16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3072)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Flm. (Halldór Steinsson):

Greinargerðin fyrir þessari tillögu getur varla verið styttri en hún er, enda hafði jeg hugsað mjer að skýra efni tillögunnar nokkru nánar við þessa umræðu.

Tillagan er í tveimur liðum, og mun jeg fyrst víkja að fyrri liðnum.

Þegar geðveikrahælið á Kleppi var reist, var gert ráð fyrir, að það ætti að rúma 40–50 sjúklinga. En það voru ekki liðin mörg ár, þegar reynslan hafði sýnt, að hælið var alt of lítið fyrir geðveika menn hjer á landi. það var þá farin sú leið, sem farin hefir verið á síðari árum við flest stærri sjúkrahús landsins, að taka inn á þau fleiri sjúklinga en rúm leyfði og ætlast hafði verið til upphaflega. Þetta er í sjálfu sjer mjög varhugavert og æskilegast, að til þess þyrfti ekki að taka. En þrátt fyrir það, þó að hælið á Kleppi hafi á síðari árum verið yfirfult, með upp undir 70 sjúklinga, þá hefir það samt sem áður ekki nándar nærri getað fullnægt þörfinni. Margir geðveikir menn hafa orðið út undan og ekki komist þar að, til mikilla óþæginda og örðugleika fyrir aðstandendur þeirra.

það eru tvær aðalástæður fyrir nauðsyn þessarar byggingar, og hvor þeirra um sig svo veigamikil, að þótt ekki væri nema um aðra að ræða, yrði ekki komist hjá því að taka hana til greina. Önnur ástæðan er hinir miklu erfiðleikar á að koma geðveikum mönnum fyrir utan hælis og hinn gífurlegi kostnaður, sem því er samfara. þessir sjúklingar geta með rjettu kallast olnbogabörn þjóðarinnar, að því leyti sem flestir heilbrigðir vilja losna við návist þeirra. Og þeir fáu, sem fást til að vera samvistum við þá, gera það varla fyrir nema ærna borgun. það mætti nefna mörg dæmi þess, að ársdvöl þessara sjúklinga hefir kostað hreppsfjelögin, sem venjulega verða að taka þá á sína arma, svo þúsundum króna skiftir, og ef margir slíkir sjúklingar eru í einu í einhverju hreppsfjelagi, þá getur það hreint og beint orðið til þess að sliga það fjárhagslega.

En það er ekki nóg með það, að kostnaðurinn sje mikill við uppihald þessara sjúklinga, heldur er hitt enn verra, að það reynist oft ómögulegt að koma þeim fyrir, hvað sem í boði er. Jeg gæti nefnt nokkur dæmi úr mínum praxis þessu til sönnunar. í einu tilfelli reyndist algerlega ómögulegt að koma geðveikri manneskju fyrir, og hafði hreppsnefndin þá ekkert annað ráð en að ganga með hana frá einu heimili til annars og setja hana niður dag eða daga í bili, til mestu skapraunar og óþæginda fyrir þá, sem fyrir því urðu.

Í öðrum tilfellum hefir það komið fyrir, að það hefir orðið að byggja hús eða leigja yfir eina geðveika manneskju, og fá svo stundum hjúkrun á henni annarsstaðar að, dýru verði keypta. Auk hins mikla kostnaðar, sem þessu er samfara, getur það tæplega talist forsvaranleg meðferð á sjúklingnum, eins og jeg mun síðar víkja að. Svipaðar sögur og þessar má sjálfsagt segja úr flestum læknishjeruðum landsins.

Þetta er nú kostnaðarhliðin á þessu máli, sú hlið, sem veit að aðstandendum sjúklinganna.

Þá kem jeg að hinni aðalástæðunni, sem er líknar- og mannúðarhliðin á þessu máli.

Af því að flestir vilja losna við þessa aumingja og af því að svo erfitt er að koma þeim fyrir, þá leiðir það til þess, að menn verða oft að sætta sig við misjafna og miður góða staði fyrir þá, heldur en að láta þá deyja úti á klakanum.

