12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

131. mál, steinolíuverslunin

Magnús Torfason:

Eins og kunnugt er, var í þingbyrjun ráðist á útvígi Landsverslunar, tóbakseinkasöluna, og er nú búið að koma henni fyrir kattarnef. En jafnvel áður en búið er að koma henni í gröfina er ráðist á aðalstofnunina, steinolíuverslunina. Hvað snertir afnám tóbakseinkasölunnar, þá var það mál borið fram á eðlilegan hátt. Það var gert í frumvarpsformi og sætti venjulegri meðferð eftir þingsköpum og stjórnarskrá. En að því er snertir höfuðvígið, þá virðist eiga að leggja það að velli undirbúningslaust á nokkrum klukkutímum. Og þetta er stofnun, sem mörg ár var verið að undirbúa og mörg ár myndi kosta að undirbúa og koma á laggirnar aftur, ef nú er feld niður. Það stingur mjög í stúf um meðferð þessara mála, enda er sjerstök ástæða til þess, er síðar skal vikið að. Með þáltill. er farið fram á að gefa heimild til almennrar verslunar á steinolíu, og það var sagt í gær, að verið vœri að leita að þingviljanum með þessari till. En hjer er um löggjafaratriði að ræða, og það eitt hið mikilvægasta, sem fyrir þingið getur komið. Því er ekki rjett að fara þessa leið, að bera málið upp í sameinuðu þingi. Til breytingar með þál. þyrfti meiri hluta þingviljans í báðum deildum, að því áskildu, að engin löggjöf sje á því sviði, sem um er að ræða. En á þessu sviði er einmitt sjerstök löggjöf. Og það er ekki rjett að brjóta fastan löggjafarvilja nema með fullkomnum lögum. Jeg veit að vísu, að þetta eru heimildarlög og að stjórnin getur lagt verslunina niður, ef þingið felur henni að gera það. En hún hefir enga heimild til þess að taka upp frjálsa verslun. Tillaga í þá átt verður að fara gegnum hreinsunareld löggjafarvaldsins. Það verður kannske sagt, að hjer sje aðeins um form að ræða, en það er meira. Af einkasölunni á að vera viss gróði, annars er landið ekki fært um að hafa verslunina á hendi. Í frjálsri verslun yrði vandinn miklu meiri, því að Landsverslun yrði lögð sú skylda á herðar að birgja landið, og stæði hún því miklu ver að vígi heldur en þeir, sem kaupa steinolíu aðeins þegar best lætur. Það eru einnig miklar líkur til þess, að útlendir keppinautar gerðu alt, sem þeir gætu, til þess að hlunnfara landsverslun og koma henni fyrir kattarnef. Jeg verð að segja það, að ef framvegis á að reka frjálsa verslun með steinolíu fyrir landsins hönd, þá er lagt út á hættulega braut. Þá er um mikið, alvarlegt og ískyggilegt fjárhagsatriði að ræða. 1 29. gr. þingskapanna er svo fyrir mælt, að þáltill., sem fer fram á útgjöld úr ríkissjóði, skuli borin upp í báðum deildum, en ekki í Sþ. Málið er því hjer óformlega fram borið. En hjer er þó ekki um formið eitt að ræða, heldur liggur veruleiki á bak við. Og til þess að ákveða megi með þingsályktun eitthvað um fjármál í Sþ., verður fullur vilji beggja deilda að standa á bak við. En jeg neita því, að meiri hluti Nd. vilji leggja niður einkasölu á steinolíu. Með öðrum orðum: Stjórnin ætlar að nota þann ríflega meiri hluta, sem hún hefir í Ed., til þess að eyðileggja neikvæði Nd. Með þessu er verið að brjóta fjárhagsvald Nd., sem á þó að hafa töglin og hagldirnar, og verð jeg eindregið að mótmæla slíkri aðferð, sem vera mun alveg einsdæmi. Við vitum, að í hvorri deild fyrir sig þarf að bera undir atkvæði smávægilegar fjárhæðir, en hjer er verið að hafa stórfje af landinu og stofna til fjárhættuverslunar, sem getur valdið stórkostlegu tapi. Allir sjá, hve ótækt þetta er.

Jeg fer ekki út í að deila hjer um málið sjálft. Það er alveg óundirbúið og svo margt, sem þarf að taka afstöðu til, að jeg hefi ekki haft tök á að mynda mjer skoðun um einstök atriði, t. d. hvort við ættum að koma hjer upp olíugeymi. Við gætum látið Landsverslun halda áfram og koma upp geymi. Það færi sennilega best á því. Við gætum líka samið við eitthvert fjelag um að birgja landið og koma upp geymi. Um fleiri leiðir gæti verið að ræða. Þessum spurningum og ótal öðrum er ósvarað, og það hefir ekki verið reynt að svara þeim. Jeg get því ekki greitt þessari till. atkv.

Jeg get lýst því yfir, að fyrir mjer vakir hið sama um þetta mál og hv. 2. þm. Rang. (KIJ), að aðalatriðið sje að fá sem ódýrasta steinolíu. (SigurjJ: Hvernig er það með gróðann?). Verslunin getur verið góð, þó að ríkið græði. Annars þarf ekki að brýna mig á þessu, því að upphaflega átti Landsverslun að fá 3/4 af gróðanum, eftir frv. frá 1917, en það var jeg, sem kom með brtt. um, að það væri lækkað niður í 1/4. Annars átti að verja gróðanum til þess að gera olíuverslunina sem hagkvæmasta fyrir landsmenn.

