11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

131. mál, steinolíuverslunin

Jón Baldvinsson:

Mig furðaði stórkostlega, er jeg sá, að Íhaldsflokkurinn bar fram þessa till. til þál. á þskj. 493. Mig furðaði það, að sá flokkur bæri fram till. um að láta halda áfram ríkisverslun í nokkurri mynd, jafnvel þótt í frjálsri samkepni væri, og ber að skoða þetta sem afturhvarf frá fyrri stefnu þessara manna og einskonar iðrun og yfirbót fyrir þær kenningar, sem sá flokkur hefir haldið fram til þessa. Þeir hafa til þessa verið háværir mjög um ókosti allrar ríkisverslunar, talið hana brask eitt, sem ekki væri viðlit að líða að ætti sjer stað, og hafa viljað forða landinu frá þeim háska, sem af verslunarrekstri þess stafaði. Það er því allgleðilegt að sjá þó merki þess, að jafnvel Íhaldsflokkurinn geti iðrast synda sinna.

Hv. flutningsmenn þessarar till. hafa nú gert grein fyrir sinni skoðun á málinu. Þeir hafa lýst rekstri Landsverslunarinnar og hafa talið hana í ýmsu viðsjárvert fyrirtæki, og því virðist það ekki vera sem best í samræmi við þetta álit þeirra á Landsversluninni, er þeir gera ráð fyrir, að henni verði samt haldið áfram. Að vísu játa þeir, að verslun D. D. P. A. hafi verið óhagkvæm landsmönnum og mjög harðdræg í öllum viðskiftum, og viðurkenna þeir með því stofnun Landsverslunarinnar. En þó virðist, sem þeir nú hafi gleymt einokun D. D. P. A., sem hjer var komin á áður en Landsverslunin var stofnuð. Jeg skal ekki rengja hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um, að hann hafi ánægju af því að lesa umr. um þetta mál í þingtíðundunum frá fyrri þingum, og ef hann athugar það, sem áður hefir verið sagt á þingi um danska steinolíufjelagið, þá ætti hann ekki að undrast það neitt, þótt nú kæmi hljóð úr horni, þegar á að fara að hleypa því aftur inn í landið. Og fyrir því er hv. þm. (Sigurj J) og flokksmenn hans að berjast.

Hv. flm. (SigurjJ) ákærði forstjóra Landsverslunarinnar fyrir að hafa farið lengra í álagningu á steinolíu en heimilt er lögum samkvæmt.

Þegar slík ákæra er borin fram hjer í þingsalnum, þá finst mjer hæstv. atvrh. (MG) eiga að standa upp fyrstur manna til andsvara og verja forstjóra einkasölunnar og sjálfan sig gegn Öllum slíkum aðdróttunum. Það er ekki svo smávægileg ákæra að segja, að opinberir starfsmenn brjóti freklega í bág við gildandi landslög og jafnframt gegn hagsmunum alls almennings. Og það má undarlegt heita, ef hæstv. stjórn tekur slíkri ákæru með jafnaðargeði, þar sem hæstv. atvrh. (MG) ber ábyrgð á rekstri Landsverslunarinnar, með því að hann á að hafa umsjón með versluninni. Jeg efast ekki heldur um, að hæstv. atvrh. (MG) er kunnugt um rekstur steinolíueinkasölunnar, þó að honum finnist nú einhvern veginn best viðeigandi að halda sig utan veggja þingsalsins, í stað þess að verja einkasöluna gegn ómaklegum árásum.

Hv. flm. (Sigurj J) játaði þó, að steinolíueinkasalan hafi fullnægt einu atriði: að hafa jafnan nægar steinolíubirgðir fyrirliggjandi. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði, og þar sem einkasölunni hefir tekist að uppfylla þær kröfur, sem gerðar voni til hennar í þessu efni, má vænta þess, að henni hafi einnig tekist vel á öðrum sviðum.

Þess er skemst að minnast, að þegar dansk-íslenska fjelagið hafði steinolíuverslunina með höndum, vantaði olíu stundum tímunum saman. Útveginn vantaði olíu, vegna þess að fjelagið, sem var því nær eitt um hituna, brást skyldu sinni, að birgja landið með olíu. Það er því meira en lítill kostur, að Landsverslunin hefir ávalt gætt þessarar skyldu sinnar. Því dýrir eru þeir dagar, þegar tugir og jafnvel hundruð vjelbáta komast ekki á sjó vegna olíuleysis. Ætti hv. flm. (SigurjJ), sem hefir svo gaman af reikningsdæmum, að fræða okkur eitthvað um þessa hlið málsins. Þó gat hv. flm. ekki gengið fram hjá þessu atriði, án þess að finna að því, að Landsverslunin hafi oft teflt á tæpasta vaðið með að birgja landið að olíu.