Þessir sjúklingar geta talist skynlitlir eða skynlausir, en samt megum við, sem taldir erum „normal“ á geðsmunum, ekki fara með þá eins eða jafnvel ver en skynlausar skepnur, því að þó að þá bresti skynsemi eftir okkar mælikvarða, þá hafa þeir þó tilfinningar og þær oft í ríkum mæli. Þess vegna er það einmitt afar áríðandi að beita mestu nákvæmni og samviskusemi við þessa menn, ekki aðeins vegna þess, að með því er fengin meiri trygging fyrir bata þeirra, heldur einnig, þótt um engan bata væri að ræða, af hreinni og beinni mannúðarskyldu. Mjer þætti þakkarvert að sjá kúlu skotið í gegnum höfuðið á þessum aumingjum, heldur en að sjá þá vera hrakta eins og skepnur frá einum stað í annan, alstaðar óvelkomna, alstaðar til ama, og meðferðin þá stundum í samræmi við þetta tilfinningarleysi um kjör þeirra.

Þessar ástæður, sem jeg nú hefi nefnt, gera það óumflýjanlegt, að landið eigi nægilega stórt geðveikrahæli, og það getur tæplega talist afsakanlegt af þingi og stjórn að hafa dregið fram á þennan dag að koma þessu máli í framkvæmd.

Þá vil jeg snúa mjer að seinni lið tillögunnar, landsspítalanum. Jeg ætla mjer ekki að fara langt út í sögu þess máls, því að hún mun hv. þm. kunn.

Um og eftir síðustu aldamót fóru að heyrast ýmsar raddir um það, að nauðsyn bæri til þess að reisa landsspítala, og víst er um það, að þá þegar var flestum læknum landsins sú nauðsyn ljós, og margir þeirra fundu sárt til spítalavöntunar. En þó að þessar raddir og kröfur heyrðust við og við á fyrsta tugi aldarinnar, þá voru þær þó ekki fluttar með þeirri alvöru og festu, sem hverju máli er nauðsynlegt til sigurs. Jeg hygg, að það, sem mest hefir orðið til þess að draga úr þessum kröfum, hafi verið það, að einmitt þá, þegar spítalavandræðin voru hjer sem mest, reistu Frakkar hjer tvö sjúkrahús, sem bættu úr mestu neyðinni, og þau sjúkrahús eigum við enn að búa við. þetta mál fer eiginlega ekki að verða áhugamál álþjóðar fyr en kvenþjóðin tekur það í sínar hendur.

Það mun hafa verið á árinu 1915, sem kvenfjelögin tóku þetta mál á stefnuskrá sína og strengdu þess heit að berjast fyrir því, og það verður ekki sagt með sanni, að þær hafi brugðist því heiti. Síðan hefir verið óslitin barátta fyrir málinu frá þeirra hálfu, og árangurinn eftir íslenskum mælikvarða framar öllum vonum, þar sem safnast hefir þegar í sjóð hátt á þriðja hundrað þús. kr., auk nálega 100 þús. kr. í minningarsjóð, sem einnig er ætlast til, að síðar komi spítalanum að notum.

Jeg get því ekki látið hjá líða að votta íslensku konunum þakklæti, fyrst og fremst frá læknum landsins, fyrir þeirra ódrepandi áhuga á þessu máli, og þá sjerstaklega þeirri konu, sem á sæti í þessari deild, háttv. 6. landsk. (IHB), sem jafnan hefir staðið með þeim fremstu í fylkingu í þessari baráttu, þó að okkur hafi stundum greint á um ýms fyrirkomulagsatriði spítalans, þá hefir okkur þó jafnan komið vel saman í aðalatriðum málsins.

Árið 1919 voru samþykt á Alþingi lög um byggingar fyrir ríkið. Samkvæmt þeim lögum er stjórninni heimilað að láta byggja landsspítala, viðbótarbyggingar á Kleppi og á Eiðum og ýmsar fleiri opinberar byggingar. þessi heimild hefir ekki verið notuð nema að litlu leyti. Raunar tók ríkissjóður lán til viðbótarbyggingar á Kleppi, en meiri hluti þess var uppjetinn í aðrar þarfir ríkissjóðs.

Á þinginu 1922 flutti 2. þm. Reykv. (JBald) í sameinuðu þingi þáltill., þar sem skorað er á stjórnina að láta hið allra fyrsta byrja á byggingu landsspítala. þessi tillaga var þá samþykt.

Á þinginu 1923 ber svo hv. 6. landsk. (IHB) fram þáltill. í Ed., sem fór í svipaða átt og till. á næsta þingi áður, en gekk þó lengra að því leyti, að í henni var skorað á stjórnina að láta landsspítalabygginguna sitja fyrir öllum öðrum opinberum byggingum. þessi síðari hluti till. var þá feldur, og mun það aðallega hafa stafað af því, að það var löngu áður margyfirlýstur vilji þings og stjórnar, að viðbótarbyggingin á Kleppi skyldi sitja fyrir öðrum byggingum ríkisins. En fyrri hluti till. var samþ., og hafði hún þá svipað gildi og till. frá árinu áður.

