11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

131. mál, steinolíuverslunin

Jónas Jónsson:

*) Af því að þess má vænta, að töluverðar umræður verði enn um þetta mál, mun jeg geyma ýmislegt af því, sem jeg vildi sagt hafa. Vildi jeg taka hjer til meðferðar fáein atriði úr ræðu hv. flm. (SigurjJ).

Hann lagði áherslu á, að rangt væri, að Landsverslunin legði á fyrir skuldum á ári hverju. Virtist hann vilja láta skuldatap lenda á eldri gróða Landsverslunar. Að vísu má segja, að sama sje, úr hvorum vasanum tekið er. En að fylgja hjer skoðun hv. flm. væri að brjóta þær reglur, sem alment er fylgt í verslunarrekstri, að reyna að láta verslunina bera tap og gróða hvers árs fyrir sig. Trúi jeg því ekki, að hv. flm., sem er kaupm., skilji það ekki, að lánsverslun er áhættusamari en önnur verslun, og verður því að leggja meira á. Þegar fyrsta kaupfjelagið hjer á landi tók til starfa, var svo ákveðið, að leggja skyldi 2% á vörur út í hönd, en 6% á þær, sem lánaðar vora. Þetta virðist vera fullkomlega sanngjarnt og eðlilegt. Þetta gerði Steinolíufjelagið líka og víst svikalaust.

Steinolíuverslunin verður yfirleitt að lána vörur sínar, og hverjir eiga að bera áhættuna af þeim lánum nema notendurnir sjálfir? Alt annað væri barnaskapur.

Hv. flm. (SigurjJ) játaði það, að aldrei hefði orðið þurð á olíu hjá Landsverslun, en hinsvegar hefðu birgðir oft verið litlar. Virðist þetta vera lítilfjörleg mótbára, úr því að ekki hefir hlekst á fyrir þá sök. Lá og beinast við að snúa sjer til atvrh. um þetta atriði, því að segja má, að slíkt sje á ábyrgð stjórnarinnar.

Jeg ætla ekki að fara lengra út í að dæma hv. flm. að sinni. Það hefir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) þegar gert allrækilega, og mun verða betur gert síðar. En þó vil jeg benda á eitt enn, og það er hinar ákaflegu veiku heimildir, sem hann byggir á. Hann ætti að hugsa sjer, að hann væri dómari og ætti að dæma eftir þeim. Hvernig færi hann eða eigandi bátsins að sanna, að hjer væri um sömu olíuna að ræða? (SigurjJ: En ef nafn er á olíunni?) Jeg vil benda hv. þm. á það, sem mörgum er kunnugt, að síðan verðtollurinn komst hjer á, hafa vaðið hjer uppi falskir reikningar. Einn maður t. d. gaf upp vörur fyrir 2000 kr. Hann flutti inn vörur fyrir 20000 kr. Og þetta er ekkert einsdæmi. Landsverslunin er dæmd út frá almennum hagskýrslum, og eftir slíku ætti að sanna júridiskt. Jeg talaði eitt sinn við vjelbátseiganda, er sagði, að olían hjer væri helmingi dýrari en í Færeyjum. Jeg bað hann að sanna það. Hann sagðist hafa heyrt það. Svo mun oftast vera varið sönnunum.

Jeg mun þá víkja nokkrum orðum að málinu alment. Einhver reyndasti maður Íhaldsflokksins, hv. 1. þm. Rang. (EP), sagði 1912, að Steinolíufjelagið (D. D. P. A.) legði 145–200% á olíu sína. Jón heit. Ólafsson tók þó enn dýpra í árinni. Nokkru síðar setti fjelag þetta upp hring hjer á landi í sambandi við nokkra Íslendinga. Jeg mun síðar segja, hvað Jón heit. Ólafsson kallaði þennan hring, enda þótt það mundi ekki hafa þótt þinglegt í Ed.

Aðferð þessara okurfjelaga er sú, að stofna leppfjelög sem víðast um lönd. Er það alsiða í Ameríku, að þau gefi þar hluti ritstjórum, þingmönnum og jafnvel ráðherrum. Kenna leppfjelögin sig svo við land það, er þau hreiðra um sig í, svo að nöfn þeirra láti betur í eyrum.

Eins og áður er sagt, skaut hjer upp einu Jeppfjelaginu af slíku tæi. Hjelt það áfram rekstri sínum í sama húsi og móðurhringurinn og undir sama forstjóra. Hændi það drjúgum að sjer efnaða kaupmenn og áhugasama málaflutningsmenn.