Jeg er nú engan veginn gagnkunnugur rekstri Landsverslunarinnar, en þó veit jeg, að hún hefir oft gert skyndilegar ráðstafanir til að fá olíu flutta inn, þegar skip hafa brugðist, sem áður var treyst á. Og það stendur ómótmælt, að einkasölunni hafi að þessu leyti algerlega tekist að fullnægja þeim kröfum, sem til hennar voru gerðar í upphafi og sjálfsagðar voru. Mega því allir vel við una.

Þegar fluttir eru í ræðu miklir og margvíslegir útreikningar, er oft erfitt að festa hendur á þeim til samanburðar. Hv. flm. (SigurjJ) hefir nú gengið á þetta lagið. En til þess að eitthvað sje leggjandi upp úr slíkum útreikningum þarf að bera saman verð hjer og erlendis á ýmsum tímum. Er sennilegt, að hv. flm. (SigurjJ) byggi útreikninga sína á erlendu verði, sem engin olía fengist fyrir, ef til kæmi, en slíka reikninga er harla lítið að marka.

Hið eina, sem gæti verið að marka, er, ef hægt væri að fá ódýrari olíu en Landsverslunin fær, og þá á ekki að miða við verð, sem einstakur útvegsmaður getur fengið olíu fyrir á einhverri aðalhöfn landsins, heldur verður líka að taka tillit til hinna, sem búa í afskektari verstöðvum og verða því að geyma olíuna lengur. Það er engan veginn rjett að leggja Reykjavíkurverð til grundvallar við samanburðinn. Við það verður að miða, að sá, sem verslar, birgi alt landið með olíu og selji hana alstaðar jafnvægu verði eins og Landsverslunin gerir. Þá fyrst fæst rjettur samanburður.

En meðalverð Landsverslunarinnar er einhver allra stærsti kostur þeirrar verslunar.

Hv. flm. (SigurjJ) hefir verið hjer með margskonar útreikninga. Fyrir ekki ýkjalöngu var hann einnig á ferðinni með svipaða útreikninga. Nú skyldi maður ætla, að þessum útreikningum bæri saman, en svo er þó ekki. Það vill svo undarlega til, að verðið, sem hann gaf upp í febr., er ekki hið sama sem hann nú gefur upp, en þó er tíminn sá sami, sem tilboðin eiga að hafa verið gerð á.

Þetta vekur ósjálfrátt þann grun, að eitthvað kunni fleira að vera gruggugt við tölur hv. flm. 1 einu Reykjavíkurblaðanna hefi jeg sjeð, að hann gerði ráð fyrir 8 kr. flutningsgjaldi á tunnu, en nú hefir þessi kostnaður hækkað um 20%, skv. þeim útreikningum, sem hann hefir gert í dag, enda er munurinn á verði Landsverslunar og verðinu skv. tilboðum í dæmum hv. flm. ekki eins mikill nú og hann var í febr. síðastl. Er og ekki ósennilegt, að sá verðmunur hverfi alveg, ef hv. flm. fær að átta sig betur. Ef hann t. d. tæki þetta olíutilboð upp í þriðja sinni hjer á þingi, þá yrði það líklega komið jafnhátt og verð Landsverslunar, og það myndi líka sönnu næst. Nei, það er hætt við, að tölur hv. þm. (SigurjJ) sjeu fengnar úr þessum venjulegu tylliboðum, sem voru svo þekt hjer á stríðsárunum, meðan Landsverslunin starfaði í samkepni við kaupmenn. Þá voru þráfaldlega lögð fram brjef og önnur skilríki, sem áttu að sýna, að hægt væri að fá mun betri kaup á ýmsum vörum en Landsverslunin gerði. En þegar á átti að herða, þá var landsverslunarverðið ávalt lægra.

T. d. minnist jeg þess, að á þingi 1921 var rætt um verðlag Landsverslunar á kornvörum, og var þá lagt fram tilboð, sem sagt var að væri miklum mun lægra en söluverð Landsverslunar. En þegar tilboðið var krufið til mergjar í öllum atriðum, þá kom t. d. í ljós, að verð þess var miðað við ca. 20% ljettari poka en Landsverslun seldi og fleira þessu líkt. Jeg fyrir mitt leyti legg því ekki mikið upp úr útreikningum hv. flm. (SigurjJ)

