11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

131. mál, steinolíuverslunin

Björn Líndal:

Af því að jeg er meðflm. að þessari till., þá þykir mjer við eiga að segja nokkur orð, þó umr. sjeu nú orðnar langar, og jeg vildi ógjarnan verða til þess að lengja þær enn. Jeg mun því ekki leitast við að rekja þær umr., sem hjer hafa orðið, nje svara einstökum hv. þm., en drepa aðeins á fá atriði.

Vil jeg þá fyrst minnast á ummæli hv. 2. þm. Reykv. (JBald). En honum þótti till. undarlega orðuð, þar sem við gerðum ráð fyrir að halda ríkisverslun inni áfram, þó einkasalan sje afnumin. Hann talaði um „iðrun Íhaldsflokksins“, sem lýsti sjer í þessu, og hefði það átt að vera gleðiefni fyrir hv. þm., en það var þó alls ekki hægt að skilja af ræðu hans. Jeg get nú frætt hv. þm á því, að það er nokkuð sitt hvað í mínum augum, einkasala og frjáls verslun, hvort sem hún er rekin af ríkinu eða ekki, og jeg fyrir mitt leyti get miklu frekar þolað ríkisverslun í frjálsri samkepni. Við þetta bætist svo, að einkasalan hefir bitið bakfiskinn úr kaupmannastjettinni íslensku, enda engin von á því, að menn þori að setja mikla peninga í fyrirtæki eins og steinolíuverslun, þegar það vofir líka yfir, að Alþingi taki hana af þeim aftur þegar minst varir. — Þetta er nóg til þess að skýra það fyrir hv. 2. þm. Reykv. (JBald), hvers vegna við flm. viljum halda áfram ríkisversluninni, fyrst í stað a m. k.

Þá kem jeg að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann sagði, að þetta orð, frjáls verslun, væri slagorð, sem vilti mönnum svo sýn, að þeir greiddu atkvæði um málið án þess að hafa hugsað nægilega um það. Hvaðan kemur honum þessi viska? Hvaðan veit hv. þm nokkum hlut um það, hvað við höfum hugsað um þetta mál? Við höfum nú í þrjú ár haft nægan tíma til þess að athuga þetta. Hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að allir þeir útreikningar, sem við bygðum á, væru falskir. Þetta er auðvitað hægt að segja. En eru það ekki slagorð? það er harla djarft að segja í heyranda hljóði, að þessar tölur sjeu falsaðar. Höfum við þá ekki enn meiri rjett til þess að segja, að tölur Landsverslunar sjeu falskar? það hefir verið bent á það, að þær bera það með sjer, að þær eru rangar, því þær mæla hver á móti annari. Af tölum Landsverslunar sjálfrar má sanna, að hún fer með rangt mál. Landsverslun hefir nóg af hálaunuðum mönnum til þess að búa til handa sjer þessar skýrslur dag eftir dag, og hún hefir nóga menn og nóg fje til þess að láta prenta þessar skýrslur og dreifa þeim út um alt land. Þessir menn eru lærðir í þessum efnum. Þeir hafa gengið í skóla hjá útlendu einokunarfjelagi og vita því, hvernig þeir eiga að haga sjer. Þeir lemja um sig með slagorðum, segja, að það sje lífsnauðsyn að flytja olíuna í tankskipum og járnfötum, en þeir geta alls ekki neitt um það, að til þess að slíkt geti komið til mála þarf miklu meiri umsetningu en hjer er um að ræða. Kostnaðurinn við járnfötin er líka alveg afskaplegur. Eftir skýrslunum er fyrning á áhöldum 80 þús. kr. á síðasta ári, og af því mun koma á steinolíufötin 50–60 þús. kr. Auk þess er hin mesta nauðsyn á því, að hægt sje að fá föt undan steinolíu til þess að setja í þau síldarolíu og því um líkt, og sje hætt að flytja steinolíuna þannig inn, þá þarf að kaupa þessar tunnur langtum hærra verði. Öllu þessu gleyma þeir háu herrar, eða þeir fara vísvitandi með rangt mál. Þeir nota peninga ríkisins til þess að breiða út meðal almennings skýrslu, sem hver heilvita maður sjer og veit að er röng. Þegar þessir herrar eru að þykjast sanna það, að B. P. selji okkur olíu fyrir 4 pence lægra verð pr. gallon en hún er seld á Englandi, þá hætti jeg að trúa, og má hver lá mjer það sem vill. Jeg trúi ekki slíku fyr en mjer er sýnt með óhrekjandi rökum, að þetta sje sannleikur. Þessir menn segja, að öll okkar sönnunargögn sjeu röng. Hvaðan hafa þeir þetta? Hvar eru sönnunargögnin? Jeg skal ekki neita því, að jeg hefi heyrt ýmsar sögur, sem jeg á ekki gott með að trúa. Mjer er ekkert launungarmál á því, að sú saga hefir t. d. gengið, að forstjóri Landsverslunar fengi góða summu af hverju fati, sem verslunin seldi. Jeg segi þetta hjer í heyranda hljóði. En jeg leyfi mjer samt ekki að leggja trúnað á það. Ef þeir hefðu heyrt slíkar sögur um okkur, þá hefðu þeir líklega trúað þeim, eða látist gera það. En jeg bendi á þetta til þess að gera mönnum það ljóst, að varlega skal trúa öllu slúðri.