Á þinginu 1924 er svo enn á ný borin fram þáltill. af hv. 6. landsk. (IHB) og. hv. 5. landsk. (JJ). Sú till. gengur miklu lengra og er ákveðnari en þær till., sem áður höfðu komið fram í málinu, þar er skorað á stjórnina að undirbúa málið undir næsta þing á þeim grundvelli, að gerður verði nýr uppdráttur af spítalabyggingunni og ný áætlun, er ekki fari fram úr 700 þús. kr. Ennfremur er gert ráð fyrir, að byggingunni sje hagað svo, að til hennar verði varið 150–200 þús. kr. árlega, og leitað verði samninga við stjóra landsspítalasjóðsins um 75 þús. kr. lán árlega til byggingarinnar, gegn jafnmiklu tillagi úr ríkissjóði árlega eða ríflega það. Ennfremur var ætlast til, að leitað yrði samninga við bæjarstjórn Reykjavíkur um afnot af heitu vatni úr Laugunum til hitunar á spítalanum. þessi till. var samþykt á síðasta þingi.

Þetta er stutt ágrip af sögu þessa máls fram á þennan dag.

Það eru margar hliðar á þessu máli, og allar vita þær að þjóðarheildinni og þjóðarheillinni. Eins og jeg hefi áður tekið fram, eru öll stærri sjúkrahús landsins yfirfull af sjúklingum. Síðan berklavaraalögin gengu í gildi hefir heilsuhælið á Vífilsstöðum reynst alt of lítið fyrir berklaveika menn í landinu. Afleiðingin af því hefir orðið sú, að þessir sjúklingar hafa verið settir í önnur sjúkrahús, og það er því komið svo nú, að í flestum sjúkrahúsum er 1/2–2/3 allra sjúklinga berklaveikir. Það geta þó allir skilið, að berklaveikir sjúklingar, sem margir hverjir eiga litla eða enga batavon, þeim liggur ekki nándar nærri eins mikið á sjúkrahússvist eins og mörgum öðrum sjúklingum, sem oft eiga á hættu að missa lífið, ef þeir eru ekki teknir inn í spítala á ákveðnum tíma til ákveðinnar aðgerðar. Það er nú einu sinni svo, að til þess að trygging sje fyrir góðum árangri af öllum stærri handlæknisaðgerðum, þá verða þær að fara fram í góðum sjúkrahúsum, undir góðum læknishöndum. Þess vegna er það, til að lina þjáningar manna og lengja líf manna, að það er fyrst og fremst nauðsynlegt, að landsspítalinn sje reistur. þetta er nú sú hlið málsins, sem veit að sjúklingunum í landinu.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli, sem snerta mjög heilbrigðismál landsins og koma við jafnt heilbrigðum sem sjúkum. Við höfum nú á 2 síðustu áratugum eignast sæmilega læknastjett. En án þess að jeg vilji niðra stjettarbræðrum mínum, þá held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða það, að íslensku læknarnir standa ekki jafnfætis læknum í öðrum menningarlöndum. Og vegna hvers ? Vegna þess, að við höfum ekki átt neinn landsspítala. Til þess að læknir geti orðið vaxinn lífsstöðu sinni, þá er ekki nóg, að hann læri mörg þúsund blaðsíður í læknisfræði. Hann þarf jafnframt að sjá sem allra flest sjúkdómstilfelli og hafa sem mesta æfingu við sjúklinga, meðan á náminu stendur, til þess að það komi honum að notum. Þegar jeg varð kandidat í læknisfræði, var jeg af kennurum mínum talinn sæmilega að mjer í bóklegum fræðum. En samt verð jeg að játa það, að þegar jeg kom út í praxis, stóð jeg oft máttlaus gagnvart ýmsum sjúkdómstilfellum, sem jeg ýmist alls ekki hafði sjeð áður eða ekki kynst nægilega. Eins og landafræði verður ekki kend án þess að hafa landabrjef við höndina, eins verður læknisfræði ekki kend án þess að hafa mannlegan líkama við höndina í ýmsum myndum, bæði heilbrigðan, sjúkan og dauðan, sem „kort“ við kensluna. Læknisnemar hjer á landi hafa alt of litla æfingu og sjá alt of fáa sjúklinga á námsárunum, að jeg ekki tali um, hve bagalegt það er fyrir hjeraðslækna, sem búnir eru að vera árum saman í meir og minna afskektum hjeruðum, að eiga ekki kost á að endurnýja og bæta þekkingu sína með því að ganga við og við í góðan landsspítala. Þess vegna má hreint og beint slá því föstu, að við eignumst ekki verulega góða læknastjett í þessu landi fyr en ríkisspítali er reistur.

