13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

130. mál, útvegaskýrslur um kjör útvegsmanna

Ágúst Flygenring:

Jeg vil aðeins bæta því við ræðu hv. frsm. (JBald), að Fiskifjelagið vildi, þegar það fer að rannsaka þetta málefni, því að það verður vitanlega látið gera það, þá um leið rannsaka þau kjör, sem ýmsir útgerðarmenn verða að sæta á ýmsum stöðum hjer á landi, bæði fyrir það, sem þeir þurfa að fá keypt og lánað, svo sem hús, land til að leggja á afla og þvíuml., og að Fiskifjel. gleymi þá ekki að rannsaka líka, hvernig þeir eru meðhöndlaðir af viðkomandi bæjarstjórnum eða hreppsnefndum; því að það er áreiðanlega versta meðferðin, sem þeir þar fá; engir okrarar geta jafnast á við þær stofnanir. Ásælni þessara hreppsnefnda og bæjarstjórna gengur oft og tíðum mjög langt.