Þá langar mig til að spyrja hv. andmælendur þessarar till. að einu atriði, sem jeg hefi enn ekki skilið í rökfærslu þeirra, og það því síður, sem meira hefir verið um það rætt. Hjer var einokun áður á steinolíu, og var ríkiseinkasalan sett til þess að losa landið úr þeim einokunarböndum, og verði nú einkasalan afnumin, þá óttast menn, að þá komi gamla einokunin aftur, og jafnvel verri en áður. Þetta segja þeir. Jafnframt hefir verið talað um það, hvað þessi einokunarfjelög sjeu sterk, og fyrir stríð hafi þau blátt áfram skift Norðurálfunni milli sín, og hafi þá Norðurlönd komið í hluta Standard Oil. Og til dæmis um vald þessara einokunarhringa er svo sagt frá því, að þýska ríkið hafi gert alt, sem það gat til þess að losa sig undan þessari einokun, og varið til þess mörgum miljónum króna. En hvað dugði svo þetta? Ekki neitt. Alls ekki neitt. En nú spyr jeg: Úr því hið stóra og sterka þýska ríki gat ekki neitt að gert í þessu efni, hvernig ætti okkar litla ríki að geta brotið þennan hring? Jeg skil það ekki. Gátu ekki þjóðverjar breytt lögum sínum, og geta ekki allar þjóðir gert það? Og hví gera þær það þá ekki, ef það væri til nokkurs gagns? það er augljóst, að hlutfallið breytist ekkert við einkasölu, og þó allra síst með því að semja við sjerstakt fjelag um olíu, fyrir það verð, sem altaf má fá olíu keypta fyrir á heimsmarkaðinum. Og ef fjelagið er nú svo sterkt, að það ræður verði á heimsmarkaðinum, hver er það þá, sem ræður verðinu til okkar? Er það ekki sjálfur steinolíuhringurinn? þegar þess er svo gætt, að miðað er við hátt flutningsgjald, og allur kostnaður á Englandi er óvenjulega mikill, þá vakna hjá manni grunsemdir um það, hvort við í raun og veru fáum steinolíuna við markaðsverði.

En svo er nú þetta markaðsverð. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að samningurinn við B. P. trygði okkur markaðsverð. Látum svo vera. En í raun og veru er markaðsverð það hæsta verð, sem á vörunni er á hverjum tíma.

Allir vita, að hver, sem peninga hefir, getur altaf fengið vöruna með markaðsverði. Það er einmitt aðalgalli samningins, að hann bindur við markaðsverð. En sje fje og hyggindi með, þá er altaf hægt að fá vöru undir markaðsverði, a. m. k. þegar um verulega stór kaup er að ræða. Hjer fer því fjarri, að um góð kjör sje að ræða, hvað sem hv. þm. (ÁÁ) segir.

Hjer hefir verið talað um álagningu kaupmanna, ef verslunin yrði frjáls, og sjerstaklega gerði hv. 2. þm. S.-M. (IP) mikið úr þessu. Hvort hún yrði meiri eða minni, skal jeg nú ekkert segja um. En mjer þykir það dálítið undarlegt, að þessir háu herrar eru altaf að tala um kaupmenn, en það er eins og þeir gleymi kaupfjelögunum. Þau ættu þó að geta „kontrollerað“ of háa álagningu kaupmanna. Og dugi það ekki, þá ættu þau að geta slegið sjer saman eða snúið sjer til þess göfuga og mannúðarríka Sambands, og mundi það sennilega koma í veg fyrir alla slíka misbeiting.

Jeg hefi nú sýnt með óhrekjanlegum rökum, að það er óhugsandi, að steinolía verði dýrari, þó verslunin verði gefin frjáls. En áhættan fyrir ríkið hverfur, og þó við græddum ekkert annað við breytinguna en það, þá er slíkt mikils virði.

Jeg hika því alls ekki við það að bera þessa till. fram og berjast fyrir samþykki hennar, nú eða síðar. Á móti berjast þeir, sem eiga hagsmuna að gæta við sjálfa verslunina, en með berjast þeir, sem hafa hagnað af því að fá ódýrari olíu.

Þá er jeg einmitt kominn að því, sem aldrei verður of oft minst á, að alt landsverslunarfyrirkomulagið skapar pólitískan hring, eða nokkurskonar ríki í ríkinu. Landsverslunin er m. ö. o. stofnun, sem hætta stafar af fyrir ríkið. Og hinn siðferðislega ávinning af þessu fyrirkomulagi má best marka af þeim hneykslanlegu ræðum, sem forsvarsmenn einokunarinnar hafa haldið hjer. Jeg hefi þekt að minsta kosti einn af þessum mönnum, sem mikið eru við Landsverslunina riðnir, og veit, að hann hefir síst orðið betri maður við þau afskifti. Má segja, að hjer beri alt að sama brunni.