19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

4. mál, fjáraukalög 1924

Einar Árnason:

Jeg vil leyfa mjer í sambandi við þetta frv. að beina fyrirspurn dálítilli til hæstv. stjórnar, þótt ekki snerti hún neinn sjerstakan lið frv.

Í fjáraukalögum fyrir árið 1923 voru veittar 30 þús. kr. til byggingar sjóvarnargarðs á Siglufirði. Jeg veit ekki, hvort alt þetta fje hefir komið til útborgunar, en það skilyrði fylgdi, að Siglufjarðarkaupstaður legði fram jafnmikla upphæð og ríkið, og tæki þar að auki að sjer alt viðhald garðsins. Sumarið 1923 var svo byrjað á garðinum og honum komið allmikið áleiðis, en fjárveitingin hrökk ekki til þess að hann yrði fullgerður, svo að enn er nokkur kafli ógerður. Þessi sjóvarnargarður er mjög nauðsynlegur, því að það hefir sýnt sig, að Eyrin og byggingar þær, sem á henni standa, eru í hættu af sjávargangi. Þannig kom það fyrir bæði í fyrravetur og eins nú í vetur, að brim og flóð gerði, svo að sjór gróf sig gegnum malarkambinn og fylti kjallara og jafnvel íbúðir í kaupstaðnum. Gróf sjórinn ósa í gegnum kambinn, því að Eyrin sjálf er mun lægri, og er hætt við meiri usla eftir því sem lengri tími líður og garðurinn er ekki lengdur. Í vetur gerði þarna einn hinn mesta sjávargang, sem komið hefir, og olli hann miklum skemdum, en garðurinn stóð óhaggaður, og bendir það til þess, að hann sje vel gerður og traustur. Aftur á móti sópaði brimið burtu ýmsum bryggjum, sem þó voru sumar búnar að standa þarna rótlausar mörg ár.

Nú vil jeg spyrja stjórnina, hvort hún telji ekki nauðsynlegt að framlengja garðinn til þess að vernda Eyrina, sem er ríkiseign, og hvort hún telji sig geta gert það án sjerstakrar heimildar fjárveitingarvaldsins. Jeg fyrir mitt leyti álít það sjálfsagt, að stjórnin taki til sinna ráða, þegar um það er að ræða að vernda eignir ríkissjóðs fyrir yfirvofandi skemdum.

Í þessu sambandi vil jeg minna á 5. lið í þessu frv., sem er fjárveiting til aðgerðar húsum bændaskólans á Hvanneyri. Þó að sú aðgerð hafi kostað allmikið fje, þá tel jeg, að hæstv. stjórn hafi gert rjett í því að láta vinna hana án þess að leita fyrst heimildar hjá fjárveitingarvaldinu.

Nú óska jeg að fá svar við þessari spurningu, hvað hæstv. stjórn hefir í hyggju í þessu máli, og hvort hún telur nauðsyn að fá heimild þingsins eða sjer sjer fært að halda áfram verkinu án þess, með því að veita til þess fje í fjáraukalögum.