14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Jóhann Jósefsson:

Eins og kunnugt er, þá var jeg sá eini af þeim 5 nefndarmönnum þessarar deildar, sem skipa fjhn., sem lagði áherslu á það, að málinu um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar yrði lokið á þessu þingi, og jeg taldi það vera viðunanlega lausn, sem var fólgin í því frv. um Landsbanka, sem stjórnin lagði fram, með þeim brtt., sem jeg var byrjaður á að bera fram, og bjóst við að mundu koma fram á þinginu síðar meir. Jeg tók það fram við 2. umr. málsins, að jeg geymdi mjer að taka afstöðu til þess, sem gert yrði, þar til jeg sæi, hvað úr Landsbankafrv. yrði, hvort það gengi fram eða ekki. Það er nú sýnilegt, að þetta mál gengur ekki fram á þinginu, og þá get jeg fyrir mitt leyti fallist á, að tímabilið á milli þinga sje notað til þess að koma seðlaútgáfunni í sem haganlegast horf, en vil einungis láta þá von í ljós, að sú nefnd, sem skipuð verður, geti lagt fram till. sínar fyrir hæstv. stjórn svo tímanlega, að það þurfi ekki að dragast lengur en til næsta þings, að gengið verði endanlega frá fyrirkomulagi seðlaútgáfunnar. Með þessari skilgreiningu get jeg aðhylst það, að nefnd sje kosin í málið á milli þinga.