15.05.1925
Efri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

139. mál, verndun frægra sögustaða

Eggert Pálsson:

Jeg get lýst yfir því, að jeg mun greiða atkvæði með þáltill., en ekki með brtt. 553, sem mjer er nokkur þyrnir í augum, því hún fer fram á að fella niður part af þáltill., en er engin viðbót við hana, þó að brtt. sje orðuð svo sem væri hún aðeins viðaukatillaga.

Viðvíkjandi Hlíðarenda og Bergþórshvoli skal jeg taka það fram, vegna þess, hve vel jeg þekki til þar, að það væri sjerstök ástæða til að byggja þá bæi upp. Hjarðarholt og Reykholt munu vera sæmilega hýst, en Bergþórshvoll er í hinni mestu niðurníðslu nú sem stendur. En þangað er nú nýlega kominn ungur prestur, sem getur ekki sætt sig við annað en að bærinn verði bráðlega bygður upp að nýju. Enda hlýtur það að verða gert innan skamms, eins og á öðrum föllnum prestssetrum, með beinni og óbeinni aðstoð ríkisins, og er því tækifæri til að stuðla að því, að þar yrði bygt í viðeigandi stíl. Hvað Hlíðarenda snertir, þá horfir nokkuð öðruvísi við um hann en Bergþórshvol. Hann er sem sje ekki ríkiseign. En það væri þó innan handar, eins og nú stendur á þar, að fá jörðina keypta handa ríkinu fyrir mjög hæfilegt verð. Þar er, eins og allir geta skilið, hin mesta nauðsyn á, að ávalt sje vel húsað, því hjer kemur varla sá erlendur ferðamaður til Suðurlands, að ekki fari hann að Hlíðarenda, auk alls þess fjölda af innlendu fólki, sem fer þangað til að skoða staðinn. Ríður því næstum því eins mikið á að hressa þennan stað við sem sjálfan þingvöll. Og þetta er líka í sjálfu sjer auðvelt til framkvæmda, enda þótt Hlíðarendi sje nú „prívat“eign. Því eins og jeg tók fram, mun enginn þröskuldur verða á vegi þess, að ríkið eignist þá jörð fyrir sanngjamt verð, svo framarlega sem óskað væri eftir því.