12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

131. mál, steinolíuverslunin

Klemens Jónsson:

Þessar löngu umr., sem hjer hafa farið fram um þetta mál í gærdag, í nótt og í dag, hafa ekki gefið mjer tilefni til þess að standa upp og tala, fyr en hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt nú sína ræðu. Hann fór nokkuð ítarlega inn á samninga þá, sem gerðir voru við B. P. Co. 10. ágúst 1922. Hann gat þess, að þeir hefðu verið gerðir af forstjóra Landsverslunarinnar, Magnúsi Kristjánssyni, annarsvegar og umboðsmanni fjelagsins hinsvegar. En þó að nú forstjóri Landsverslunarinnar, Magnús Kristjánsson, gerði þessa samninga og undirskrifaði þá, gerði hann það vitanlega í umboði ráðherrans. Þar eð jeg var ráðherra í þá tíð, verð jeg því að álíta, að jeg beri ábyrgð á, hvernig samningarnir voru úr garði gerðir, þótt Magnús Kristjánsson undirskrifaði þá. Og jeg er ekkert hræddur við að taka á mig þá ábyrgð. Jeg vil geta þess, að þessir samningar voru ekki gerðir út í loftið, síður en svo. Þeir voru vel og vandlega undirbúnir. Jeg man, að fyrsta uppkastið, sem kom til stjórnarráðsins, var mjög vandlega og rækilega skoðað og athugað og gerðar á því mjög miklar breytingar. Hæstv. fjrh. (JÞ) er innanhandar að sjá þetta sjálfur og ganga úr skugga um, að þessir samningar voru síst ígerðir óhugsað eða í fljótræði. Jeg verð nú að álíta, að forstjóri Landsverslunarinnar hafi svo mikla og góða verslunarþekkingu til að bera, að honum væri vel trúandi til þess að gera þessa samninga þannig úr garði, að vel væri við unandi. Sjerstaklega verð jeg að taka það fram, að jeg veit, að hann er svo verslunarfróður, að hann veit, hvað er hið venjulega stórkaupamarkaðsverð. Í þessu efni er hann sjálfsagt miklu fremri hæstv. fjrh., enda hefir hann miklu meiri reynslu í verslunarsökum. Þar að auki er maðurinn mjög vel gefinn að öllu öðru leyti, og er því mjög hæpið fyrir hæstv. fjrh., og hvern sem er, að gera mikinn aðsúg að honum eða gagnrýna verk þau, er hann hefir unnið.

Hæstv. fjrh. kom með verð, sem hann sagði að væri miðað við útreikning samninganna, en gerði þess ekki aðra grein en þá, að hann las upp ýmsar tölur. Jeg verð nú að taka undir það með ýmsum hv. þm., að það er mjög erfitt að átta sig á tölum, sem kastað er fram í umr. öllum að óvörum, og gera sjer nokkra grein fyrir, hvort slíkar tölur og útreikningar, sem á þeim eru bygðir, sjeu nærri lagi. Bæði meðhaldsmenn og andstæðingar þessarar þáltill. hafa tekið það fram, að þetta er ekki heppileg aðferð, heldur ætti eingöngu að byggja á prentuðum skýrslum, svo að allir gætu áttað sig á tölunum. Jeg er ekki með þessu að mótmæla því, að þær tölur, sem hæstv. fjrh. fór með, sjeu rjettar. Jeg tel sjálfsagt að svo sje, þótt jeg geti ekki gengið úr skugga um það, þar sem jeg hefi ekkert til að byggja á, og ekki einu sinni sjálfan samninginn í höndum. En það er ekki nóg að koma fram með þessar tölur og segja, að fjelagið fái svo og svo mikinn ágóða, eða 350 þús. kr. á ári, að viðbættum þeim 3 kr., sem það fær fyrir að fylla hverja tunnu. Þetta sannar alls ekki neitt út af fyrir sig. Til þess að komast að hinu sanna þarf að gera samanburð á þessum tölum og öðrum tölum, og þó aðallega tölum D. D. P. A., og sjá, hverjar tölurnar eru lægstar. Það þarf að athuga, hvort verðið er nokkuð hærra nú en hjá hinu íslenska steinolíufjelagi á sínum tíma, þrátt fyrir öll þessi fríðindi, sem hæstv. fjrh. telur B. P. Co. hafa fengið með samningnum. Að þessu vjek hæstv. fjrh. (JÞ) ekki einu orði. Öll þessi töluþula hans sannaði því ekki neitt. Nú er það vitanlegt, að þrátt fyrir alt, sem finna má þessum tölum til foráttu, þá hefir steinolía Landsverslunarinnar verið ódýrari en steinolíufjelagins upp á síðkastið, að jeg nú ekki tali um þegar steinolíufjelagið var almáttugt og rúði og fjefletti almenning og beitti til þess jafnvel ósæmilegum brögðum.

