11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

131. mál, steinolíuverslunin

Jón Auðunn Jónsson:

Það, sem vakir fyrir okkur flm., er einkum og sjer í lagi það að tryggja, að mótorbátaútgerðin fái olíuna með sem allra lægstu verði. Nú hefir það verið álit margra, að olían væri í óhæfilega háu verði hjer á landi, miðað við verð hennar í nágrannalöndunum, og jeg skal ekki dylja það, að mitt álit, sem jeg síðar skal rökstyðja, er að svo hafi verið. Þess utan virðist mjer, að einkasalan hafi breytt illa gagnvart þessari atvinnugrein, þar sem hún í öllum tilfellum hefir lagt mest á þær olíutegundir, sem útvegurinn notar mest eða notar eingöngu, eins og t. d. hráolíu.

Með því að gefa innflutning frjálsan hyggjum við flm., að best verði sjeð fyrir þörfum mótorbátaútvegsins í verðlagi öllu og vörugæðum. Um leið og gert er ráð fyrir því, að Landsverslun flytji inn olíu, er og sjeð fyrir því, að ekki nái neinn einstakur innflytjandi eða einstakt fjelag einokun á þessari vöru. Það er nokkur vorkunn, þó menn sjeu hræddir við erlend stórfjelög, því menn eru minnugir þess, hvernig steinolíufjelagið hagaði sjer í þessum efnum, þar til Fiskifjelagið og síðar ríkisstjórnin fór að flytja inn olíu í samkepni við fjelag þetta. En nú er svo komið steinolíuversluninni í heiminum, að þar sem áður, alt fram að 1918, voru fjórir eða fimm verslunarhringar, sem höfðu því nær alla olíuframleiðslu í höndum sjer, þá eru margir tugir fjelaga, ef ekki hundruð, um þessa framleiðslu nú.

Við friðarsamningana var það eitt af stærstu keppikeflum þjóðanna að ná þeim landskikum, þar sem olíulindir eru, og þar sem Vestur-Evrópuþjóðunum tókst ekki að ná í slíka landskika, þá var reynt að gera verslunarsamninga og fá einkaleyfi til olíuframleiðslu hjá þeim smáþjóðum, sem yfirráð höfðu yfir olíuauðugum löndum. Þetta tókst svo vel, að þar sem talið var 1914, að Ameríkumenn hefðu umráð yfir 84–86% af allri olíuframleiðslu heimsins, þá er talið, að í árslok 1923 hafi England, Frakkland, Ítalía, Holland og Belgía nærfelt 38% af olíuframleiðslunni í sínum höndum. Jafnframt er talið, að hlutföllin muni breytast Evrópuþjóðunum í hag á næstu árum.

Af þessum ástæðum eru margfalt minni líkur nú en áður fyrir einokun vörunnar. Þar við bætist það, að á allra síðustu árum er hafin samkepni milli kola- og olíuframleiðenda um eldsneyti til gufuskipa. Á hundruðum gufuskipa er nú notuð olía til brenslu, og margir kolaframleiðendur telja olíuframleiðendur afarhættulega keppinauta á þessu sviði, enda er unnið að því með öllum hugsanlegum ráðum að gera olíuframleiðsluna sem kostnaðarminsta. Vegna þessa alls er það von allra þeirra, sem olíuna nota, að hún fari lækkandi, og það er líka svo, að olíuverð t. d. í New-York er stórum lægra en flestra annara vörutegunda, saman borið við verðlagið 1914.

Tökum t. d. Pensylvanisk Standard White, sem er besta mótorolían. Markaðsverð þessarar olíu var, miðað við amerískt gallon (3,785 1.), 1914 í jan. 51/4 cent, 1924 apríl–des 61/2 cent, eða pr. tunnu (189 lítra) í jan. 1914 2 $ 62 cent, í des. 1924 3 $ 25 cent.