Jeg man eftir einum lækni, fremur efnalitlum, sem boðinn var hlutur í fjelaginu. Vitanlega var honum þetta freistni, og hugsað gat hann sem svo, að þægi hann ekki bitann, mundu aðrir gera það. En hann sá, að hjer var verið að smeygja okurfjötrum á ættjörðina, og að því verki vildi hann ekki vera. Siðferðisþrek hans vann sigur, og hann kaus heldur að missa af olíugróðanum en svíkja samvisku sína.

En nógir aðrir urðu til að þiggja bitana, eins og hann hafði vitað. Hygg jeg, að hægt sje að útvega fleiri vitnisburði en þeirra hv. þm. N.-Þ. (BSv) og Jóns heit. Ólafssonar um framferði okurhrings þessa. Gekk svo langt, að hinn harðasti málsvari kaupmannaverslunar, hv. 2. þm. G.-K. (BK), vildi 1912, að Landsbankinn tæki að sjer einkasöluna Hann var ráðherra 1917, er heimildarlögin voru samþ., og var þá mjög framarlega í flokki um að setja upp einkasöluna og vildi láta hana standa lengi, til reynslu. Vona jeg, að hann hafi ekki skift um skoðun enn á því máli.

Jeg skal taka eitt dæmi um hjartagæsku Steinolíufjelalgsins, ekki eldra en frá 1920. Þá var að verða steinolíulaust hjer. Höfðu safnast fyrir skuldir hjá hringnum, af því að Íslandsbanki hætti í bili að geta yfirfært. Þáv. atvrh., Pjetur heit. Jónsson, kom því til manna þeirra, er fyrir hringnum stóðu, og spurði, hvort þeir vildu ekki flytja inn olíu. Þeir neituðu, af því að ekki væri yfirfært. Að lokum, eftir þref mikið, slær einn þeirra í borðið og segir: „Við flytjum inn, en — við ráðum verðinu!“ Pjetri heit. Jónssyni gast ekki að þessu og ljet panta olíufarm. En hvað skeður þá? þá kemur sami maðurinn sem fyr sló í borðið og segir, að hjer sjeu svik í tafli við hringinn, því hann eigi að ráða olíuverðinu í landinu. Vera má, af því að Pjetur Jónsson er nú látinn, að þessi saga verði rengd. En jeg veit, að hún er dagsönn og að öllum er óhætt að trúa henni.

Landsverslunin færist nú í aukana, og er fróðlegt að sjá, hvernig hún kúgar hringinn með íslensku þjónana stig af stigi niður á við. Þeir kveinuðu og veinuðu undan samkepninni. Þeim datt ekki í hug að setja þann ljósbjarma um sína vesölu tilveru undir hið síðasta, að taka verðskuldaðri niðurlægingu með þögn og þolinmæði. Þeir vildu deyja eins og þeir lifðu, upp á 145–200%.

Þeir, sem ferðast hafa erlendis, hafa víst tekið eftir því, að þar eru víðast stálgeymar fyrir olíu, sem hafa svo mikinn sparnað í för með sjer, að talið er, að þeir borgi sig á 2–3 árum. Auðvitað getur hv. flm. (SigurjJ) sagt, að Standard Oil muni byggja slíka geyma hjer. En það er ekki Landsversluninni að kenna, að hjer eru ekki slíkir geymar, heldur mótþróa Íhaldsflokksins. Ávinningurinn við slíka geyma er þó næsta mikill, eins og jeg veit að jeg þarf ekki að skýra. Hv. flm. kann að segja, að fjelögin flytji hingað geyma þessa. Þeir eru í Kaupmannahöfn frá einu fjelagi. En hverjir skyldu borga brúsann nema kaupendur? Hinsvegar er hjer á landi svo lítil olíunotkun, að slíkir geymar kæmu ekki upp með samkepni. En jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. flm., sem reiknar með vjelbátum í Hull og Hamborg, myndi gera sjer rellu út af, þótt smáhafnirnar á Íslandi yrðu af geymum þessum. Það er einmitt hið lúsarlega við samkepnina, að þar sem hún getur ekki smogið inn í einhverja matarholu, þar er alt einskisvert. Hverjir hugsa hjer um smáhafnirnar úti um land? Hverjir styrkja kjördæmi hv. Þm. Barð. (HK) ? það er líka annað en vjelbátaútvegur í Hull og Hamborg.

*) Óyfirlesin ræða.