11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

131. mál, steinolíuverslunin

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi kvatt mjer hljóðs af því, að jeg er hinn eini af smærri útgerðarmönnum, sem sæti á á Alþingi. Jeg taldi því rjett að lýsa afstöðu minni að nokkru, þótt hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hafi tekið af mjer ómakið að vissu leyti um samanburð á verði Landsverslunarinnar og verði á heimsmarkaðinum.

þá vil jeg víkja að einni af þeim ástæðum, sem hv. flm. hafa fært til. Hún er sú, að með þessu sje reynt að útvega vjelbátaútveginum ódýrari olíu. Jeg get lýst yfir því fyrir mína hönd og margra annara, að við efumst alvarlega um, að það náist með þessari aðferð. Jeg veit, að þessi till. er ekki flutt að vilja smærri útgerðarmanna. í ályktun síðasta fiskiþings kemur skýrt fram, að Fiskifjelagið leggur áherslu á, að Landsverslunin verði ekki lögð niður. Þetta hefir ekki breyst síðan. Og rjetta aðferðin væri að fá vissu um vilja þessara manna áður en breytt er til.

Hinsvegar hafa altaf verið raddir uppi móti Landsversluninni. En þær eru ekki sterkari nú en í byrjun. Og þær hafa altaf verið hæstar úr hópi þeirra, sem samtímis því að vera útgerðarmenn voru kaupmenn. Það er því litlum vafa bundið, að þá ræður meiru kaupmaðurinn en útgerðarmaðurinn í þeim, sem vilja leggja verslunina niður.

Því hefir verið haldið fram, að það væri engin hætta á því, að nokkurt útlent fjelag næði hjer yfirráðum, þó einkasalan væri afnumin. En síðan hafa komið fram upplýsingar, sem draga mjög úr þess. Þær komu í ræðum hv. þm. Ísaf. og hæstv. fjrh. (JÞ). Vegna þröngs fjárhags þyrfti að draga varasjóð Landsverslunarinnar inn. Það er alveg áreiðanlegt, að steinolíuverslunin yrði gerð óstarfhæf, ef þetta væri gert. En út af þessum orðum hæstv. fjrh. virðist mjer koma í ljós, hvað á bak við liggur. Undanfari þessa máls var sá að leggja tóbakseinkasöluna niður. Nú var því haldið fram í vetur, og það með rjettu, að tóbakseinkasalan væri nokkurskonar útvígi steinolíuverslunarinnar. Ef hún er afnumin, þá er steinolíuverslunin farin. Það er varasjóður Landsunarinnar, sem seilst er eftir, til þess eru refarnir skornir. Hæstv. fjrh. (JÞ) varð ekki skilinn á annan veg.

Þetta skýrir það að nokkru leyti, hvers vegna við viljum halda við Landsversluninni, og svo sú reynsla, sem við höfum af frjálsri verslun með þessa vöru. Jeg skal víkja að því nánar síðar; en svo mikið skal jeg segja strax, að það væri ekki ástæðulaust, þó við myndum enn, hve þungum búsifjum við urðum fyrir af útlenda fjelaginu.

Hv. flm. drap á rýrnun olíunnar og gerði mikið úr. Mín reynsla er ekki mikil. Jeg kaupi 40–60 föt á ári, og jeg get sagt það, að eitt hið mesta mein vjelbátaútvegsins hefir verið rýrnun olíunnar. Jeg minnist þess, að eitt stríðsárið var erfitt að fá olíu. Þá kom skip með olíufarm til landsins í byrjun vertíðar í maí. Af því að þessi olía fjekst með sæmilegum kjörum, sætti margur því og keypti sumarforða sinn. Jeg keypti 40 föt. En mjer er óhætt að fullyrða, að 1/3 hluti þess fór niður. Þegar á að liggja með olíu í trjetunnum frá maí til sept., þá er mörg tunnan orðin tóm. Þetta böl, sem smáútgerðin á við að stríða, gerir Landsverslun með olíu alveg nauðsynlega. Áður var það óþekt að flytja inn í stáltunnum. Það var sagt þá, að það yrði of dýrt. Reynslan er sú, að þetta hefir orðið okkar mesti hagnaður. Og ef kannast á við það, að þessi rýmun er einhver versti bagginn, sem á þessari útgerð hvílir, þá erum við um leið komin inn á stefnu Landsverslunarinnar, að fría útveginn með öllu við þessa hættu. Landsverslunin hefir sýnt, að þetta er hægt að framkvæma án mikils kostnaðar. Þetta er ein ástæðan til þess, að jeg vil ekki leggja hana niður.