Í skýrslu til Alþingis segir steinolíueinkasalan, að inn hafi verið flutt 1924 um 45 þús. tunnur af olíu, þar af 13400 tn. ljósaolía. Af þessum 131/2 þús. tn. er eitthvað notað til mótora. Má líklega fullyrða, að útvegurinn noti um 33 þús. tn. á ári. Það er því mikils um vert fyrir þann hluta sjávarútvegsins, sem rekinn er með mótorbátum, að olían sje sem ódýrust. Af því að mjer þykir kenna ónákvæmni og missagna í þessari skýrslu verslunarinnar til Alþingis, þá vil jeg athuga hana nokkru nánar. Í þessari skýrslu segir svo: „Innkaupsverð olíunnar hækkaði mikið mánuðina febr., mars og apríl, en lækkaði svo smám saman til ágústloka, en fór þá aftur nokkuð hækkandi“. Fyr í skýrslunni segir: „Innkaupsverð olíunnar er breytilegt eftir heimsmarkaðsverðinu samkv. samningi við British Petroleum Co.“. Samkv. þessu hefir verslunin hækkað venjulega mótorolíu 1. febr. úr 35 upp í aura, 14. apríl upp í 46 aura, en lækkað hana 18. ágúst niður í 44 aura, 1. okt. niður í 42 aura og 1. des. niður í 40 aura, alt pr. kíló.

Heimsmarkaðsverðið var í New-York árið sem leið frá 1. jan. til 20. apr. alveg stöðugt, 7 cent pr. amerískt gallon eða 3 $ og 50 cent fatið. 20. apríl lækkar gall. um 1/2 cent og stendur stöðugt í því verði til ársloka og er 61/2 cent pr. gallon, eða 3 $ 25 cent pr. fat. Þessar skýrslur um verðið í New-York eru teknar eftir opinberum verslunarskýrslum og sjerprentun Deutsche Bank í Berlin, að því er venjulega, besta teg. mótorolíu, Standard White, snertir. Hvaðan Landsverslun hefir sínar upplýsingar um breytilegt verð á þessari olíu, væri fróðlegt að vita, ef þær eru ekki skapaðar í heila umboðsmanns British Petroleum. Þá segir í skýrslunni, að innkaupsverð Landsverslunar hjá British Petrolium sje 2–4 pence lægra pr. enskt gallon en verð annara olíufjelaga til heildsala þar, fob.

Jeg hefi ekki í höndum „noteringar“ í London til heildsala, en hitt er víst, að fá mátti í janúar Standard White fyrir miklum mun lægra verð frá Hamborg en það, sem Landsverslun seldi hjer þá.

Jeg skal, til þess að slá niður allar heimskulegar fullyrðingar verslunarinnar, lesa hjer upp reikning frá útbúi British Petroleum í Hull, dags. 21. október, yfir 29 tunnur hráolíu (gasolíu), sömu og hjer er seld. Verðið er auðvitað smásöluverð, en heildsöluverð mun 5–10% lægra, og að því er Landsverslun fullyrðir, 16% lægra.

29 föt, 1193 gallon, á 8)4

= £ 41—0—1

Cartage £ 3—2—2

Barrels free £ 44—2—3

á kr. 30/00 pr. £ = kr. 1223.37 eða fatið með umbúðum fob. Hull kr. 45.64. Á sama tíma var fatið af þessari olíu selt hjer hjá Landsverslun, samkvæmt reikningi yfir nokkur föt af sömu olíu, er jeg hefi í höndum, hvert fat, einnig með umbúðum, kr. 66.22, eða kr. 20.58 hærra hjer en í smásölu í Englandi. Sömu hlutföll eru á lausri olíu, sem látin var í geymi í sama bátnum frá Vestfj., sem olíuna keypti í Hull.

Í desember 1924 var verð á Standard White í New-York 61/2 cent Pr. gallon, laust í skip, fob. New York, eða með kr. 5.75 gengi á $ eru þá 1000 kg. kr. 124.60. Fragt til Vestur-Evrópu var 20 shillings pr. tonn, eða með 28 kr. gengi á £ = kr. 28.00; vátrygging 80 aurar pr. tonn, eða alls kr. 153.40 cif. London, Hamborg eða Amsterdam. Þessa sömu tegund af steinolíu kaupir Landsverslun af British Petroleum á um 71/2 d. pr. enskt gallon, eða með 28 kr. gengi á £ nálægt kr. 235.00 tonnið fob. London. Hefir þá British Petroleum tekið fyllilega kr. 80.00 á hvert tonn fyrir upp- og útskipun, áfylling á tunnur og í verslunarhagnað.

Í skýrslunni er innanlandskostnaður talinn kr. 16.40 pr. tunnu, en í rekstrarreikningi er allur slíkur kostnaður, og þar í vextir og útsvar, skuldatap og ríkissjóðsgjald, afföll og rýrnun, ekki talið nema 101/2 kr. á tunnu.