Þá skal jeg víkja fáeinum orðum til hæstv. fjrh. (JÞ). Hann gaf þá yfirlýsingu hjer í gær, að vegna tekjuhallans yrði að taka varasjóð Landsverslunar til þess að borga skuldir. Þetta var nú í gær ástæðan til þess, að leggja varð niður Landsverslunina. Þetta var öll sú leiðbeining, sem þingið fjekk hjá stjórninni í gær, og hv. þingmenn voru látnir rífast fulla 8 tíma án annara leiðbeininga. Þegar jeg minnist ræðu hæstv. fjrh. í dag, verð jeg að halda, að hann hafi ekki sagt þetta að yfirlögðu ráði. Hann hefir verið dálítið úfinn í skapi, og ef hv. 2. þm. Rang. (KIJ) hefir sjeð forstjóra D. D. P. A. jafnbleikan og hæstv. fjrh. var í gær, þegar greidd voru atkvæði um fjárlögin, þá hefir honum ekki skjátlast. Hæstv. fjrh. (JÞ) var sem sagt nokkuð skapúfinn og hefir víst þurft að hreyta úr sjer ónotum þess vegna, sem ekki voru sæmileg gagnvart hv. þingmönnum. Það var einmitt í gær, sem þingið bjargaði nokkrum hundruðum þúsunda úr klónum — eða höndunum á hæstv. fjrh. Og í gær fjekk hæstv. fjrh. samþykt lög, sem samkvæmt hans yfirlýsingu ættu að gefa ríkissjóði nokkur hundruð þús. kr. í toll næsta ár. Þetta hvorttveggja er víst óhætt að segja, að vega muni fullkomlega upp á móti þessum 1/2 milj. tekjuhalla, einkum þegar á það er litið, hve tekjur ríkisins eru varlega áætlaðar. Jeg held því, að hæstv. fjrh. hafi ekki sagt þetta með fullkomlega yfirlögðu ráði.

Því hefir verið haldið fram af ýmsum ræðumönnum hjer, að hæstv. fjrh. hafi talað fyrir hönd stjórnarinnar. Jeg skildi hann ekki svo, og yfirlýsing hans í dag styrkti mig í þeirri skoðun, að hann hefði aðeins talað fyrir sinn munn. Hann lagði áherslu á, að þetta væri sín eigin yfirlýsing, en ekki stjórnarinnar, og jeg vil trúa því, meðan unt er. Jeg trúi því ekki, að hæstv. atvrh. (MG) gefi þessari þáltill. atkv. sitt.

Jeg verð að skjóta því inn í, að hjer hefir verið ráðist á mann og honum brugðið um óráðvendni. Þessi maður er Magnús Kristjánsson Landsverslunarforstjóri. En það er svo um þann mann, að hann hefir ekki einungis notið trausts og verið mikils metinn í Framsóknarflokknum, heldur einnig í Íhaldsflokknum. Jeg verð að segja, að jeg þekki ekki ráðvandari mann nje merkilegri til orða og gerða, og jeg efa ekki, að þegar hann lætur af starfi sínu, þá verður um hann sagt, að hann hafi verið allra manna dyggastur og drottinhollastur.

Að síðustu skal jeg koma að því, sem talað hefir verið um samningana. Jeg get ekki tekið yfirlýsingu hæstv. fjrh. svo alvarlega sem ella, vegna yfirlýsingar hans í gær um, að á peningunum þyrfti að halda. Jeg sje ekki, að samningarnir komi þessu máli beinlínis við, þar sem þeir eru útrunnir, og hæstv. fjrh. hefir sjálfur heimild til þess að gera nýja samninga. Nú hefir hæstv. fjrh. lýst því yfir, að hann hafi ekki reynt að gera samninga, og alt bendir á, að hann sje staðráðinn í að reyna það ekki. Með öðrum orðum, hvað góðum kjörum sem hann kynni að komast að, er hann reiðubúinn til þess að drepa Landsverslun. Fyrir honum er þetta hreint og beint stefnumál. Jeg hefi að vísu heyrt áður, að þessi samningur væri ekki eins góður og vera bæri. En jeg hafði aldrei búist við, að við fengjum svo góðan samning, að hægt væri að segja, að samið hefði verið við okkur af tómum kærleika. Það er vitanlegt, að í engri verslun eru öflugri hringar en einmitt þessari. Jeg er samt ekki í neinum vafa um það, að steinolíuverslunin hefir verið mun hagfeldari hjer síðan Landsverslun tók við. Þó skal jeg gera þá játningu, að það getur verið, að einstaka menn geti fengið betri kjör undir frjálsri verslun, þeir menn, sem hafa á hendi útsölu fyrir D. D. P. A., því að ekkert fjelag borgar víst fulltrúum sínum jafnvel og þetta. Því er ant um að hafa duglega menn í þjónustu sinni, en lítur minna á hitt, hvaða kostum almenningur verður að sæta. Það má minna á þetta gamla, sem einn forstjórinn sagði, þegar kvartað var undan verðinu: „Við ætlum að fá 200% og spyrjum engan að því“. Sjerstaklega verð jeg að taka það fram, að mjer fellur mjög illa, að hæstv. fjrh. skuli ekki ætla að bera við að leita samninga, því á þessu sviði gat kaupmannsvit hans orðið landinu að gagni. En það lítur ekki út fyrir, að hann vilji láta það skína í þarfir landsins.

Að lokum verð jeg að segja það, að ef nú á að knýja fram, að Landsverslun sje lögð niður athugunarlaust, nauðsynjalaust og að óreyndu, þá tekur hæstv. fjrh. á sig þá ábyrgð, sem síðar mun svíða undan.