (SE: Á ekki stjórnin að gera það?) Stjórnin hefir sent þessa málaleitun þeirri nefnd, sem hefir bankamálin aðallega til meðferðar. Og jeg verð að segja, að jeg er ekki eins sannfærður eins og nefndin virðist vera, eða meirihluti hennar, um það, að lánsfjárvöntun standi nú sem stendur atvinnuvegunum fyrir þrifum. En ef menn álíta hættu á því, þá er sannarlega rjettmætt að gefa slíku gaum.

Jeg hefi miklu fremur litið svo á, að talsvert mikill hluti af okkar vandkvæðum undanfarið hafi stafað af því, að búið var að veita meiru lánsfje til landsmanna heldur en atvinnuvegirnir með venjulegu árferði voru færir um að bera og ávaxta. Jeg held sjerstaklega, að það sje dálítið hættulegt að örva að mun lánveitingar yfir höfuð, meðan ósjeð er um það, hvort gengi okkar peninga verði haldið föstu á því stigi, sem það nú er, eða það verði látið hækka áfram, jafnvel alt upp í gullverð; því það verður þröngt fyrir dyrum hjá mörgum skuldugum manni, ef peningarnir eiga að halda áfram að hækka. Jeg hefi þessvegna litið svo á, að varfærni í lánveitingum væri sjerstaklega tímabær nú, einnig beinlínis með hagsmuni atvinnurekendanna fyrir augum.

Um þessa tilhögun í heild, að gera Landsbankann að seðlabanka, má að vísu segja, að með öðrum þjóðum tíðkist varla lengur, að seðlabanki taki við sparisjóðsfje til geymslu. En ástandið hjer á landi er í raun rjettri líkast öllum aðstæðum í öðrum ríkjum Norðurálfunnar eins og þær voru fyrir 80–90 árum síðan. Það er ekki fyr en á allra síðustu árum, að við erum að komast á þær brautir efnalegrar starfsemi, sem aðrar þjóðir voru á fyrir 2–3 mannsöldrum. Og ef litið er á starfsemi þjóðbanka yfirleitt, eins og hún var þá, þá komumst við að raun um, að fyrir 80–90 árum var þjóðbankinn í öllum Norðurlandaríkjunum t. d., svo að segja eini bankinn, sem til var í hverju þeirra, og hafði því með höndum allar tegundir bankastarfseminnar, sem þá tíðkuðust. Síðan hefir atvinnu- og viðskiftalíf þessara þjóða tekið miklum stakkaskiftum og framþróunin gengið í þá átt, að verkaskifting hefir komist á milli banka, eins og á öðrum sviðum athafnalífsins.

Þessvegna er ekki óeðlilegt, þó að við, á frumstigi bankastarfseminnar hjer á landi, höldum þessum málum í svipuðu horfi sem þau voru í til að byrja með hjá öðrum þjóðum. En jeg er sannfærður um, að við eigum fyrir höndum svipaða framþróun og aðrar þjóðir í þessum efnum, og samfara því meiri og fullkomnari verkaskiftingu.