þá talaði hv. flm. um rekstrarkostnað Landsverslunar, sem honum þótti of mikill. Las hann upp nokkra pósta og komst að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn væri ca. kr. 9,00 á fat. Ef þessi kostnaðar Landsverslunar er langtum of mikill, hvað mætti þá segja um ómakslaun Steinolíufjelagsins á sínum tíma? Hv. flm. (SigurjJ) veit mjög vel, að meðan Steinolíufjelagið flutti mestalla olíuna inn, notaði það aðstöðu sína til að hækka verðið í hvert skifti sem aðrir áttu ekki olíu. Við munum allir viðskifti þess við Fiskifjelagið, sem lauk á þann veg, að Fiskifjelagið gafst upp á olíuversluninni; en þá notaði Steinolíufjelagið tækifærið og skattlagði landsmenn, til þess að vinna það upp aftur, sem það kostaði að útiloka verslun Fiskifjelagsins.

þó hv. flm. þyki kostnaður Landsversl. nokkuð mikill, þá má hann vera alveg viss um, að Steinolíufjel.,eða hver annar sem er, gerir það ekki fyrir hreint ekki neitt að sjá landsmönnum fyrir olíu.

Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð úr ræðu, sem hv. þm. N.-Þ. (BSv) hjelt fram á þingi árið 1917 og sýnir, hversu miklar líkur eru til þess, að þetta góðgerðafjelag útvegi landsmönnum olíu fyrir alls enga þóknun: „öllum er kunnugt hvert ólag hefir verið á þessari verslun. Vjer höfum lent í einokunarklóm, og fjelagið, sem fyrir nokkru tók að sjer steinolíuverslunina og kallar sig „íslenskt steinolíufjelag“, er eitthvert hið illræmdasta fjelag, sem þekst hefir hjer undanfarin ár, enda er ekki góðs af von, þar sem fjelag þetta er hamskiftingur af „D. D. P. A.“ og afspringur af rót hins alræmda einokunarfjelags Rockefellers. Fjelagið setur mönnum afarkosti, skuldbindur menn með skriflegum skuldbindingum til þess að versla ekki annarsstaðar, án þess þó að setja nokkra tryggingu fyrir því að geta haft næga steinolíu, bregst meira að segja algerlega að birgja landið að olíu þegar allra verst gegnir; fjelagið lætur sjer nægja að auglýsa, að það eigi von á skipum þá og þegar, og varar menn við að kaupa steinolíu annarsstaðar, en oft hafa þessi skip alls ekki komið og jafnvel sannast, að sumar slíkar auglýsingar voru blekkingar einar, til þess að aftra framkvæmdum annara um útvegun vörunnar“.

Þetta og margt fleira í ræðu hv. þm. (BSv) og fleiri manna á þingi, bæði fyr og síðar, bendir á, að fjelagið hafi ekki verið neitt góðgerðafjelag. En hv. flm. (SigurjJ) virtist halda, að olíuverslunin verði svo góð, þegar hún er aftur komin í hendur þessa fjelags, að það annist verslunina fyrir ekki neitt, og þess vegna fárast hann svo mjög yfir rekstrarkostnaði Landsverslunarinnar.

En jeg er alveg viss um, að verslunarkostnaður verður ekki minni en hjá Landsverslun, hver sem tekur að sjer rekstur steinolíuverslunar, og hann var áreiðanlega meiri hjá Steinolíufjelaginu gamla, sem m. a. stafaði af því, að forstjóri þess mun hafa haft nokkurn veginn jafnmikil laun og 4–5 best launuðu starfsmenn Landsverslunarinnar hafa nú samtals.

Verði þessi þáltill., sem hjer liggur fyrir, samþ., er sennilegast, að gamla Steinolíufjelagið (H. f. S.), eða einhver angi þess, nái hjer fótfestu aftur. Líklegast verður það látið heita svo, að íslenskt fjelag verði sett á laggirnar. Lengi vel var talið, að stórútgerðarmenn, sem vissu ekki, hvað þeir ættu að gera við gróða síðastl. árs, hafi stofnað ,hring‘ til þess að reka steinolíuverslun, eftir að Landsversluninni væri komið fyrir kattarnef.

Úr því að Landsverslunin má nú hjara samkv. till., er sennilegast, að þessi hringstofnun sje nú úr sögunni, en í þess stað eigi gamla Steinolíufjelagið aftur að taka við taumunum.

Auðvitað þarf enginn að vera hræddur um Landsverslun í samkepni við kaupmenn. Sú var tíðin, að þessir aðiljar áttust við, og þá kveinuðu kaupmenn yfir því, að þeir gætu ekki staðist samkepnina, vegna þess, að Landsverslunin gæti altaf fengið betri innkaup.

