22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Ingibjörg H. Bjarnason:

Háttv. 5. landsk. (JJ) hefir þegar sagt það flest um viðaukatill. okkar, sem jeg vildi sagt hafa, en þó vildi jeg bœta við nokkrum orðum.

Þegar rætt hefir verið um landsspítalann, hefir talið oft borist að rekstrarkostnaðinum við væntanlegan spítala, og hygg jeg, að allir muni vera sammála um, að síst sje vanþörf á að draga eitthvað úr honum. Það er því í mesta máta eðlilegt að taka til greina hvern þann lið, sem hægt er að spara eitthvað á, og upphitun spítalans verður æfinlega allstór liður. Hitt mun þá liggja í augum uppi, að upphitun með heitu vatni, t. d. úr Laugunum, muni. verða ódýrari, bæði í nútíð og framtíð. Þess vegna finst okkur flm. það miklu máli varða, að sú leið sje farin, sem till. okkar bendir á.

Till. er alls ekki borin fram af neinni tortrygni til bæjarstjórnar. Borgarstjóri hefir tekið vel í málið. En hinsvegar fanst okkur rjett að herða á því, að rannsókn þessi færi fram sem fyrst, því ella gæti einmitt töf í því efni orðið til þess, að eigi yrði byrjað á landsspítalanum í haust, eins og þó er gert ráð fyrir. Að vísu mun engin áætlun um rekstrarkostnað væntanlegs landsspítala vera fyrir hendi og þar af leiðandi heldur engin áætlun um upphitunarkostnað. En með því að athuga upphitunarkostnað þeirra spítala, sem hitaðir eru upp með kolum, má sjá, hversu hár sá liður er í rekstrarkostnaði spítalanna. Á Vífilsstöðum kostar hiti og ljós 25 þús. kr. á ári. Á Kleppi nemur þessi upphæð 12000 kr., og í holdsveikraspítalanum 13400 kr. Þetta eru háir útgjaldaliðir og vel þess vert að reyna að draga úr þeim við landsspítalann.

En fleira kemur til greina en fjárhagshliðin. Ef hitað er upp með heitu vatni, sparar það mikla vinnu. Og enn má geta þess, sem ekki er minst um vert, en það er heilbrigðishliðin á máli þessu. Þar sem ofnar eru er jafnan hætt við kolareyk og sóti, sem berst gegnum glugga inn í húsin, og er vitanlega síst til hollustu fyrir sjúklinga. Upphitun með vatni hefir því bæði sparnað og hollustu í för með sjer.

Jeg býst ekki við, að ástæða sje til að ætla, að Reykjavíkurbær verði ófús á að láta spítalanum heita vatnið í tje. Þegar spítalinn er upp kominn, verður það fyrst og fremst Reykjavík, sem hefir bæði beinan og óbeinan hagnað af honum. En þrátt fyrir það tel jeg till. okkar alls ekki óþarfa.

Úr því að jeg mintist á þann sparnað, sem við búumst við að leiði af heita vatninu, á rekstrarkostnaði spítalans, skal jeg geta þess, að einmitt væntanlegur rekstrarkostnaður hefir vaxið mörgum í augum. Oss, sem höfum unnið að fjársöfnun til landsspítalans, hefir verið þetta ljóst, og því var ákveðið 1916, er farið var að gefa minningargjafir til landsspítalans, að halda þessum sjóði alveg sjerstökum og láta, þegar stundir liðu, sjúklinga um alt land eiga jafnan rjett til hans. Þessi sjóður er að vísu ekki stór enn þá, en þó 89 þús. kr., og væntum vjer þess, að hann eigi enn eftir að vaxa mikið. Síðastliðið ár óx hann um 14 þús. kr.

Jeg hefi þá tekið fram það helsta, er jeg vildi segja um þessa till. okkar, og get jeg því látið staðar numið.