16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg hefi sannarlega ekki ástæðu til annars en vera ánægður yfir því, hversu hv. þdm. hafa tekið í þetta mál, og þakka því hinar góðu undirtektir, sem það hefir fengið. Jeg hefi heldur ekki ástæðu til að svara miklu að þessu sinni.

Mjer skildist á ræðu hæstv. forsrh. (JM), að honum þætti þessi þáltill. fullsnemma fram komin, vegna þess, að enn stæðu yfir samningar milli ríkisstjórnarinnar og landsspítalasjóðsstjórnarinnar.

Jeg get ekki verið sammála því, að þáltill. sje óþörf, þó að samningar þessir standi yfir. Það er líka svo áliðið þings, að um seinan getur orðið að bjarga málinu, ef t. d. samningar stranda, sem þó er ekki ástæða til að ætla. En takist samningarnir, þá er þáltill. aðeins til leiðbeiningar stjórninni og gengur miklu lengra heldur en fjárveiting sú, sem hv. Nd. setti inn í fjárlögin 1926. þáltill. segir, að halda eigi áfram byggingunni eftir 1926. Og þál., sem samþ. er í báðum deildum, er meiri styrkur stjórninni heldur en einföld fjárveiting í fjárlögum, sem aðeins er bundin við eitt ár. Eftir þál. getur stjórnin ekki látið undir höfuð leggjast að halda byggingunni áfram.

Hv. 5. landsk. (JJ) hefi jeg litlu að svara. Jeg er honum þakklátur fyrir að taka brtt. sína aftur til síðari umr. Hún gæti líka orðið málinu að falli, eins og hún er nú orðuð, enda er með öllu órannsakað, hversu takast mætti að leiða heita vatnið úr Laugunum til byggingarinnar.

Fleira er það ekki, sem jeg hefi ástæðu til að svara að þessu sinni.