Í dæmunum á bls. 4 er rýrnun á hráolíu talin 10%. Jeg hefi átt tal við menn, sem hafa um nokkur ár haft innflutning á hráolíu í fötum, og þeir hafa venjulega haft 1–2% rýrnun, oft ekki nema 14%, en einstaka sinnum upp í 4%. Að meðaltali telja þeir rýmun ekki yfir 2%, og er þá talin með mánaðargeymsla í landi. Í skipi mun rýmun þessarar olíu ekki nema yfir 1%.

Af öllu þessu er það augljóst, að skýrsla Landsverslunar er í mörgum atriðum villandi og alveg óábyggileg. Er það sjerlega óheppilegt, að forstöðumenn opinberrar starfrækslu skuli láta slíkar skýrslur frá sjer fara.

Jeg sá rjett áðan aðra skýrslu frá Landsverslun til hæstv. stjórnar, og þar er því haldið fram, að steinolíukaup sjeu hagfeldari hjá British Petroleum heldur en hjá danska Steinolíufjelaginu. Jeg hjelt nú satt að segja, að enginn vildi miða við það fjelag. Annars er mjer ókunnugt um, hvaða verðlag danska Steinolíufjelagið hefir, eða hvort það verð, sem tilgreint er, er útflutningsverð eða verð til notenda í Danmörk, en hygg þó, að það sje annað verð en útflutningsverð. Mjer vitanlega er útflutningsverð allra fjelaganna í Danmörk hið sama — þar með talið danska Steinolíufjelagið — á amerískri olíu. Og það hefir verið þetta árið sem leið:

Pensylvanian Standard White (sem er besta hreinsaða mótorolía) kostaði:

1/1. 1924 .. D. Kr. 22.75 pr. 100 kg.

1/7. 1924 . . D. Kr. 22.75 pr. 100 kg

30/12. 1924 . . D. Kr. 20.30 pr. 100 kg.

fob. Kaupmannahöfn án umbúða. Verð á einni tunnu, 150 kg., verður þá með því meðaltalsgengi, sem haft er í landsverslunarskýrslunni (kr. 117.63), kr. 40.14, en hjá British Petroleum kr. 39.97 allan fyrri helming ársins. En 30. des. er verðið D. Kr. 20.30, og með því gengi, sem þá var (Kr. 105.00), verða það 33.27 á tunnu. Á sama tíma tekur British Petroleum kr. 34.86, en Hamborgarverð er um 3 kr. lægra. Af öllu þessu virðist mjer augljóst, að olíuverð sje of hátt hjer. Þarf ekki annað en bera það saman við olíuverð í Noregi, Danmörk og Færeyjum, til þess að sjá þetta. Hinn 23. júlí í sumar var verð á hráolíu hjer 32 aurar, en í Færeyjum 20,3 aurar, ef keypt er tonn, en minna, ef 30 tonn eru keypt í einu, eins og oft kemur fyrir.

Mjer hefir virst af ræðum hv. þm., að þeir vilji miða alt við ástandið eins og það var hjer meðan D. D. P. A. var hjer einrátt og alt þótti gott annað. Nú hefi jeg ekki, og ekki heldur hv. þm., að því er jeg hygg, orðið vísari þess af ræðum hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og hv. 5. landsk. (JJ), hvort þeir ætla að greiða atkvæði með till. eða ekki. Jeg vil nú samt í lengstu lög vona, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) greiði henni atkvæði, því að jeg hygg, að hann vilji unna sjómönnum og útgerðarmönnum þess, að reynt verði að útvega þeim lægra olíuverð en nú er.

Til þess nú að sýna, hve mikið hagsmunamál steinolíumálið og steinolíuverðið er fyrir sjómenn, sem ráðast upp á þau kjör að greiða hlutfallslega af afla sínum olíuverð, skal jeg benda á, að á stærri bátunum vestra mun að jafnaði koma olíunotkun, sem svarar 7–10 tunnum á hlut hvers háseta á tímabilinu frá því í nóvember og þangað til 1. júlí. Og þótt ekki muni meira en 5 krónum á tunnu, þá munar þó 35–50 krónum hjá þeim. Auðvitað munar útgerðarmenn meira um þetta, því að þeir hafa fleiri hluti, en mótorbátaútgerðin stendur og fellur með lágu steinolíuverði, og henni er um að gera að fá sem allra ódýrasta steinolíu.