Hæstv. fjrh. játaði, að fyrra fjelagið hefði verið ilt, en hann vildi halda því fram, að þetta væri hálfu verra. Nú vil jeg minna á það, að hæstv. fjrh. hjelt því tvisvar fram í ræðu út af fyrirspurn, sem kom fram 1923, að það kæmi í sama stað niður, hvort fjelagið væri, sökum þess, að B. P. Co. væri aðeins angi af Standard Oil. Nú er ilt að skilja, ef í rauninni er um sama fjelagið að ræða, að annað sje hálfu verra en hitt. Þar verður þá sjálfsagt varla gert á milli. En nú vil jeg segja frá öðru, því, að steinolíufjelagið danska, sem í rauninni hafði útsöluna hjer, varð afar gramt, þegar þessir samningar voru gerðir og landið tók steinolíuna í sínar hendur haustið 1922. Jeg var staddur í Kaupmannahöfn, og forstjóri danska fjelagsins kom þá til mín og átti tal við mig. Var hann mjög óánægður, ekki yfir því, að landið hafði tekið að sjer verslunina, heldur yfir því, að fjelagi hans hafði ekki verið gefinn kostur á að „konkurrera“. Var honum það varla láandi, en ástæður þær, er til þess lágu, voru teknar fram út af fyrirspurn, er gerð var á þinginu 1923, og getur hver sem vill lesið um það í þingtíðindunum frá því ári. Forstjórinn beiddi mig þess, er við áttum tal saman, að lofa sjer að sjá samninga þá, er gerðir höfðu verið við breska fjelagið. Hafði jeg samningana og las fyrir honum fyrstu síðu þeirra, þar sem sjerstaklega er talað um verðið og álagninguna. Tók jeg eftir því, að hann bliknaði, er hann heyrði skilmálana, og skildist mjer af því, að hann furðaði svo mjög á, hve góð kjör við hefðum hlotið. Veit jeg, að hv. þm. er fullkunnugt um, að menn geta lesið í svip annara, og jeg var ekki í vafa um, að forstjóri þessi stórfurðaði sig á því, að hve góðum samningum við hefðum komist.

Þess vil jeg og geta, að hafi þessi landsverslun reynst svo illa, sem hæstv. fjrh. vildi vera láta, þar sem hann sagði, að við hefðum lent í nýjum okurklóm, þá undrar mig, að þetta skuli ekki hafa valdið meiri óánægju úti um land en orðið hefir. Jeg þori þvert á móti að fullyrða, og fleiri hv. þm. hafa tekið í sama strenginn, að þessi steinolíuverslun hefir valdið almennri ánægju. Að vísu munu ýmsir kaupmenn óánægðir með hana. Er þeim það vart láandi, því vitanlega er hún, sem önnur einkasala, þeim til nokkurs óhags, og leiðir það til þess, að þeir eru á móti henni, jafnvel þótt þeir geti ekki fært rök fyrir, að hún sje landinu til óheilla. Jeg er og jafnsannfærður um, að í hjarta sínu er hæstv. fjrh. fullviss um, að ekki mun rjett að afnema þessa landsverslun. En hann er svo ákveðinn og einlægur vinur friálsrar verslunar, að hann vill fórna öllu fyrir hana, eins og sást meðal annars, er rætt var um tóbakseinkasöluna á dögunum. Þá hjelt hæstv. fjrh. því fram, að það hefði verið óheimilt af stjórninni að gera samninginn. Á hann þar við fyrirmæli 4. gr., að ekki megi kaupa olíuna hærra verði en almennu stórkaupamarkaðsverði. En hæstv. fjrh. kom ekki með neitt, sem sannaði það, að verðið hefði farið fram úr því. Tölurnar, sem hann var með, upplýstu aðeins, hvað B. P. Co. fengi olíuna á, en ekki að það seldi okkur hana fyrir ofan stórkaupamarkaðsverð. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að ómögulegt er að færa rök að slíku. Þvert á móti er jeg alveg sannfærður um, að við höfum hjer sætt meiri vildarkjörum en nokkru sinni fyr. Hinsvegar segi jeg ekki, að við getum ekki komist að enn betri kjörum. Þess vegna var það, að jeg lofaði danska forstjóranum því, að ef jeg mætti ráða, skyldi samningnum verða sagt upp 1925. Þetta loforð er skrifað á skjal, sem málið snertir, í stjórnarráðinu, og býst jeg við, að það finnist þar enn. Skráði jeg þetta loforð skömmu áður en jeg fór frá í fyrra, af því að þá þóttist jeg sjá, að jeg mundi fá litlu um það ráðið, hvort samningnum yrði sagt upp 1925, eins og nú er komið á daginn. En jeg vildi sýna, að jeg hefði munað eftir loforði mínu. Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, kom mjer það síður en svo á óvart eða illa, að hæstv. stjórn sagði nú þessum samningum upp. Jeg hefði gert það sjálfur, ef jeg væri nú í stjórn. En þetta loforð gaf jeg af því, að jeg var sannfærður um, að forstjóri danska fjelagsins mundi gera sitt ítrasta til þess að komast að samningum við íslensku stjórnina, og þá yrðu altaf tvö fjelög til að „konkurrera“ um þennan markað, og gæti það aðeins orðið þessari þjóð til gagns, því að þá væri ætlandi, að steinolían yrði ódýrari. Jeg fann það á forstjóranum, að hann mundi leggja hið mesta kapp á að ná samningum aftur og teygja sig svo langt sem honum fyndist fœrt. Þess vegna tel jeg og rjettast, að steinolíueinkasölunni yrði haldið áfram, en fleiri fjelögum gefinn kostur á að láta henni olíu í tje. Mjer er nefnilega sama, hvaða fjelag selur til Landsverslunarinnar, hvort það er íslenskt eða danskt eða breskt, bara að það sje áreiðanlegt fjelag, sem uppfyllir skyldur sínar og veitir Íslendingum þau bestu kjör, sem völ er á. Þetta gæti unnist, ef einkasölunni verður haldið áfram. Því er það glapræði, ef nú á að hætta við hana, jafnvel þótt leyft sje, að Landsverslunin megi „konkurrera“. Mjer liggur við að segja: Mikið var að hún mátti það! En það er þó skiljanlegt, því svo greindir eru þó flm. þáltill., að þeir vita, að ef stjórnin hættir að hafa hönd í bagga með þessari verslun, þá er komið í sama horfið og áður, sem Fiskifjelagið getur fullkomlega upplýst um hvernig var.

