11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

131. mál, steinolíuverslunin

Jón Baldvinsson:

Hv. flm. till., sem hafa talað, hafa verið að kvarta undan því, að á þá hafi verið borið, að fyrir þeim hafi vakað að hleypa inn útlendu steinolíufjelagi. Jeg hefi ekkert sagt um það, að það sje tilætlun flutningsmanna, heldur bent á, hver verður afleiðingin, ef till. þeirra kemur til framkvæmda, sem sje sú, að þá mundi það illræmda steinolíufjelag byrja aftur starfsemi sína hjer á landi. En að þeir kvarta sáran undan því, sem aldrei hefir verið borið á þá, virðist ekki bera vott um góða samvisku í þessu efni.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að með samkepni þeirri, sem tekin yrði upp með því fyrirkomulagi, sem þeir vilja hafa, þá sje útilokuð einokun af útlendum fjelögum. Það er auðvitað svo, að ef þessi samkepni verður tekin upp, þá verður Landsverslun að haga sjer alt öðruvísi en hún hefir gert meðan einkasalan er. Og þá verða það smærri útvegsmenn á útkjálkum landsins, sem verða útundan, eins og hv. 5. landsk. (JJ) sagði. Við þekkjum dálítið inn á það, hvort menn væru svo þjóðlegir, að þeir vildu helst skifta við Landsverslun og tækju hana fram yfir útlend fjelög. Við þekkjum reynsluna af Sameinaða fjelaginu og Eimskipafjelaginu. Á hverju ári þarf að styrkja Eimskipafjelagið, vegna þess, að það útlenda fjelag tekur aðeins bestu hafnirnar, þar sem mest er að fá og. minstar eru tafir. Og það eru margir kaupmenn til, sem eru svo óþjóðræknir að láta Eimskipafjelagið ekki ganga fyrir viðskiftum, jafnvel að öðru jöfnu.

