28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

4. mál, fjáraukalög 1924

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg þakka hv. fjvn. fyrir það, hvernig hún hefir tekið frv. þessu. Þarf jeg litlu þar við að bæta, en vil aðeins grípa tækifærið til að lýsa yfir því, að mjer finst mjög óeðlilegt og óheppilegt að greiða ár frá ári launaviðbót kennaranna við vjelstjóraskólann og stýrimannaskólann, sbr. 2. og 3. lið 3. greinar frv., á fjáraukalögum. Hjer er um viðbót við lögmælt laun að ræða, og þótt jeg að þessu sinni sæi mjer ekki fært að neita að útborga hana, þá vil jeg skjóta því til háttv. fjvn., að hún taki þessar greiðslur upp í fjárlögin fyrir 1926, ef þær eru á annað borð rjettmætar að hennar dómi. Í frv. stjórnarinnar er þetta ekki tekið upp, vegna þess, að þegar það var samið, hafði engin málaleitun um þetta komið til stjórnarinnar, og jeg, satt að segja, hafði ekki veitt því eftirtekt, að venja væri að greiða þessar upphæðir.