Hversu góða samkepni sem við fáum, komumst við aldrei yfir þessa hættu, nema farið verði að flytja í skipum með 10 geymi og geymar verði settir upp í landinu. Þá skyldi jeg ekki efa, að verið væri að tryggja útveginn. En meðan ekki er sjeð fyrir þessu, að girða fyrir þessa hættu, þá er hagurinn enginn að því, þó hægt sje að fá olíu 1–2 aur. ódýrara kílóið.

Sumir segja, að þetta sje alt hægt án Landsverslunar. En jeg get ekki sjeð það. Ef færa á þessa hugsun út, verður verslunin að vera á einni hendi, sem jeg álít, að eigi að vera Landsverslun.

Hv. flm. verður ekki eins hægt að komast yfir þennan þröskuld og þeir halda. Jarðolíu er að vísu ekki eins afarhætt við rýmun eins og steinolíu, en við notum hana lítið. Og það er spurning, hvort notkun hennar fer mikið í vöxt. Ef hægt er að komast hjá rýmunarhættu, nota menn heldur steinolíu, því vjelar, sem hana nota, endast stórum lengur en hinar.

Þá hefi jeg nú bent á eina ástæðu til þess, að jeg vil ekki leggja Landsverslunina niður. Auk þess er jeg sannfærður um, að hún hefir útvegað ódýrari olíu en annars væri kostur.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að tilgreina tölur, þó jeg geti komið með ótal dæmi á borð við hv. flm., dæmi, sem sýna mundu harla ólíka útkomu. Það er hægt að koma hjer með tölur. En þá vantar samanburð, því þó maður sje allur af vilja gerður, þá getur manni altaf yfirsjest. Hjer þarf miklu meiri rannsókn en málið hefir nú fengið, til þess að fá tölur, sem treysta megi og hægt sje að leggja til grundvallar, þegar ræða er um verð olíunnar.

Þá hefir verið sagt um okkur, sem styðjum landsverslun með steinolíu, að við miðum altaf við það ástand, sem var hjer meðan Steinolíufjelagið rjeð lögum og lofum. Þetta er ekki rjett. Þegar hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) skýtur því til okkar, sem nálægt stöndum sjómönnum, eða, eins og jeg, hafa atvinnu og uppeldi af smærri vjelbátaútgerð, hvort það hafi ekki nokkra þýðingu fyrir þann útveg að fá steinolíufatið fyrir 5 kr. lægra verð en annars, þá neita jeg því auðvitað ekki. En mjer er kunnugt um það, og líklega hv. flm. líka, að því aðeins getum við orðið þeirra kjara aðnjótandi, að við skiftum við Landsverslun. Ef við skiftum við kaupmenn, þá verðum við að borga 5 kr. meira fyrir fatið. Og þegar Landsverslun selur olíu í smásölu á 40–45 aur. kílóið, þá selja kaupmenn hana á 60–70 aur. kílóið. Þessir menn segja, að olían rýrni svo mikið, að þessi verðhækkun sje nauðsynleg, og það getur verið. Jeg veit, að hún er mikil. En þá kemur rýrnunin, eins og raunar altaf, niður á notendum, og þá ber alt að sama brunni. Hættan, sem við þurfum að fyrirbyggja í þessu efni, er fyrst og fremst rýrnunarhættan. Hitt er alveg víst, að ef við þurfum að láta olíuna ganga gegnum hendur kaupmanna, þá þarf okkur ekki að blöskra neitt, þó við verðum að borga 5 krónum meira fyrir tn. heldur en annars, frá Landsverslun. En það er satt, að í Landsverslun verður maður að borga olíuna strax eða setja trygging fyrir greiðslunni að öðrum kosti. En það getur vel verið, að einhver geti fengið lánað hjá kaupmönnum.

