16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Jónas Jónsson:

1) Jeg skal byrja á því að lýsa ánægju minni út af þáltill. þeirri, er hjer liggur fyrir. Þó er ekki víst, að hún sje nauðsynleg, ef málið væri tekið upp í fjárlög. Vil jeg beina því til hv. flm. (HSteins), hvort ekki væri rjett, að 1. liður till. væri tekinn upp í fjárlög fyrir árið 1926. Líka vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM), hvort hann telji ekki líkur til þess, ef þáltill. verður samþykt, að úr framkvæmd verði.

Hún er skynsamleg sú uppástunga hv. flm. (HSteins) að fullgera sem fyrst spítalann á Kleppi, því að líkur eru til þess, eftir því sem landlæknir og húsameistari ríkisins segja, að sje ein hæð bygð ofan á kjallarann þarna, þá muni það bæta úr brýnustu þörfinni um stund. Jeg skal hjer geta þess sem dæmis um þörfina, að mjer er símað frá Austurlandi og sagt, að þar sje ungur maður brjálaður, og er jeg beðinn að koma honum fyrir á Kleppi og sagt, að hann verði sendur hingað með næsta skipi. Læknirinn á Kleppi segir, að hælið sje alveg fult, en þó skuli hann reyna að taka við manninum, vegna þess, að hann telur miklar líkur til þess, að honum geti batnað. Er hörmulegt til þess að hugsa, að menn, er veikjast þannig skyndilega, skuli ekki geta fengið læknishjálp vegna þess, að fult er fyrir á Kleppi af ólæknandi sjúklingum. Og einmitt þess vegna er viðbót við Kleppsspítalann nauðsynleg, til þess að hægt sje að lækna sjúklinga, er hafa veikina á byrjunarstigi. Vil jeg því mæla hið besta með þessum lið tillögunnar og vona, að hv. fjvn. taki liðinn upp í fjárlög. En um leið vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM), hvort ekki mætti bæta við þáltill. atriðinu um Laugavatnið og aðstoð bæjarstjórnar um að leyfa endurgjaldslaust notkun vatns þaðan til upphitunar. Jeg á brtt. á þskj. 337 um þetta atriði, en hefi hugsað mjer að taka hana aftur, ekki vegna þess að jeg álíti, að hún sje ekki nauðsynleg, heldur vegna hins, að verið getur, að fleiru þurfi að breyta í þessu sambandi, formsins vegna.

Það muna allir, að ástæðan til þess, að feldur var partur af till. hv. 6 landsk. (IHB) 1923 um landsspítala, var aðeins sá, að mönnum óaði kostnaðurinn við spítalann. Þurfti því að breyta 2. lið, minka bygginguna og draga úr rekstrarkostnaði. En vegna þeirra bæjarbúa, er heyra á mál mitt, vil jeg segja það, að úti um land er mikil óánægja út af þessu og eins út af hinu, að Reykjavíkurbær skuli ekki leggja neitt sjerstaklega fram til spítalans. Er hætt við því, að Seyðisfjörður, Akureyri og fleiri staðir verði tregir á að leggja fram fje til hans, ef Reykjavík gerir ekki neitt. Nú horfir svo við, að Reykjavík hefir ekki verið krafin um nein fjárframlög, en jeg hygg, að almenningi úti um land finnist, að það sje hið minsta, er Reykjavík getur gert, að leggja til hita handa spítalanum. Borgarstjóri, sem sjálfur er verkfræðingur, hefir sagt, að vatnsmagn Lauganna sje 8–9 tonn á sólarhring, og er það meira en nóg til þess að hita bæði barnaskóla og landsspítala. Vil jeg því æskja þess, að hæstv. stjórn gefi yfirlýsingu um, hvers megi vænta í þessu efni, því að fyrir mörgum mönnum mun málið horfa þannig við, að þeir yrðu hikandi að greiða því atkvæði, ef Reykjavíkurbær ætlaði að bregðast undan þeirri kvöð, sem lögð mundi á hann með þessu.

Eins og jeg hefi sagt, þá tek jeg aftur brtt. mína á þskj. 337, og vona jeg, að hæstv. forsrh. (JM) tali um málið, því að áætlun Guðjóns Samúelssonar er bygð á því, að heita vatnið úr Laugunum fáist. En fáist það ekki, verður að breyta og hækka að stórum mun áætlun um byggingar- og rekstrarkostnað. Þess vegna vona jeg, að hæstv. stjórn láti ekki undir höfuð leggjast að fá ákveðin svör Reykjavíkurbæjar sem fyrst.

*) Ræðu þessa hefir þingmaðurinn ekki lesið yfir, og er hún því prentuð eftir hndr. innanþingsskrifarans. Þessa hefir þingmaðurinn óskað getið.