Við mundum ekki geta ráðið, hvernig Steinolíufjelagið hagar sínu verðlagi, en menn mundu heimta, að Landsverslun birgði upp þá afskektu staði, þar sem dýrt er að koma olíunni. Hinsvegar mun svo af þeim mönnum, sem heimta þetta, vera gerður samanburður á verði Landsverslunar og steinolíufjelagsins væntanlega. En þetta fyrirkomulag, sem við eigum við að búa nú, er fulltrygt fyrir alla hlutaðeigendur. Fiskifjelagið, sem er fjelag þeirra manna, sem er kunnugast um þetta, hefir fúslega viðurkent það.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) var með samanburð á verði á olíu, sem keypt var í Hull, við verð Landsverslunar, og sama gerði hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), en þeim bar ekki algerlega saman um tölurnar, og þegar slíkt skeður, verða menn dálítið tortryggir. Jeg segi ekki, að þeir hafi „diktað upp“ neinum tölum, en jeg er bara hræddur um, að þeir standi ekki á nægilega góðum grundvelli. Hv. þm. N.-Ísf. vílaði ekki fyrir sjer að vjefengja þá skýrslu Landsverslunar, sem hefir legið hjer prentuð frammi fyrir þingmönnum. Það hefir reyndar orðið svo, að það, sem átti að rota Landsverslunina hjá flutningsmönnum, að minsta kosti tveimur, það var þessi dæmalausa rubba af tölum, sem þeir komu með. Jeg vil lítillega athuga, hvernig þeir hafa farið með þessa útreikninga. Það er vissulega rjett hjá hv. þm. N.-Ísf. og öðrum, að ef skýrsla Landsverslunar væri þannig úr garði gerð, að ekki væri hægt á henni að byggja, þá væri þetta verulegt atriði. En dæmið, sem hv. þm. tók, var viðvíkjandi mismun á verði steinolíu samkv. aðalútreikningi verslunarinnar. Hann benti á bls. 10 og bls. 4, þar sem talað er um innlendan kostnað hjá þeim mönnum, sem fengu leyfi til að flytja inn steinolíu. Hv. þm. sagði, að eftir því, sem greinir á bls. 4, væri innlendi kostnaðurinn kr. 16,20, en við samanburðinn, þegar jeg átti tal við hv. þm., komst hann að þeirri niðurstöðu, að hann væri ekki hærri en kr. 15,54. En þetta er bara samlagningarvilla. Hjer eru tekin 3 dæmi; og innlendur kostnaður er ekki altaf sá sami, eins og altaf hlýtur að vera, þótt um sömu vörutegund sje að ræða. Og kostnaðurinn í þessum 3 dæmum er þannig: Í því fyrsta kr. 13,14, öðru kr. 12,44, og í því þriðja kr. 15,54, en ekki kr. 16,20, eins og hv. þm. sagði, enda hefir hann játað að það væri samlagningarvilla hjá sjer. Eftir þessu er um talsverðan mismun að ræða, eða liðlega 5 kr. á tn, og skiftir það talsverðu. En háttv. þm. er ekki nógu sterkur í reikningi sjálfur, því hann hefir ekki gætt þess, að hæsti kostnaður í Landsverslunni er 13 kr. á tn., en ekki 10 kr., og meðaltalsreikningur hans sýnir 13,70, og yfir höfuð er ekki um 5 eða 6 kr. mismun að ræða, heldur um kr. 1,50. Það má og sjá á kostnaðarmismun 3. dæmisins, að það getur vel munað þessari upphæð. Hann vildi leiða af þessum dæmum, að skýrslan væri óábyggileg og ætti ekki að taka hana trúanlega, en jeg vænti þá, að það muni reynast erfitt fyrir andstæðinga Landsverslunar að finna að skýrslunni með rökum. Og jeg hefi hjer hrakið það, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vjefengdi í skýrslu Landsverslunarinnar, og sýnt, að hann hefir ekki farið með rjett mál. Hann sagði, að andmælin gegn till. væru miðuð við D. D. P. A., sem er ofureðlilegt. Lýsing sú, sem gefin hefir verið af starfsemi þess fjelagsskapar, hvetur ekki til þess, að því sje hleypt aftur inn í landið. Hv. þm. sagði, að jeg hefði ekki gert grein fyrir, hvort jeg verð með eða móti þessari till., en það er ekki satt. Hann getur og sagt sjer það sjálfur, að úr því að jeg tel landsverslunarfyrirkomulagið langbest, hljóti jeg að snúast gegn þessari till., ekki síst þegar því er lýst yfir, ef till. verður samþ., að Landsverslunin verði framvegis rekin í sem smæstum stíl. Þess vegna ætti það að vera augljóst, á hvora sveifina jeg hallast, er jeg tel það miklu skifta, hvort sjómenn vorir fái steinolíutunnuna 5 kr. ódýrari en ella, og jeg tel það fullvíst, að þau kjör fái þeir aðeins hjá Landsversluninni, en ekki í frjálsri verslun. Hæstv. fjrh. (JÞ) kom með makt og miklu veldi og gaf yfirlýsingu fyrir hönd stjórnarinnar um steinolíuverslunina. Venjan hefir þó oftast verið sú, að slíkar yfirlýsingar væru gefnar af forsætisráðherra, en ekki neinum öðrum ráðherra, og vænti jeg því ekki, að brostinn sje flótti í þessu máli í stjórnarliðinu, eða að það sje búið að skifta þar um forystumann. En hvað um það, hæstv. fjrh. (Jþ) lýsti því yfir, að óhjákvæmilegt væri að draga inn varasjóð Landsverslunarinnar. Jeg býst við, að þetta sje nú aðallega sprottið af því, að hæstv. fjrh. leið ekki sem allra best við síðustu atkvgr. um fjárlögin. Hann varð hálfvondur í skapi þá, og nú brýst þessi vonska hans út á þann hátt, að hann þykist þurfa að hefna sín á þingheimi með því að hreyta ónotum í þm. En jeg hygg, að stjórnin geti hvorki fært saman steinolíuverslunina nje lagt hana niður með öllu, ef þessi till. verður feld, því þá hlýtur Landsverslunin að halda áfram í sama formi og áður. (JAJ: Ætlar hv. þm. ekki að fella stjórnina á morgun?) Jeg vildi gjarnan geta komið því til leiðar, að hún færi.

Mjer skilst, að Landsverslunin hafi ekki meira fje undir höndum en nauðsynlegt er, og getur hún því ekki mist neitt af því, sem neinu nemur fyrir ríkissjóð. Það getur líka farið svo, að Landsverslunin þurfi miklu meira fje til að halda uppi versluninni í frjálsri samkepni, og því er hættulegt að taka varasjóðinn frá henni og gera hann að eyðslufje ríkissjóðs. Það gæti farið svo, að einstakir menn eða fjelög hættu við að reyna að byrgja landið upp með steinolíu, ef þeir tapa á versluninni, og þá yrði Landsverslunin að koma til skjalanna. Þess vegna gæti það haft mjög illar afleiðingar, ef varasjóðurinn yrði tekinn af Landsversluninni.

Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) tók aftur til máls og lýsti því yfir í annað sinn, að málið væri borið fram með hagsmuni útvegsins fyrir augum og ekki af neinum öðrum ástæðum. þetta má vel vera að hafi vakað fyrir hv. flm. tillögunnar, en því er nú svo varið, að það eru ekki allir útvegsmenn á eitt sáttir um það, hvað þeim sje fyrir bestu. Hæstv. forseti Nd. (BSv) talaði í gær um nokkra útvegsmenn, sem voru á alt öðru máli um þessa till. og töldu hana síður en svo stefna að því, sem þeim væri fyrir bestu. Sama hefir og háttv. 2. þm. S.-M. (IP) lýst yfir, og er hann sjálfur útvegsmaður. Telur hann landsverslunina með steinolíu vera eitt hið mesta hagræði útvegsmönnum, enda hefir hann reynsluna fyrir sjer í því. Það eru einmitt hinir smærri útvegsmenn, sem mestan hag hafa af Landsversluninni, og þeir eru mjög margir á öllu landinu, og því er ekki gott, ef hagur þeirra væri fyrir borð borinn, og svo muna menn vel enn þá, hvernig þeim vegnaði á einokunarárum D. D. P. A. Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) miklast mjög af útgerðarviti sínu og lætur í veðri vaka, að jeg og aðrir beri lítið skyn á þau mál. En jeg er þó ekki svo blindur í málinu, að jeg sjái ekki, að það vantar allmikið á, að allir útgerðarmenn sjeu honum sammála, og það gæti jafnvel hugsast, að þeir væru ekki færri, sem mjer eru sammála í þessu máli, svo hv. þm. Ísaf. hefir lítið að monta af. Annars er framkoma þessa hv. þm. í þessu máli alleinkennileg. Hann þykist hafa mikil og sterk rök fram að færa og tekur það illa upp, ef einhver gerist svo djarfur að rengja útreikninga hans, en hann rengir þó sjálfur sína eigin útreikninga hvað eftir annað og hefir þegar hvað eftir annað orðið að leiðrjetta þá, þegar honum hefir verið sýnd og rakin öll saga þessa máls.