Öll hjúkrunarstarfsemi hjer er fremur ljeleg og ófullkomin. Vegna hvers? Vegna þess, að okkur vantar landsspítala. Ef vel ætti að vera og nokkuð í samanburði við það, sem gerist með öðrum þjóðum, þá ættum við að eiga a. m. k. 1–2 lærðar hjúkrunarkonur í hverjum einasta hreppi á landinu, auk þeirra, sem hafa fasta stöðu í sjúkrahúsum. En það er nú síður en að svo sje, því að við eigum ekki einu sinni nægilegar hjúkrunarkonur í stærri kauptúnum landsins, hvað þá heldur uppi til sveita. Nám þessara kvenna verður erfitt og slitrótt, af því að þær vantar „materiale“ — það vantar sjúklinga, sem þurfa að vera við höndina, samfara námi þeirra. Þær komast fáar að í spítölunum í einu, og afleiðingin af öllu þessu verður sú, að þær verða, að afloknu námi hjer heima, að sigla og ganga í erlenda spítala til þess að vera færar um að taka við lífsstarfi sínu. Það skilja engir fyllilega nema læknar og þeir, sem hafa reynt það, hve ómetanlegt hágræði það er fyrir lækninn, sjúklinginn og aðstandendur hans, að hafa góða hjúkrunarkonu við hlið sjúklingsins. En góða hjúkrunarkvennastjett fáum við ekki í þessu landi fyr en landsspítali er reistur.

Sama má segja um yfirsetukonumar. Námstími þeirra er of stuttur, og þó hann væri lengdur nokkuð á síðasta þingi, þá er hann samt töluvert styttri en gerist í öðrum löndum. Námsmeyjar þessar hafa alt of litla æfingu á námsárunum, og sjá alt of fáar fæðingar. Afleiðingin af því er auðsæ — yfirleitt ljelegri yfirsetukonur en annarsstaðar. Á þessu verður ekki ráðin bót með öðru móti en því, að ljósmæðraefnin verði látin sigla að afloknu námi hjer og ganga í fæðingarstofnun í öðrum löndum, eða hjer verði sett á stofn fæðingardeild við ríkisspítalann.

Læknisfræðin hefir tekið meiri framförum á síðari árum heldur en ef til vill nokkur önnur vísindagrein. Með hverju ári koma fram nýjar og nýjar uppgötvanir, sem hafa mikilvæga þýðingu fyrir líf og heilsu manna. Þó að við íslendingar sjeum fámenn þjóð, þá erum við áreiðanlega fremur gáfuð þjóð, og við eigum að gera þær kröfur til okkar, að við a. m. k. hlutfallslega við fólksfjölda getum lagt okkar tiltölulega skerf til vísindanna í heiminum. Þetta höfum við hingað til ekki getað gert nema á einstökum afmörkuðum sviðum. Í læknisvísindum höfum ð því miður enn sem komið er lítið getað látið af hendi rakna, og mest vegna þess, að okkur hefir vantað góða spítalastofnun. Niels Finsen hefði aldrei getað orðið heimsfrægur maður, ef hann hefði alið allan sinn aldur á Íslandi. Og hver getur sagt um, hve mörg ljós hafa sloknað í læknastjettinni fyrir það, að þau vantaði skilyrði til að geta lifað. Þá fyrst, þegar ríkisspítali er reistur, getur myndast hjer vísir til vísindalegrar starfsemi í læknisfræði. En það er bráðnauðsynlegt, ef við eigum ekki alveg að dragast aftur úr öðrum þjóðum í þeirri grein. Af því, sem jeg hjer hefi sagt, vona jeg, að hv. þm. sjái, að hjer er alvörumál á ferðinni, sem ekki má eða á að svæfa lengur.

