16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3073)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Forsætisráðherra (JM):

það er ekki af því, að núverandi stjórn eða fyrverandi stjórnir hafi ekki sjeð nauðsynina á því að byggja landsspítala og viðbótarbyggingu á Kleppi, að slíkt hefir ekki komist í framkvæmd enn, heldur af hinu, að ekki hefir þótt vel fært, fjárhagsins vegna, að byrja á þessu verki nú um hríð. En nú vona menn, að fram undan sjeu þeir tímar, að þetta verði bráðum hægt.

Það er rjett, að því hefir verið haldið fram af þingi og stjórn, að rjett væri að halda áfram með viðbótarbyggingu Kleppsspítalans. En jeg er aftur ekki viss um, að menn hafi í rauninni verið sammála um það, að Kleppur ætti að ganga á undan landsspítalanum, af því hann í sjálfu sjer væri nauðsynlegri. Heldur mun hitt hafa valdið, að byrjað var á honum og þar hefir legið efni talsvert og talið nauðsynlegt að koma honum undir þak. Og hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki, þá mun jeg stuðla að því, að reynt sje sem fyrst að koma þessu verki áfram á Kleppi. En eins og jeg sagði áðan, þá mun það hafa ruglað menn dálítið í þessum málum, að byrjað var á Kleppi. Jeg lít ekki svo á, að Kleppur sje ekki í sjálfu sjer nauðsynlegur, engu síður en landsspítalinn. En á þingi 1919 er lögð meiri áhersla á byggingu landsspítalans, því hann er fyrst talinn af þeim byggingum, sem stjórninni er heimilað að láta reisa.

En að hvorki stjórnin nje stjórn landsspítalasjóðsins hefir á þessu þingi farið fram á aðgerðir í þessu efni — það stendur í sambandi við það, að nú, og reyndar áður, hefir verið leitað samninga við stjórn landsspítalasjóðsins um það, að þegar yrði látið fje úr sjóðnum til byggingarinnar. Þessum samningi er nú sama sem lokið, svo innan fárra daga mun verða hægt að leggja málið fyrir þingið á þeim grundvelli. Mjer hefir fundist hv. Nd. hafa flýtt sjer nokkuð mikið að ráðstafa fje sjóðsins, áður en þessi samningur var gerður. En jeg vona sem sagt, að þetta geti lagast, svo allir megi vel við una. Það er von mín, að úr þessu verði hægt að byrja á byggingu landsspítalans mjög bráðlega.