08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Flm. (Jakob Möller):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þetta mál. Háttv. deild er það kunnugt, að fyrir Ed. hefir verið lagt frv. um Landsbanka Íslands, bæði á síðasta þingi og aftur nú, þess efnis að fela honum seðlaútgáfuna. En frv. var vísað til stjórnarinnar á síðasta þingi, til frekari undirbúnings, og það virðist nú á ný munu stranda í Ed.; að minsta kosti er bersýnilegt, að það getur ekki náð fram að ganga á þessu þingi. En þar sem þetta mál vissulega er mjög mikilvægt og varðar miklu í framtíðinni, að því sje vel fyrir komið, þá virðist það ekki nema sjálfsagt, að það sje athugað gaumgæfilegar en venja er um flest önnur þingmál. Fyrir því höfum við borið fram þáltill. um að skipa milliþinganefnd til þess að athuga það til næsta þings. Af því leiða engar tafir fyrir málið sjálft. En milliþinganefnd ætti að geta haft svo mikið að segja og geta undirbúið málið þannig til næsta þings, að samkomulag verði betra um afgreiðslu málsins en ella. Því eins og málinu er nú komið, þá er eiginlega ekki hægt að gera sjer miklar vonir um betra samkomulag á næsta þingi, ef ekki verður aðhafst í millitíð.

Jeg ætla ekki að fara neitt út í málið sjálft, þ. e. a. s. hvaða aðferð eigi helst að taka upp í þessu efni. Það er í greinargerð með till. vísað til nál. meiri hl. fjhn. í Ed., og þykist jeg vita, að allir hv. þdm. hafi lesið það gaumgæfilega, og skal jeg þar sjerstaklega benda á sjerálit hv. 2. þm. G.-K. (BK), sem er allítarlegt og ræður eindregið frá því að fara þá leið, sem farin er í frv. um Landsbankann. Hinsvegar verð jeg að segja það, að sjerfræðingsumsögnin, sem hefir verið látin fylgja þessu máli til þingsins, hún er á þá leið, að mjer virðist, að þar sje ekkert sjerlega sannfærandi um það, að það sje ráðlegast að fara þá leið, sem þar er lagt til.

Það er skýrt tekið fram, að ætlunarverk þessarar nefndar er fyrst og fremst að íhuga og gera till. um, hvernig seðlaútgáfunni verði best fyrir komið; nefndin verður náttúrlega að fá upplýsingar utan að frá, því það er ekki þeim sjerfræðingum í þessum efnum til að dreifa hjer á landi, að það sje í sjálfu sjer á því byggjandi. En það verður að ætlast til þess, að nefndin leiti sjer aðstoðar þar sem hana er besta hægt að fá, og álits fræðimanna í öðrum löndum, fleiri en eins og fleiri en tveggja, og jafnvel í fleiri löndum en einu. Það má gera ráð fyrir, að því fylgi nokkur kostnaður, og er ómögulegt að gera áætlun um, hvað hann muni verða mikill; en jeg hygg, að þegar á það er litið, hve afskaplega þýðingarmikið þetta mál er, þá geti menn fallist á, að ekki sje rjett að horfa í það, þótt þetta kosti nokkurt fje, ef það miðar til þess að fá heppilegri lausn á þessu máli en ella yrði fengin. Að öðru leyti er nefndinni ætlað að íhuga bankalöggjöf landsins alment.

Eins og kunnugt er, eru hjer til aðeins tveir bankar, sem hvorum er stjórnað eftir sínum lögum, með sínum sjerrjettindum. En það er ástæða til að íhuga, hvort ekki væri rjett að setja almenn bankalög þar að auki, og þá sniðna eftir bankalögum annara þjóða. En eins og kunnugt er, hefir þeim verið breytt allmjög víða í löndum einmitt nú síðustu árin, Er ekki ósennilegt, að heppilegt væri fyrir okkur að taka eitthvað eftir þeim þjóðum, sem lengra eru komnar og hafa meiri reynslu í þessum efnum, ef með því mætti takast að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, þó að slíkar varúðarlagasetningar hafi víða í öðrum löndum ekki verið settar fyr en þegar ósköpin voru skeð.

Með tilliti til þess, að áliðið er fundartímans og fjárlögin eru eftir á dagskrá, skal jeg ekki orðlengja frekar, enda mega umræður eins vel bíða til síðari umr.