12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3207)

131. mál, steinolíuverslunin

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal aðeins bera af mjer sakir, sem hæstv. fjrh. (JÞ) bar á Framsóknarflokkinn, en beindi þó sjerstaklega til mín, þar sem hann var að svara fyrirspurn, sem jeg gerði til hæstv. stjórnar í fyrri ræðu minni.

Hæstv. fjrh. sló því fram, að við, sem viljum halda steinolíueinkasölunni áfram, ljetum stjórnast af persónulegum hagsmunum í máli þessu. Hæstv. ráðh. fór jafnvel svo langt að segja, að við hefðum slegið skjaldborg um British Petroleum Co., og vildi meira að segja líkja afstöðu okkar til þessa fjelags nú við afstöðu sumra innlendra manna til dansk-íslenska olíufjelagsins fyrir daga einkasölunnar.

Slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt. Þeir Íslendingar, sem stóðu að D. D. P. A. eða H. Í. S., sem það hjet síðar, græddu beinlínis peninga á því að vera í fjelaginu. Þeir voru þar hluthafar og höfðu þar af leiðandi beinan hag af því, að það fjelag og ekkert fjelag annað færi með steinolíuverslun landsins.

Ef okkar afstaða væri þessu lík, þá ættu till. okkar að vera þær, að ekki væri tekið annað í mál en að B. P. Co. seldi hingað alla steinolíu, sem landsmenn þörfnuðust. En það höfum við vitanlega aldrei sagt.

Mjer fyrir mitt leyti er nákvæmlega sama, hvað fjelagið heitir, sem selur hingað olíu, hvort það er angi af Rockefellers-hringnum eða Anglo-Persian o. s. frv. Jeg vil einungis skifta við þá, sem bjóða bestu kjörin, hvað svo sem þeir heita. Enda veit hæstv. fjrh., að okkur gengur ekki annað til en að landsmönnum megi verða verslunin sem hagkvæmust.

En málið er nú svo illa undirbúið og órannsakað, að mjer finst Alþingi sýna furðumikla ljettúð, ef það samþykkir þáltill. nú, einkum þegar þess er gætt, að Fiskifjelag Íslands, sem skoða má sem aðilja af hálfu smáútgerðarmanna, þeirra manna, sem nota olíu langmest, hefir óskað eftir, að steinolíueinkasalan starfi áfram.

Jeg þarf aðeins að víkja nokkrum orðum að öðru atriði.

Hæstv. forseti vjék sjer undan að svara þeirri fyrirspurn, hvort löglegt væri að stofnsetja slíka verslun, sem þáltill. gerir ráð fyrir, án frekari heimildar. Vísaði hæstv. forseti til landsstjórnarinnar og sagði, að hún yrði að bera ábyrgð á því, á hvaða grundvelli hún stofni verslunina, ef til kemur. Þess vegna er rjett að beina nokkrum orðum til hæstv. stjórnar.

Nú blasir við, að steinolíueinkasalan verði lögð niður, en farið verði í þess stað að reka nýja verslun, samkv. þál. einni saman.

Nú kemur samkepnin með allri áhættunni, sem henni fylgir.

Við skulum hugsa okkur, að afskekt hjerað, sem ekki kemur til að njóta hinna góðu kjara væntanlegra steinolíukaupmanna, verði svo afskift, að búast megi við beinum steinolíuskorti. Þá verður skylda hinnar nýju verslunar ríkisins að hlaupa undir bagga, hvernig sem á stendur, og má búast við, að verslunin geti tapað á slíku. Sama gegnir, ef einhverjir voldugir „hringar“ vilja nota fjármagn sitt til að koma ríkisversluninni á knje, með því að selja olíu undir sannvirði. Þá blasir við tap, og það er einmitt afar sennilegt, að eitthvað slíkt komi fyrir.

Nú vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., með hvaða heimild hann ætlar að greiða slíkt tap. Engin heimild er til þess gefin í fjárlögum eða nokkrum öðrum gildandi lögum. Ekki er heimildin heldur gefin með þál., sem hefir gengið rjetta boðleið gegnum þingið. Ekki er hún til í sjerstökum lögum. Heimildin er ekki til.

Gæti jeg þegar lýst yfir því, að verði leitað fjárveitingar í þessu skyni í fjáraukalögum, mun jeg telja mjer skylt að leggjast á móti henni.

Ef hæstv. stjórn ætlar að reka slíka verslun, sem í þáltill. segir, án frekari heimildar, þá lít jeg svo á, að hún og hv. Íhaldsflokkur verði að taka á sínar herðar áhættuna af versluninni.