12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

131. mál, steinolíuverslunin

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. aðalflm. (SigurjJ) vildi meina, að þessi till. væri löglega borin fram og samkv. þingvilja, en jeg er þar á gagnstæðri skoðun. Hann rökstuddi mál sitt með því, að þar sem ekki væri ætlast til, að þessi tilhögun á verslun væri tekjuauki fyrir landið, þá þyrfti ekki að bera till. upp í báðum deildum.

Nú er till. þess eðlis, að búast má við, að það varði töluvert fyrir landið fjárhagslega, hvort samþ. verður eða ekki. Jeg vil leyfa mjer að fullyrða, að það ákvæði þingskapanna, að ekki megi samþ. útgjöld með þál., taki af öll tvímæli um það, hversu löglega er hjer að farið. Hvað sem að öðru leyti má segja um þetta mál, þá er það ólöglega fram borið og flutt inn í þingið þvert ofan í þingsköp. Það má hvorki leggja skatta nje önnur útgjöld á landsmenn nema með lögum, en þál. er ekki lög.

Hv. þm. virtist hafa mikla trú á því, að tímarnir væru gerbreyttir frá því, sem var fyrir stríð og á stríðsárunum, en lítið hafði hann við að styðjast. Þetta var aðeins hans góða og mikla trú, og getur hver ráðið við sig, hvað hann leggur mikið upp úr henni hjá hv. þm. það er rjett, sem hann tók fram, að það hefði ekki verið meiningin með þessari tilhögun að skapa tekjulind fyrir landið. Aðalástæðan til þess, að horfið var að þessu ráði, var sú, að útvega landsmönnum ódýrari olíu. Og þetta litla gjald, sem lagt var á olíuna, var meira tryggingargjald en gróði.

Þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að mínum forna samherja hv. þm. N.-Þ. (BSv). Hann vildi halda því fram, að jeg misskildi sig, og okkur bæri í rauninni ekki svo mjög á milli. Hann sagði, að jeg væri horfinn frá því að vilja hafa þessa vörutegund í frjálsri verslun. En jeg sagði, að jeg mundi vera með frjálsri verslun, ef mjer væn sýnt fram á það, að kaupin reyndust hagkvæmari með því móti. Ef svo er, að Landsverslunin hefði haft hagstæðari innkaup heldur en ef olían hefði verið í frjálsri verslun, þá vil jeg ekki taka steinolíuverslunina af Landsversluninni og með því rýra þann möguleika, að allir landsmenn fái olíuna jafnódýra. Ef menn kaupa olíuna til eigin nota, en ekki til sölu, þá get jeg fallist á það, að þeir, sem nota olíu í stórum stíl, geti komist að jafnhagkvæmum kjörum og Landsverslun. En það yrðu aðeins þeir, sem búsettir eru í stærri stöðunum. En hvernig ætli að færi um þá menn, sem búsettir eru í smærri verstöðunum? þeim yrði olían miklu dýrari. Þeir yrðu að hafa mikinn kostnað við það að ná olíunni til sín. En sje það skoðun hv. þm. N.-Þ., að landið eigi að birgja slíka staði upp, þá hygg jeg, að það sje erfitt fyrir Landsverslunina að birgja þær hafnir, sem erlend skip koma lítið á. Og ekki trúi jeg öðru en að hv. þm. N.-Þ. geti látið sjer skiljast það, að með þessum hætti yrði olían dýrari útvegsbændum á Skálum á Langanesi en útgerðarmönnum hjer í Rvík og Vestmannaeyjum. Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg get alls ekki greitt atkv. till. hv. þm. N.-Þ. um að vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg vil heldur, að þessi þáltill. gangi sinn gang. Mál þetta hefir nú verið svo mikið rætt hjer, að jeg verð að sleppa mörgum atriðum, sem jeg hefði gjarnan viljað minnast á. Þó get jeg ekki gengið alveg fram hjá ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Mjer fanst ræða hans vera á þá leið, að ekki yrði hjá því komist að láta í ljós skoðun sína á henni. Jeg er honum þakklátur fyrir það, að hann ljet menn heyra ýmislegt úr steinolíusamningnum. Jeg skal játa það, að mjer fundust ýms atatriði samningsins athugaverð. Þar voru ýmsir kostnaðarliðir háir, og furðumikið tekur fjelagið fyrir margar sínar fyrirhafnir. Jeg hygg, að hægt mundi vera að fá hagfeldari samning, en jeg get ekki verið samþykkur ályktun hæstv. ráðherra, að ekkert skuli reynt frekar. Athugaverð atriði, sem verða á vegi manns, ættu að vera manni hvöt til þess að komast lengra í áttina. Það væri fróðlegt, ef maður hefði gögn í höndunum til þess að gera samanburð á útsöluverði í Danmörku, áður en Landsverslunin tók steinolíusöluna í sínar hendur, og útsöluverði hjer. En því miður hefi jeg engin tækifæri til þess.

Hæstv. ráðherra sagði meðal annars, að verslunarstjett landsins ætti að taka áhættuna af þessari verslun í sínar hendur, og hann gerði töluvert úr áhættunni. En jeg held fast við það, að því fleiri, sem hafa innflutninginn á hendi, því meiri áhætta er, að landið verði ekki altaf birgt af vörutegundinni. Hæstv. ráðherra gat þess og, að þeir yrðu að tryggja sig fyrir áhættunni. En með hverju tryggja menn sig fyrir áhættunni, nema með því að leggja á vöruna? Hæstv. ráðherra efaðist um, að gamla steinolíufjelagið hefði verið verra en fjelag það, sem Landsverslunin verslar við. Mjer þykir nú fjelag það, sem Landsverslunin skiftir við, að mörgu leyti ekki álitlegt, en að líkja hví við hið gamla illræmda D. D. P. A., nær þó engri átt.

Hæstv. ráðherra sagði, að Framsóknarflokkurinn og jafnaðarmenn væru hjer að verja hagsmuni erlends fjelags. En þetta eru orð, sem ráðherrann getur ekki staðið við. Eg hefi altaf tekið það skýrt fram, að fyrir mjer vakir í þessu máli ekkert annað en það, að útvega landsmönnum öllum sem ódýrasta olíu. Þetta stend jeg við. Orð mín hnigu í þá átt, að afla ætti upplýsinga um það, hvernig Landsverslunin væri rekin. Ef það kæmi í ljós við slíka rannsókn, að þetta fyrirkomulag væri óhagkvæmara en frjáls verslun, þá teldi jeg sjálfsagt að leggja Landsverslunina niður. Þetta kalla jeg ekki að verja erlent fjelag, og hæstv. ráðherra þarf ekki að gera mjer það upp, að jeg breyti ekki samkvæmt þessari skoðun minni.

Jeg vil enn á ný ítreka það, að þetta mál þarf rækilegrar rannsóknar við, svo að við getum greitt atkvæði eftir þekkingu á málinu, en þurfum ekki að byggja á staðhæfingum, sem stangast eins og mannýgir hrútar, og svo er maður engu nær að afloknu öllu skvaldrinu. Jeg mun því að svo stöddu greiða atkvæði á móti þessari þáltill. og skal svo ekki tefja umræðumar meir.