Jeg hefi nú svarað hæstv. fjrh. og reynt að skýra frá afstöðu minni til þessa máls. Jeg hefi sýnt, að það var ekki rjett, sem hæstv. fjrh. gerði í þessu máli, því þótt jeg geti ekki rengt tölur hans, þá er hvorki sannað eða hrakið neitt með þeim. Hin ummæli sín hefir hæstv. fjrh. alls ekki sannað, þau, að við höfum lent í verri okurklóm en við áður vorum í. Til þess vantar samanburð á olíuverðinu nú og verðinu þegar D. D. P. A. hafði steinolíuverslunina.

Jeg ætla mjer ekki að ræða mikið meira um málið, en úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, get jeg ekki komist hjá því að segja, að jeg kann illa við sumt, er hv. aðalflm. (SigurjJ) sagði í gær. Mjer virtist í fyrstu, sem hann ætlaði sjer að tala rólega og hlutdrægnislaust um málið, en svo kom hann með þungar ákærur á hendur forstjóra Landsverslunarinnar. Hann ákærði hann hreint og beint fyrir að hafa skattlagt neytendur. Jeg skrifaði eftir honum: „Hafi hann skattlagt neytendur, er hann sakaverður“. Hv. aðalflm. ætti nú að vita, að það er miklu verri ákæra að segja um einhvern mann: Hafi hann gert þetta eða hitt, er hann sekur, heldur en að segja hreinlega: Hann hefir gert þetta. Við þessu hefði jeg alls ekki búist af hv. aðalflm. því þetta „hafi“, „hafi“ eru dylgjur og ekkert annað. Nú er það jafnviðurkent af öllum, og jeg býst við, að hv. aðalflm. (SigurjJ) viðurkenni það líka, að þessi forstjóri er flekklaus og alkunnur heiðursmaður. Enda hefði stjórnin ekki falið honum forstöðu Landsverslunarinnar á sínum tíma, nema hún hefði verið sannfærð um fullkominn heiðarleik hans. Nú hefir hann gegnt þessum forstjórastörfum, sumpart með öðrum og sumpart einn í 7–8 ár, og aldrei hefi jeg heyrt það, að honum hafi verið brugðið um óheiðarleik af einum eða öðrum. Jeg get nú sagt það, að jeg álít ekki, að það megi skattleggja neytendur í þessu skyni, en jeg get ekki sagt, að maðurinn sje óheiðarlegur, þó það hefði verið gert. Má vera, að hann hafi fengið leyfi stjórnarinnar til þess. Um það getur hæstv. stjórn sagt, og ef svo er ekki, ber henni að rannsaka, hvort það hefir verið gert. Jeg álít, að eftir reglugerðinni megi ekki leggja aukaskatt á neytendur í þessu skyni, heldur álít jeg, að brúka eigi varasjóðinn til þess að bœta úr þessu.

Jeg sje ekki ástæðu til að taka meiri þátt í þessum löngu umr. Sýnist mjer og tími til kominn að hætta þeim og láta atkv. sýna, hvort það er bláköld alvara hv. þm. að leggja niður þessa einkasölu, sem að minni ætlun hefir gefist einkar vel, og láta landið aftur lenda í klóm þess fjelags, sem drotnaði lengst yfir þessari verslun hjer á landi. Því það hygg jeg að verði afleiðingin, ef þessi þáltill. verður samþykt.