Hinar hörðu árásir kaupmanna og mörgu tilraunir þeirra til þess að fá Landsverslunina lagða niður sýndu best, að þeir voru að láta bugast í samkepninni. Þeir fengu ekki staðist hina marglofuðu frjálsu samkepni, sem ekki var heldur von.

En með steinolíuverslunina er öðru máli að gegna. Ef ríkið stofnsetur samkepnisverslun með steinolíu, eins og þáltill. gerir ráð fyrir, þá er hugsandi, að einhver ameríski steinolíuhringurinn, t. d. Rockefellers-hringurinn, vilji verða hjer ráðandi aftur og telji ómaksins vert að kosta nokkrum hundruðum þúsunda til að eyðileggja ríkisverslunina, með því að selja olíu eitt ár eða svo langt undir verði og neyða ríkisverslunina til að hætta.

Hringurinn hefði síðan einhver ráð til þess að ná slíkum kostnaði inn aftur, með því að leggja þess meira á olíuna eftirleiðis, og víst er um það, að margir mundu vilja láta Landsverslun hætta, heldur en að eiga á hættu að tapa stórfje í slíkri samkepni við olíuhringana. Ekki vegna þess, að verðlag Landsverslunar myndi verða í raun og veru of hátt, heldur af því að hætt er við, að sama aðferðin yrði viðhöfð og notuð var við Fiskifjelagið, sællar minningar. Og þá er ver farið en heima setið.

Þá er hætt við, að andstæðingar landsverslunar vildu afnema ríkisverslunina á þeim grundvelli, að hún gæti ekki staðist í „frjálsri samkepni“.

Það hefir sýnt sig, að innlend og ekki síður erlend stórgróðafjelög hafa jafnan átt meira en lítil ítök í þingmönnum þessarar þjóðar, og þau eru ekkert smávaxin, fríðindin, sem slíkum fjelögum hafa oft verið veitt. Við vitum t. d., hvernig hvert þingið á fætur öðru hefir látið undan kröfum Íslandsbanka og veitt honum öll þau fríðindi, sem hann hefir farið fram á, árum saman.

Jeg óttast því, að ríkisverslunin verði lögð niður áður langt um líður, enda þótt þáltill. verði samþ. óbreytt, og einhverjar ástæður fundnar til þess að láta ríkið ekki keppa við fjelagið, sem hv. þm. N.-þ. (BSv) lýsti svo rjettilega árið 1917, eða einhver önnur slík fjelög.

Í rauninni er öll andstaðan gegn Landsverslun til þess gerð að gefa erlendum stórgróðahringum kost á að festa hjer rætur aftur. En þegar hv. flm. þáltill. vilja láta Landsverslun starfa áfram í „frjálsri samkepni“ fyrst um sinn, þá stafar það af því, að þeir vita, hversu vinsæl stofnun steinolíueinkasalan er meðal alls þorra átvegsmanna landsins. Að vísu eru nokkrir á móti henni af „princip“-ástæðum eða vegna pólitískrar andstöðu við forstjóra einkasölunnar, en yfirleitt eru menn á einu máli um hið ágæta gagn, sem einkasalan hefir unnið þjóðinni. Enda voru menn orðnir svo aðþrengdir af völdum Steinolíufjelagsins, að mönnum er ekki enn úr minni liðið, hvernig það fjefletti alla landsmenn.

Hv. flm. (SigurjJ) fullyrti, að rýmun steinolíu væri ekki 15%, eins og Landsverslunin segir, heldur aðeins 3–4%. Mjer þykir eðlilegra, að hv. þingmenn trúi betur Landsversluninni, sem hefir þó farið með steinolíuverslun um margra ára skeið og ætti því að þekkja nokkurn veginn, hvað hæfilegt er að gera fyrir rýmun. Og ekki mun rýrnunin hafa verið minni hjá Steinolíufjelaginu gamla. Þegar það geymdi olíubirgðir í Viðey, átti jeg tal við menn, sem unnu þar. Sögðu þeir mjer, að fjöldi af steinolíutunnum væru ekki nema hálfar eftir að hafa legið þar stuttan tíma, og sumar jafnvel tómar. Þegar svona gengur, er rýrnunin ekki lengi að ná nokkurri upphæð. Jeg tel því vafalaust, að Landsverslunin hafi rjett fyrir sjer hvað það atriði snertir, en flutningsmaður rangt.

Jeg mun nú ljúka máli mínu. Jeg skal engu spá um afdrif þessa máls. En jeg tel eðlilegt, eftir þeirri dýrkeyptu reynslu, er vjer höfum haft af steinolíuhringnum, að Landsverslun verði látin halda áfram, og jeg veit, að mikill meiri hl. útgerðarmanna í landinu er þar á sama máli og jeg.