Þá vil jeg í fáum orðum snúa mjer að ræðu hv. þm. Ak. (BL). Hann fór í pontuna og talaði allgeyst, sem hann á vanda til. Sagði einhver háttv. þm., að fátt hefði verið nýtilegt í ræðu hans, og er jeg allmjög á því máli, en þó tel jeg þann einn kost við ræðu hans, að þar voru engar tölur. Að öðru leyti fanst mjer ekki til um ræðu hans. Hv. þm. Ak. (BL) sagði, að Landsverslunin hefði bitið bakfiskinn úr kaupmönnum, en hafi hún gert það, hefir hún verið hagstæð öðrum landsmönnum, þ. e. þeim, sem þurftu að kaupa vörur þær, er hún hefir að selja, og jeg tel það því gott verk, ef hún hefir getað bitið bakfiskinn úr kaupmönnum, sem hafa ætlað að okra á almenningi. Hv. þm. (BL) taldi skýrslur Landsverslunarinnar óábyggilegar, en jeg hefi þó sýnt, að það er vel hægt að byggja á þeim. Þá fann hann að því, að Landsverslunin gæfi út þessar skýrslur og hefði launaða menn til þess starfa. En hverjum var skyldara að gera þetta? Jeg veit ekki betur en að Landsverslunin sje eign ríkisins, og er hún því blátt áfram skyld til að gera þetta og láta ekki mishermi um hana ómótmælt og leiðrjetta þau, ef fram koma. Þess vegna er það kostur við Landsverslunina, að hún gefur út skýrslur um starfsemi sína, og hefir hún þann kost fram yfir kaupmenn. Hann talaði um ýmsar „slúðursögur“, sem gengju um steinolíuverslunina, en jeg veit ekki til, að nokkur maður hafi heyrt þær fyr en hann kom sjálfur með þær inn í þingið. Jeg hefi að minsta kosti aldrei fyr heyrt forstjóra Landsverslunarinnar, hr. Magnúsi Kristjánssyni, brugðið um að hann drægi sjer af opinberu fje. Hv. þm. Ak. (BL) kveðst ekki trúa þessum áburði, en hann verður þó fyrstur manna til að koma þessum sögum á framfæri. Gróa á Leiti sagðist ekki taka ábyrgð á sögum þeim, sem hún bar á milli manna, hún sagðist aðeins hafa heyrt þær, og hún vakti með þeim tortrygni, og rógi hennar var trúað. Þessi saga hv. þm. Ak. (BL) um forstjóra Landsverslunarinnar, að hann fái sjálfur sjerstaka ágóðaþóknun af hverri tunnu, er því mjög móðgandi fyrir hann, enda þótt hv. þm. Ak. (BL) segist ekki trúa því sjálfur, en það eru fjöldamargir svo gerðir, að þeir vilja heldur trúa illu um náungann. Hv. þm. Ak. (BL) á heiðurinn af því að hafa fyrstur kveðið upp úr með þessar álygar, enda þótt hann reyni að klína sökinni á aðra, en sagan verður aðeins rakin til hans sjálfs að svo komnu. Hann ætti að endurtaka þessa lygi sína utan þings, til þess að hlutaðeigendur gætu rekið rjettar síns. Það er þung sök, ef áburðurinn er tekinn trúanlegur, að opinberir starfsmenn ríkisins þiggi mútur, en það er þetta, sem felst í Gróusögum hv. þm. Ak. (BL). Hann segir, að við getum ekki spornað við því, að erlend (Ameríku) fjelög nái tökum á allri olíuversluninni, og tók sem dæmi, að í Þýskalandi hefði það engan árangur borið, þó að miljónum króna hafi verið varið til að koma í veg fyrir þetta. Í fljótu bragði virðist þetta vera rjett ályktun, en þó hefir okkur tekist þetta. Líklegast er það af því, að við erum svo mikið kotríki, að hringunum hefir ekki þótt svara kostnaði að leggja okkur undir sig. Við getum því, ef við viljum, verið lausir við þessa erlendu hringi, nema einhverjir vilji opna aftur dyrnar og hleypa þeim aftur inn í landið. Þeir segjast engir vilja gera þetta, og því síður vilja þeir viðurkenna, að þeir sjeu nú að opna dyrnar, en hver verður afleiðingin, ef till. verður samþykt? það er annars undarlegt hjá hv. þm. Ak. (BL), er hann segir, að hann vilji losa ríkið við áhættuna við steinolíuverslunina. Jeg skil ekki. hvernig hann getur haldið þessu fram, er hann ber fram þessa till., sem eftir hans áliti hlýtur að stefna út á miklu háskalegri braut en einkasala Landsverslunarinnar er, þar sem einmitt má búast við erlendu steinolíuhringunum, ef þeim kynni þá fyrst að detta í hug að leggja okkur undir sig, þegar Landsverslunin er ekki lengur við lýði. En meðan einkasalan er óskert, er okkur óhætt fyrir þeim. Nei, hættan mesta er að opna dyrnar fyrir „Standard Oil“, og er því best að búa áfram við það fyrirkomulag, sem nú er. Hv. þm. Ak. (BL) hafði á móti því, að Landsverslunin væri svo voldug, hún væri ríki í ríkinu. Hann sagði og, að forstjóri hennar væri andstæðingur sinn í stjórnmálum. Ef það á að vera mestu ráðandi, að andstæðingur hans eigi í hlut. Þá er það „pólitík“, sem er óframbærileg og engum þingmanni sæmandi. Það er algerlega óviðeigandi, og ekki síst í slíku stórmáli sem þessu, að þm. sem, að aðalatriðið hjá sjer sje að bola stjórnmálaandstæðingi sínum frá atvinnu. Við Landsverslunina vinna menn úr öllum stjórnmálaflokkum, líka úr Íhaldsflokknum. Hv. þm. Ak. (BL) fer einmitt eins og sagt er í vísunni:

„Ekki sjer hann sína menn, svo hann ber þá líka“.

Hann vill vinna til þess, að íhaldsmenn verði sviftir starfi, aðeins ef hann getur náð sjer niðri á forstöðumönnum Landsverslunarinnar. Hann komst að þeirri niðurstöðu í ræðu sinni, að hann sæi lítinn þakklætis- eða iðrunarvott hjá mjer eða öðrum þm. sama sinnis, þó að gert væri ráð fyrir í þessari till., sem hann ber fram, að Landsverslunin fengi að lifa framvegis, og hann bætti því við um mig, að jeg ætti litla samleið með guði almáttugum. Ekki er nú lítill ofmetnaðurinn í hv. þm. Ak. (BL). Eftir þessu á sá, sem er á móti hv. þm. Ak., enga samleið með guði almáttugum. Þetta hefði nú einhvein tíma verið kallað guðlast. Hæstv. forsrh. (JM), sem hefir þegar sýnt það, að hann er allröggsamur í því að láta hegna mönnum fyrir guðlast, ætti að taka duglega í lurginn á hv. þm. Ak. Það gæti líka verið að hv. þm. (BL) hugsi eins og Lárus „methodisti“, sem sagði stundum í prjedikunum sínum, er honum mislíkaði við einhvern: „Heyrðu, góði, þú ferð nú beint niður til andskotans“. Hv. þm. Ak. (BL) virðist hafa svipaða tilhneigingu, að vísa öllum andstæðingum sínum í stjórnmálum „norður og niður“.