11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

131. mál, steinolíuverslunin

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg hefi áður lýst skoðun minni á þessu máli og þarf því ekki að skýra hana frekar. Ekki mun jeg heldur fara að svara því, sem til mín hefir verið beint. Hjer er engin nauðsyn að margþrátta. En út af ummælum hv. flm. (SigurjJ) vil jeg segja nokkur orð.

Þessi hv. þm. játaði, að tillaga hans væri nokkuð seint fram komin, og vildi kenna mjer um það og spurði, hvers vegna jeg hefði ekki komið fyr með mína tillögu. En þetta kemur málinu ekkert við. Mín tillaga gengur í þá átt að skora á ríkisstjórnina að hætta ekki einkasölu ríkisins á steinolíu án samþykkis Alþingis. Hún er því aðeins formsatriði, sem ekki gefur tilefni til, að rætt sje um málið yfirleitt. En tillaga sú, sem nú er til umræðu, er um það, hvort Landsverslunin skuli halda áfram eða verða lögð niður. Það er því hún, sem opnar hina víðu leið að þessum miklu umræðum. Tillögur okkar því gerólíkar. Mín er aðeins formsatriði og krefst því lítilla umræðna, enda nú óþörf orðin, þar sem hin þáltill. er fram komin. En hin heimtar svo mikla rannsókn, að óforsvaranlegt má telja að bera hana fram nú síðustu daga þingsins.

Jeg vil nú beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sjer ekki fært að vísa tillögu þeirri frá, sem hjer er til umræðu, þar sem með henni er skorað á stjórnina að gera þá hluti, sem engin heimild er fyrir að gera. Það er skorað á hana að leggja niður einkasölu, sem hún hefir heimild til að reka lögum samkvæmt. Við því er í sjálfu sjer ekkert að segja frá formsins hlið, en það er ennfremur skorað á hana að láta landsverslun með steinolíu halda áfram í frjálsri samkepni, að minsta kosti fyrst um sinn. En jeg lít svo á, að engin heimild sje til þess, þar sem 2. gr. einkasölulaganna frá 1917 segir svo: „þegar landsstjórnin hefir tekið að sjer aðflutninga á steinolíu samkvæmt 1. gr., er engum öðrum leyfilegt að flytja hingað steinolíu en landsstjórninni, nema með sjerstöku leyfi hennar“. Háttv. þm. N.-Þ. (BSv) óskaði, að sú leið yrði farin, að undanþágur yrðu veittar, þegar kvartanir kæmu eða umsóknir um undanþágur. Þetta er að vísu heimil leið. Og skýrsla Landsverslunar sýnir, að síðastliðið ár hafa þrjú slík leyfi verið veitt, en ekkert þeirra hefir orðið til fjár þeim, sem fengu þau. Þar sem nú lög þessi eru einkasöluheimild, þá liggur það í augum uppi, að samkvæmt þeim er ekki heimild til þess að reka steinolíuverslun í frjálsri samkepni. óska jeg því, að hæstv. forseti vísi tillögunni frá.