12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

131. mál, steinolíuverslunin

Jónas Jónsson:

*) Jeg get verið stuttorður núna. Þó vil jeg lítillega drepa á tvö atriði í þessu máli. Annað er saga þess, hitt reynslan. Jeg drap á það í gær, að 1912 var fyrst reynt að brjóta á bak aftur verslunarok D. D. P. A. Var inn á það gengið af öllum, og gerði bað óbeit manna á hinum erlenda hring. Þingið 1917 gaf stjórninni svo heimild til einkasölu. Það var nú játað af hv. flm. (SigurjJ), að fyrst eftir að Landsverslunin tók að versla með olíu, hafi steinolíuverslunin verið ágæt. Enda er sannleikurinn sá, að Landsverslunin kúgaði steinolíufjelagið þrep af þrepi, uns náð var venjulegu heimsmarkaðsverði. í sömu átt og þetta gengur álit Fiskifjelags Íslands. Það hefir lýst því yfir, að það vilji halda þessu söluformi áfram.

Þetta er þá saga málsins í aðaldráttunum. Og ef svo skyldi fara, að meiri hluti þingsins breytti þvert ofan í reynsluna, þá verð jeg að segja, að sú bjóð, sem slíkt þing hefir, á ekki betra skilið en að lenda aftur í klóm þess okrarafjelags, sem lagði á okkur 100–200% aukaskatt. Og nöfn þeirra, sem slíkt styðja, skulu vandlega verða geymd.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að háttv. þm. Ak. (BL). Hann rjeðst hjer í gær á forstjóra Landsverslunarinnar með dylgjum um, að forstjórinn stæli af versluninni. Að sjálfsögðu mótmælti jeg þessari árás, en út af mótmælum mínum reis hann upp og hjelt þá vitlausustu ræðu, sem nokkurn tíma hefir verið flutt á Alþingi Íslendinga, að minsta kosti síðasta mannsaldurinn. Ekkert nema fúkyrði og vitlausar staðhæfingar.

Af því nú að sumir hafa lagt það illa út, að forseti skyldi ekki svifta manninn orðinu, vil jeg taka það fram, forseta til afsökunar, að ástæðan mun hafa verið sú, að hann, eins og fleiri, mun vita, að maður þessi er ekki heilbrigður, heldur veikur, og það þannig veikur, að hann á betur heima í annari landssjóðsstofnun en Alþingi.

Það er sem sje alkunnugt, og haft eftir merkum lækni, að þegar maður þessi var ungur, þá hjelt hann altaf, að setið væri á svikráðum við sig og stöðugt væri einhver að ofsækja sig. Og eftir að hann varð fulltíða maður og bauð sig fram í Eyjafjarðarsýslu til þingsetu. Þá fylgdu honum þessi sömu ósköp. Hann hjelt, að altaf væri verið að ofsækja sig eða tala illa um sig.

Þannig er t. d. sagt, að eitt sinn, er hann kom heim úr einum kosningaleiðangrinum. alveg uppgefinn, þá hafi hann andvarnað og sagt: „Nú hefi jeg heyrt, að maður úti í Svarfaðardal hafi talað illa um mig“. Þetta var nóg til þess að gera hann ólukkulegan.

Það hefir nú orsakast svo, að jeg hefi óviljandi orðið manni þessum þyrnir í augum. Hann sagði t. d. eitt sinn við kosningar í Þingeyjarsýslu, að eiginlega væri verið að kjósa um mig og þann mann, sem hann studdi. En svo fóru samt leikar, að maður sá, sem jeg studdi, fjekk tvö atkvæði á móti hverju einu, sem stuðningsmaður hans fjekk, þrátt fyrir það, þó að sá maður væri viðurkendur sæmdarmaður.

Litlu síðar mættumst við á Akureyri, og vita allir, sem viðstaddir voru, hvernig viðskifti okkar voru þar. Síðast í vetur bar hann það í Akureyrarblöðin, að jeg hefði greitt atkvæði móti kjöttollsmálinu. Þetta var vitanlega rekið ofan í hann og hann gerður opinber ósannindamaður. Var þá skorað á hann að bera það af sjer, en í stað þess að gera það í Akureyrarblöðunum, þá segist hann munu gera það hjer. En hvað skeður? Hann hreyfir sig ekki í þá átt.

Jeg áfelli því hæstv. forseta ekki, þó að hann svifti þennan aumingja ekki orðinu, því að hjer sannast hið gamla orðtæki, að ómerk eru ómaga orð. Er því sama, hvað hann veður.

Annars er þetta aumingjamál alveg í samræmi við háttv. þm. Ak. (BL).

*Óyfirlesin ræða.