Till. gerir ráð fyrir því, að í byrjun verði varið jöfnum höndum til byggingarinnar fje úr ríkissjóði og landsspítalasjóðnum, en þegar sá sjóður er uppeyddur, kosti ríkissjóður að öllu leyti áframhald byggingarinnar, og að henni verði lokið fyrir árslok 1929. Þetta þykir nú mörgum nokkuð langur tími, og jeg verð að segja það, að mjer þykir fulllangt að bíða í tæp fimm ár eftir þessari byggingu. En fjárhagurinn er nú einu sinni eins og hann er, og svo framarlega sem ekki á að taka ríkislán til þessa fyrirtækis, sem jeg hygg að stjórnin gangi ekki inn á, þá verður þess tæplega vænst, að því verði lokið á skemri tíma. Jeg hefi altaf verið, og er enn, mótfallinn lántökum ríkisins og vil ekki, að sú leið sje farin nema brýn nauðsyn sje fyrir hendi. En jeg verð að segja það, að jeg hefði talið fyllilega rjettmætt, að ríkið hefði tekið lán til þessarar byggingar. Við verðum vel að athuga það, að ríkisspítali er að litlu leyti reistur fyrir núlifandi kynslóð, en að mestu leyti fyrir seinni kynslóðir. Og það felst í sjálfu sjer ranglæti í því, að við, sem nú lifum, berum allar byrðar af því, sem eftirkomendum vorum kemur aðallega að notum. En þetta geri jeg mjer ekki að kappsmáli, ef hægt er að standast kostnaðinn við þetta fyrirtæki án lántöku ríkisins. Hitt geri jeg frekar að kappsmáli, að byggingunni verði lokið fyrir ársbyrjun 1930, og þá kem jeg að síðustu að metnaðarhliðinni á þessu máli, sem að minni hyggju hefir hingað til verið gert alt of lítið úr.

Jeg hefi altaf haft andstygð á öllum þjóðarrembingi. Eins og t. d. þegar því var haldið fram hjer á Alþ., að við ættum ekki að þiggja skip af Dönum til landhelgisgæslu, þó að það sje skýlaust ákvæði í sambandslögunum, að Danir skuli annast þessa gæslu, a.m.k. með einu skipi. Það kemur því ekki til mála, að við sjeum hjer að þiggja nokkra gjöf af Dönum, heldur aðeins taka rjett okkar. Þessar og þvílíkar fullyrðingar eru því mesti barnaskapur og algerður misskilningur á sjálfstæðishugmyndinni. En hitt á að vera hverjum ríkisborgara skylt, að sjá um, að þjóðin verði sjer ekki til minkunar í augum annara þjóða. Þegar við höfum fengið fullveldið, þótti okkur sjálfsagt að fá hæstarjett inn í landið. Það þótti einnig sjálfsagt að fá sendiherra erlendis, og ýmsar aðrar breytingar þóttu sjálfsagðar í sambandi við fullveldið. Við þessu er ekkert að segja. Jeg var sjálfur samþykkur flestum þessum breytingum. En það felst herfileg mótsögn í því að telja þetta sjálfsagt, en telja það ekki sjálfsagt að fá um leið sjerstakan ríkisspítala. Okkur þótti það þá sæmandi að vera komnir upp á náð annarar, okkur fjarskyldrar þjóðar með sjúklinga okkar. Jeg held satt að segja, að sjálfstæðistilfinningin sje ekki rík í þeim mönnum, sem ekki finna, hve vansæmandi þetta er fyrir þjóðina.

Árið 1930, á 1000 ára afmæli Alþ., getum við búist við fjölda útlendinga víðsvegar að hingað til lands. Ef nú landsspítalinn verður þá ekki reistur, og þessir menn spyrjast fyrir um það, hvar ríkisspítalinn sje í þessu ríki, sem haft hafi fullveldi í ellefu ár, þá verð jeg að segja það, að jeg mundi sárlega vorkenna þeim, sem yrðu fyrir slíkum spurningum, því að þeir gætu ekki nema með dýpstu smánartilfinningu og mesta kinnroða sagt sannleikann: „Við eigum engan ríkisspítala. Við lifum á bónbjörgum hjá Frökkum með sjúklinga okkar“. Þessi hlið málsins er því ekki eins þýðingarlítil eins og margur ætlar, því að álit okkar í augum annara þjóða fer áreiðanlega eftir því, á hvaða menningarstigi við stöndum. En sú þjóð, sem á engan ríkisspítala, getur tæplega talist standa á háu menningarstigi.

Jeg hefi orðið langorðari í þessu máli en jeg á vanda til, og er það af því, að það er svo mikilsvert, að það verður ekki skýrt í fáum orðum.