12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

131. mál, steinolíuverslunin

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal ekki bera olíu í þann eld, sem hjer hefir brunnið um hríð — og brunnið glatt.

Mjer virðist hjer um svo alvarlegt mál að ræða, að því verði að ráða til lykta án stórdeilna, og það því fremur, sem hv. þm. mun flestum vel ljóst, um hvað þeir eiga hjer að úrskurða.

Jeg mun ekki fara út í það, hvernig steinolíueinkasalan hefir verið rekin, eða hvort annað fyrirkomulag muni heppilegra á olíuversluninni, enda hafa svo góð rök verið færð að þessum atriðum, að jeg hefi þar engu við að bæta.

Það er einkum vegna formsatriða, sem snerta þessa till., að jeg hefi kvatt mjer hljóðs, og eins til að gera grein fyrir atkv. mínu um þá till. hv. þm. N.-Þ. (BSv) að vísa málinu til stjórnarinnar.

Ef ekkert fleira hefði fram komið hjer við umr., hefði jeg hallast að þeirri till., því undir venjulegum kringumstæðum þýðir samþykt slíkrar till. sama og að fella málið, sem er til umr. í hverju falli. En við þessar umr. hefir ýmislegt komið í ljós, sem veldur því, að jeg get ekki sætt mig við þá afgreiðslu málsins.

Hæstv. atvrh. (MG), sem nú er yfirmaður steinolíueinkasölunnar, var á þinginu 1917 frsm. þeirrar nefndar, sem hafði heimildarlögin um einkasöluna til meðferðar. Þá lýsti hann yfir því, að eftir að ríkið hefði á annað borð tekið að sjer einkasölu á steinolíu, þá mætti ekki leggja hana niður, nema að fengnum nýjum þingvilja. Í sömu átt hnigu ummæli hv. flm. (SigurjJ) nú. Hann sagði, að sjer hafi ekki verið ljóst fyr en nú á dögunum, að stjórnin gæti ekki lagt steinolíueinkasöluna niður, nema nýr þingvilji stæði þar að baki, og því væri þessi till. svo seint fram komin.

Mjer finst harla merkilegt, að þessar yfirlýsingar hæstv. núverandi atvrh. (MG) og hv. flm. (SigurjJ) skuli falla svo saman, og því undarlegar kemur mjer fyrir sjónir annað, sem fram hefir komið við þessar umr. og fer í þveröfuga átt, að því er jeg best fæ sjeð.

Hæstv. fjrh. (JÞ) las hjer í gær skriflega yfirlýsingu af hálfu hæstv. stjórnar, og gat jeg ritað niður orðrjettan kafla úr henni.

Hæstv. fjrh. (Jp) vitnaði til þess, að þar sem þingið hafi nú hækkað svo mjög gjaldabálk fjárlagafrv. fyrir árið 1926, þá sje svo komið, að hæstv. stjórn telji nauðsyn bera til að draga inn í ríkissjóð mikinn hluta varasjóðs Landsverslunarinnar. En þar sem mestur hluti hans standi einmitt í steinolíuversluninni, þá hljóti afleiðingin að verða sú, að sú verslun verði látin draga saman seglin til muna. Hæstv. fjrh. fórust svo orð:

„Af þessu leiðir það, að starfsfje verslunarinnar mun minka að miklum mun, og þótt þess vegna steinolíuversluninni kunni að verða haldið áfram að einhverju leyti fyrst um sinn, af þeim ástæðum, sem till. gerir ráð fyrir, þá hlýtur það a. m. k. að verða í miklu smærri stíl en núverandi einkasala er rekin í“.

Þessa yfirlýsingu gefur hæstv. fjrh. f. h. hæstv. stjórnar, án nokkurs fyrirvara um, að þetta sje háð samþykt þeirrar þáltill., sem hjer liggur fyrir. Hann lýsir sem sje yfir því, að hæstv. stjórn sje þegar búin að taka ákvörðun um að minka steinolíuverslun ríkisins svo mjög; gefur meira að segja í skyn, að svo kunni að fara, að hún verði með öllu lögð niður.

Jeg efa ekki, að hæstv. ráðh. hefir talað hjer fyrir munn hæstv. stjórnar allrar, og er þá augljóst, hvaða stefnu hún hefir tekið, áður en hún veit um afdrif þessarar þáltill., áður en hún veit, hvort sá nýi þingvilji, sem hæstv. atvrh. og hv. flm. (SigurjJ) hafa skýlaust lýst yfir, að þurfi að koma, muni fást fyrir afnámi einkasölunnar. Það má vel vera, að hæstv. fjrh. hafi gefið þessa yfirlýsingu óvart að einhverju leyti, en hún er skýr eins og hann setti hana fram.

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þá hlið málsins, hversu undarlegt það er, að hæstv. atvrh. og hv. flm. (SigurjJ) halda fram einni skoðun á þessu atriði, en hæstv. fjrh. annari af hálfu allrar hæstv. stjórnar, og þá einnig af hálfu hæstv. atvrh. það dularfulla fyrirbrigði get jeg ekki skýrt.

En út frá þessum forsendum get jeg ekki greitt þeirri till. hv. þm. N.-Þ. (BSv), að vísa málinu til stjórnarinnar, atkvæði, þar sem það er sama og að greiða því atkv., að olíuverslun ríkisins verði dregin saman til muna, eða jafnvel alveg lögð niður. M. ö. o.: að vísa þessu máli til stjórnarinnar nú hefði alveg þveröfug áhrif við það, sem venjulegt er, þegar málum er vísað til stjórnarinnar.

