11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Jakob Möller:

Manni þykir það að vísu eðlilegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) byggist við því, að við flm. myndum gera nokkra frekari grein fyrir þessari till. heldur en við fyrri umr. Það var, eins og kunnugt er, talað um. Það þá að fresta öllum frekari umræðum til þessarar umr., en jeg verð að afsaka mig með því, að jeg er ekki vel fyrirkallaður nú. Jeg hefi verið lasinn undanfarna daga og er enn með nokkurn hita. Annars virðist mjer, eftir ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), ekki þörf á miklum málalengingum um þetta mál. Mjer finst jeg geta fyrir hönd flm. Þakkað honum fyrir undirtektirnar. Það er, að því er mjer virðist, ekki ágreiningur að öðru leyti en því, að hæstv. ráðherra (JÞ) telur ólíklegt, að slíkur undirbúningur málsins, sem tillagan fer fram á, geti haft þá þýðingu, sem gert er ráð fyrir, og að um endurskoðun eða setning almennrar bankalöggjafar geti varla verið að ræða, meðan svo er ástatt sem nú er hjer, að tveir bankar starfa eftir sínum ákveðnu lögum og með ákveðnum sjerrjettindum. Jeg drap einmitt á það í minni stuttu ræðu á dögunum, að þannig væri ástatt og því minni ástæða til að framkvæma slíka endurskoðun. Þó held jeg, að við athugun á bankalöggjöf annara landa mætti finna eitthvað, sem hægt væri að taka hjer til athugunar og eftirbreytni nú þegar. Jeg skal þó játa, að jeg er þessu ekki svo kunnugur, enda eru víða slíkar breytingar á bankalöggjöfinni aðeins í undirbúningi, en hinsvegar virðist ekki nema rjett, úr því að þessa nefnd á að skipa, að hún tæki þá einnig þetta verkefni með, ef ástæða þætti til. Hitt get jeg fullkomlega fallist á, að það verður einnig að vera í fullu samráði við stjórnina.

Hæstv. ráðherra (JÞ) sagði, sem vita mátti, að hann teldi það fyrirkomulag seðlaútgáfunnar, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem liggur fyrir hv. Ed., fullforsvaranlegt. Jeg skal á engan hátt mæla á móti því, en vísa til þess, sem jeg sagði á dögunum. En úr því að svo er komið, að þetta frv. nær ekki fram að ganga að þessu sinni, enda allmikið um það deilt, þá virðist okkur flm. ljettara að hafa þennan undirbúning og vænlegra til samkomulags á næsta þingi. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, þar sem gott samkomulag virðist ætla að verða um málið. Jeg er fyllilega sammála hæstv. ráðherra (JÞ) um það, að það verði fyrst og fremst þessi tvö verkefni, sem komi til að liggja fyrir þessari milliþinganefnd, seðlaútgáfan og svo fyrirkomulag fasteignaveðslána, enda hefi jeg einnig drepið á það, að mjer þætti æskilegt, að það yrði athugað, hvort ekki væri einmitt hugsanlegt, að koma mætti seðlaútgáfunni í samband við veðlánastofnun ríkisins. Jeg hefi aldrei fullyrt neitt um það, að það væri sjálfsagt, eða látið svo sem þetta væri þrauthugsað. Það er aðeins uppástunga, sem jeg hefi gert, en tel mig ekki hafa haft ástæður til að rannsaka til hlítar. En jeg ætlast til, að þessi nefnd taki það til athugunar.