08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

126. mál, landhelgisgæsla fyrir Austurland

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get búist við, að háttv. flm. till. (IP) líti, eins og eðlilegt er, mest á nauðsyn landhelgisgæslunnar þar, sem hann þekkir best til. Jeg veit ekki með vissu, hvort það er nauðsynlegt að hafa fasta landhelgisgæslustöð á Seyðisfirði, en hitt álít jeg að sje alveg rjett hjá háttv. flm. (IP), að til þess sje full ástæða, að meiri athygli verði veitt landhelgisvörnum fyrir Austurlandi en gert hefir verið hingað til. Jeg er því fús að taka þetta mál til athugunar, og mun jeg reyna að gera ráðstafanir til, að þessu verði meiri gaumur gefinn en áður. Háttv. flm. fann að því í ræðu sinni, að mjer fanst, að „Þór“ hefir verið notaður á þann hátt, sem gert hefir verið. Það er ekki fullráðið enn, hvar það skip verður látið vera í sumar; það gæti líka verið um „Fyllu“ eða „Islands Falk“ að ræða, og það er ekki heldur loku fyrir það skotið, að annaðhvort þessara skipa eða þá „Þór“ gætu verið eitthvað á verði fyrir Austfjörðum; eins gætu þau ef til vill skotist við og við að norðan, eftir miðjan ágúst, austur fyrir landið til eftirlits. Mjer skal vera það ljúft að gera það sem í mínu valdi stendur til þess, að þessi varðskip öll verði látin vera þar á varðbergi, sem nauðsynlegt er og hægt verður að koma því við. Jeg get búist við, að þessi till. til þál. verði samþ., og mun jeg skilja hana svo, að ekki sje til þess ætlast, að stjórnin geri annað eða meira en nota sem best þau skip og varðbáta, sem hún ræður yfir eða hefir fengið til þessa. Jeg skil hv. flm. (IP) svo, sem er alveg rjett, að það er ekki kleift enn þá að bæta við nýju varðskipi í viðbót. Það er eitt atriði í ræðu hv. flm., sem jeg þarf að leiðrjetta. Hann talaði um sjerstakar landhelgisvarnir á Faxaflóa, en þœr eru og hafa engar verið til, nema hvað lítill bátur hefir verið látinn hafa eftirlit með nokkrum hluta af „Garðsjónum“. Annað hefir þar ekki verið gert, og verður ekki heldur hægt í ár að auka þær strandvarnir.

Jeg hefi svo ekki fleira að athuga í þessu máli, en jeg endurtek það, sem jeg hjet áðan, að það verður gert alt það, sem hægt er, til þess, að landhelgisgæslan verði betri en áður.