Þá taldi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) óforsvaranlegt að neyta ekki allra ráða til þess að fá olíuna sem ódýrasta, og er jeg honum alveg samdóma um það. En þá verðum við að fara rjetta leið til þess. Við megum ekki horfa of mjög á það, þó við gætum fengið olíuna 2–3 aur. ódýrara kílóið, meðan ekkert er um það hugsað, þó olían renni til hálfs í sandinn fyrir notendum. Á það ber að leggja áherslu að bæta úr því. En hitt þykir mjer undarlegast, að hv. flm. till. skuli ekki finna til með okkur smærri útgerðarmönnum á fleiri sviðum en þessu. Það er þó fleira, sem við þurfum að nota við okkar atvinnurekstur, en steinolía. Þó hún sje stór liður í útgerðinni hjá mjer, þá er hún þó alls ekki stærsti liðurinn. Jeg veit ekki betur en að þegar við þurfum að taka veiðarfæri okkar í venjulegum kaupmannaverslunum, þá sjeu þau 20–30% dýrari heldur en ef við getum fengið þau milliliðalaust gegnum kaupfjelag. Því finna hv. þm. ekki til þessa ? Jeg veit þó, að þessi kjör eru ekki síður tilfinnanleg fyrir útgerðina heldur en steinolíuverslunin. Nei, þeim finst ekki til um það, þó við borgum 20–30% of mikið fyrir veiðarfærin. — Jeg get ennfremur bent á salt o. fl.

þá vil jeg að lokum benda á það, sem reyndar hefir verið tekið fram áður, að það er einkennilegt, að hv. flm., sem bera okkur smærri útgerðarmenn svo mjög fyrir brjósti, skuli ekki hafa fundið til þess fyr en nú, þegar komið er að þinglokum. Jeg hygg nú, að fyrsta ástæðan til þess, að þáltill. kom ekki fyr fram, hafi verið sú, að fyrst þurfti að vinna útvígið, áður ráðist yrði á virkið sjálft — fyrst varð að drepa tóbakseinkasöluna og koma svo olíuversluninni fyrir kattarnef á eftir. Jeg held, að tæplega verði á móti því mælt, að þrátt fyrir góðan hug flm. til okkar útgerðarmanna, þá hefir það þó vakað meira fyrir þeim í þessu máli að koma Landsverslun fyrir kattarnef en að koma okkur til hjálpar. Jeg mundi nú ekki heldur hafa neitt á móti því, ef jeg teldi einmitt ekki meiri hættu á því, sem hv. flm. þykjast vilja koma í veg fyrir, að steinolíuverðið yrði baggi á útgerðinni, ef Landsverslun er lögð niður. Nú er jeg á móti till., af því að jeg tel engan líkur til þess, að steinolíumálinu verði ráðið sæmilega til lykta á annan hátt en með Landsverslun, og því vil jeg alls ekki, að hún sje afnumin. Mjer þætti gaman að heyra, hvernig hv. flm. hugsa sjer að koma þessu fyrir í framtíðinni svo, að smáútvegurinn hafi hag af breytingunni, því ef það er virkilega ætlun þeirra að tryggja hag smærri útgerðarmanna, þá efa jeg ekki, að þeir sjeu búnir að hugsa sjer nýja leið. Því ef það er ekki, þá liggur nærri að ætla, að alt þeirra skraf um hagsmuni notenda sje tómt fals, og eina ástæðan og eina takmarkið, sem fyrir þeim vakir, sje að leggja Landsverslun niður.

Mjer er mikill söknuður að því, að hæstv. atvrh. (MG) skuli ekki hafa látið til sín heyra í þessu máli, bæði af því að þetta mál er af mjer og hv. flm. talið mjög mikilsvarðandi fyrir hinn smærri sjávarútveg, og sú niðurstaða, sem hjer verður, hlýtur að hafa mikla þýðingu fyrir þá atvinnugrein, og þó einkum vegna þess, að sú stofnun, sem hjer á hlut að máli, hefir orðið fyrir miklum árásum af hendi hv. flm. En jeg tel engum manni skyldara en hæstv. atvrh. (MG) að skýra málið. Og jeg hefði vænst þess, að hann ljeti ekki bera þessari stofnun á brýn lögbrot og jafnvel fjárdrátt, eða ólöglega álagning og óheimila. Þar sem forstöðumaður stofnunarinnar á þess engan kost að færa hjer fram vörn fyrir sig eða stofnunina, þá hefði jeg vænst þess, að hæstv. atvrh. (MG) gerði það, því jeg veit, að hann er kunnugur rekstri hennar, og jeg vænti þess, að hann telji sjer skylt að halda engu leyndu um ástand hennar.

Jeg hefi talið mjer skylt að lýsa afstöðu minni til málsins, og það hefi jeg nú gert. Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú fært fram, þá get jeg ekki greitt þessari till. atkv. mitt.