Þá er annað atriði í nánu sambandi við það, sem jeg nú hefi talað um.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta (JóhJóh), hvort stjórninni myndi heimilt að reka þá verslun, sem þál. fjallar um, þó að hún næði samþykki. Hv. þm. (ÁÁ) benti á, að heimildarlögin frá 1917 heimiluðu ríkisstjórninni einungis að reka einkasölu með steinolíu, en aðra verslun ekki. Hæstv. forseti (Jóh Jóh), sem jafnframt er dómari, leit svo á, að slíkur verslunarrekstur væri ekki heimilaður í lögunum frá 1917, en hinsvegar fælist í þál. sjálfri ný heimild fyrir ríkisstjórnina til að reka þá verslun, sem í till. getur.

Í ljósi þessarar skýringar hæstv. forseta verður yfirlýsing hæstv. fjrh. einnig harla einkennileg.

Hæstv. forseti lítur svo á, að ríkisstjórninni sje óheimilt að reka samkepnisverslun með steinolíu, nema samþykki þingsins komi til, en hæstv. fjrh. lýsir yfir því, að hæstv. stjórn hafi ákveðið þetta áður en nokkur veit um vilja þingsins.

Enn vil jeg víkja að einu atriði í sambandi við þetta mál.

Vitanlega ætla jeg mjer ekki þá dul að deila við hæstv. forseta um það, hvort telja megi samþykt þessarar þáltill. nægilegan grundvöll fyrir ríkisstjórnina til að reka þá olíuverslun, sem þar getur. En sem leikmaður vil jeg benda á eitt atriði.

Í niðurlagi 29. gr. þingskapanna segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Þingsályktunartillögur, sem fara fram á útgjöld úr landssjóði, skal jafnan bera upp í báðum deildum og hafa tvær umræður um þær“.

Nú segir þessi þáltill. svo fyrir, að ríkisstjórnin skuli byrja, eða a. m. k. hafa heimild til, að reka nýja tegund olíuverslunar, sem samkvæmt ummælum hæstv. forseta heimilast ekki af lögunum frá 1917. Ennfremur efa jeg ekki, að enginn muni líta svo á, að slíkur verslunarrekstur sje heimill samkvæmt fyrirmælum í eldri lögum, sem sett voru til bráðabirgða vegna ófriðarins mikla. Heimildin felst því eingöngu í sjálfri þál. Nú er ekkert sennilegra, ef þessi verslun verður rekin, en að hún hafi í för með sjer útgjöld fyrir ríkissjóð. Fyrst og fremst hefir verslunarreksturinn talsvert mannahald í för með sjer. Þá þarf einhversstaðar að fá rekstrarfje o. s. frv. Ennfremur er ekki loku fyrir það skotið, að tap verði á ríkisverslun með olíu í samkepni við aðra innflytjendur.

það er alls ekki ómögulegt, miklu fremur mjög sennilegt, að hin afaröflugu fjelög, sem reka heimsverslunina með olíu, líti hornauga þau lagafyrirmæli, sem smáríki setur hjá sjer til að hindra verslun þeirra, og vilji fórna einhverju fje til að brjóta þann mótþróa á bak aftur.

Við skulum hugsa okkur það tilfelli, sem vel getur komið fyrir, að þessi nýja ríkisverslun og einhver keppinautur hennar, innlent eða sennilegar erlent olíusölufjelag, fái hvort sinn olíufarm um líkt leyti, en olíufjelagið setti alt í einu verð sinnar olíu niður um 10, 20 eða 30 kr. hverja tunnu, langt niður fyrir sannvirði. Ríkisverslunin yrði, nauðug, viljug að feta í fótspor olíufjelagsins og lækka verð á sinni olíu. Afleiðingin yrði svo sú, að verslunin stórtapaði á farminum, og svona gæti farið oftar. Hvar á nú að taka fje til að greiða þennan halla? Auðvitað tekur landsstjórnin það úr ríkissjóði!

Af þessum ástæðum verð jeg sem leikmaður að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort forsvaranlegt sje að afgreiða slíka þál. við eina umr. í Sþ. Ennfremur hvort ríkisstjórninni muni heimilt að stofna til framkvæmda, sem geta leitt til útgjalda fyrir ríkissjóð, á ekki öruggari grundvelli.

Þegar jeg nú dreg öll þessi atriði saman, þá finst mjer ekki ofmælt, að naumast sje verjandi að afgreiða þetta mál nú.

Þess vegna vil jeg alvarlega beina því til hv. flm. þáltill., hvort þeim, við nánari athugun, finnist mál þetta ekki verðskulda frekari rannsókn; hvort þeim finnist svo brýn nauðsyn bera til að breyta núverandi skipulagi olíuverslunarinnar, sem hefir svo mikla þýðingu fyrir mikinn hluta fiskiframleiðenda landsins, að mál þetta megi ekki bíða eitt ár enn.

Mjer blandast ekki hugur um, að hjer er um svo merkilegt mál að ræða, að mjög mikinn undirbúning þarf til þess að breyta einkasölufyrirkomulaginu eða afnema það, og er sjálfsagt, að sú ákvörðun verði tekin hjer á þingi í lagaformi. Því skýt jeg því til hv. flm., hvort þeir geti ekki sætt sig við, að málinu verði hjeðan af frestað til næsta þings og við svo búið látið sitja að þessu sinni.